Stóriðja – Rörin verða til
Grein/Linkur: Það er hægt að vernda umhverfið
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
Maí 1996
Það er hægt að vernda umhverfið
Það er fróðlegt fyrir lagnamenn að ganga um verksmiðjur og sjá rörin verða til. Sigurður Grétar Guðmundsson lýsir röraverksmiðju Virsbo í Svíþjóð.
Miklar umræður og stundum heiftúðlegar hafa verið um stóriðju hérlendis og hatrömmust var hún þegar álverið í Straumsvík var í undirbúningi en sem betur fer hefur umræðan þróast á hófstilltari nótur. Það er lærdómsríkt að ferðast um iðnaðarhéruð Svíþjóðar, sem er meirihluti landsins, og sjá hvernig góð sátt hefur náðst á milli iðnaðarframleiðslu og umhverfis.
Þessu verður best lýst með því að taka fyrir ákveðinn stað og svæði, lítill bær sem heitir Virsbo, inni í miðju landi norðvestur frá Stokkhólmi. Ennþá eru í fullu gildi gömlu skurðirnir sem tengja saman vötnin og á leiðinni frá Stokkhólmi eftir Strömsholms kanal eru 26 „slussar“ eða skipaþrep sem jafna út hæðarmuninn frá Eystarsalti sem er 100 m. Vatnaleiðin í heild er 110 km og þar af eru 12 km grafnir skurðir. Á leiðinni er fjöldi smábæja á sænska vísu en þættu allstórar byggðir á okkar mælikvarða. Það sem athygli vekur meðal annars er sá kraftmikli iðnaður sem er í hverjum bæ, iðnaður sem gæti vakið deilur hérlendis vegna umhverfisáhrifa.
Á okkar áfangastað, Virsbo, eru framleidd bæði plaströr og stálrör, en hvers kyns málmiðnaður hefur til þessa verið litinn hornauga vegna hugsanlegra mengandi áhrifa og þegar inn í slíka verksmiðju var komið í Virsbo þótti flestum nóg um mengað loftið. En þrátt fyrir þetta gætir þess ekki í umhverfinu, iðnaðarsvæðið er skýrt afmarkað en þó engan veginn skilið frá annarri byggð, minnti talsvert á frystihúsið og höfnina í mörgum minni bæjum hérlendis. Það er hægt að hafa atvinnusvæði þétt við eða innan um íbúðarsvæði, það er umgengnin utanhúss, viðhald og fegrun verksmiðjuhúsanna sem gildir. Það er þetta sem hefur víða brugðist hérlendis.
Það var víðar en í Virsbo sem þetta var augljóst í Svíþjóð, umfangsmikil iðnaðarframleiðsla á skógivöxnum árbökkum í fullri sátt við menn og umhverfi, þannig verður það að vera atvinnunnar, mannfólksins og umhverfisins vegna. Þetta getur við einnig gert.
Rörið hefur marþætt notagildi
Fyrir lagnamenn er fróðlegt að ganga um verksmiðjur og sjá rörin verða til hvort sem það eru plaströr eða stálrör, ekki aðeins fróðlegt heldur hefur það hagnýtt gildi. Stálrörið byrjar sem upprúlluð plata, hún skorin í hæfilegar breiddir, þær síðan dregnar gegnum vélasamstæðu, hitaðar og beygðar, rafsoðnar þar sem kantarnir mætast. Það kom flestum á óvart að sjá að þannig voru rörin framleidd í fáum stærðum sem síðan voru hituð upp aftur dregin gegnum vélasamstæðu og teygð, þannig urðu minni stærðirnar til.