Pex rör, endingatími – Hitaþol, þrýstiþol

Grein/Linkur: Staðreyndir um pexrör

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Júní 1996

Staðreyndir um pexrör

Það er til lítils að gefa upp hitastig og endingartíma á plaströrum, ef upplýsingar um þrýstiþol vantar, segir Sigurður Grétar Guðmundsson . Slíkar upplýsingar eru lítilsvirði. ÍÞVÍ ölduróti sem er í lagnamálum hérlendis er nauðsynlegt að hús byggjendur geti fengið óvilhallar og réttar upplýsingar um þau nýju lagnaefni sem eru komin á markað og eru að einhverju leyti að ýta eldri lagnaefnum til hliðar.

Þetta á ekki síst við um plaströr, einkum krossbundin polyetenrör sem í daglegu tali eru kölluð pexrör.

Þetta eru rörin sem eru ráðandi enn sem komið er í rör ­ í ­ rör kerfum og verða efalaust fyrst um sinn.

Það eru um 25 ár síðan byrjað var að framleiða pexrör og eitt fyrsta fyrirtækið til að hefja framleiðslu var Wirsbo í Svíþjóð en síðan hafa margir framleiðendur bæst við, einkum á Ítalíu og í Þýskalandi.

Mjög fljótlega var farið að nota pexrör hérlendis, þar má benda á hitakerfið í íþróttavellinum í Kópavogi sem var gangsett 1974, neysluvatnskerfi var lagt í einbýlishús í Garðabæ skömmu síðar, hitakerfi var lagt í hús í Kópavogi 1979. Öll eru þessi kerfi án millihitara, með beinu innrennsli hitaveituvatns og öll hafa gengið án nokkurra bilana.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi, þau eru miklu fleiri víðsvegar um landið.

Nokkrar staðreyndir

1.

Þegar rætt er um þol málmröra er nægjanlegt að vita þrýstiþolið þegar um hita­ og neysluvatnslagnir er að ræða, það er ekki fyrr en komið er á hærri hitastig eða yfir suðumark sem taka þarf verulegt tillit til hitastigs.

2.

Til að fá réttar upplýsingar um þol plaströra þarf ætíð að taka tillit til tveggja atriða, hita og þrýstings. Einfaldast er að hugsa um vegasalt þar sem hitastig er öðrum megin en þrýstingur hinum megin.

3.

Plaströr, sem eiga að flytja vatn eða annan vökva undir þrýstingi, eru framleidd í mismunandi þrýstiflokkum, til einföldunar skulum við tala um kg, en helstu flokkarnir eru 3 kg, 6 kg, 10 kg og 16 kg. Þannig er hægt eð velja rör úr sama efni með sama þvermáli eftir þeim þrýstingi sem í rörinu verður. Eini munurinn á rörinu er veggþykktin, því meiri veggþykkt því meira þrýstiþol.

4.

Plaströr eru tiltölulega „ung“ í iðnþróuninni, en allar prófanir hafa miðað við að sanna að þau endist í 50 ár en þá megum við aldrei gleyma meginreglunni; það miðast við ákveðinn þrýsting og ákveðið hitastig. Þess vegna verða þessar tvær staðreyndir ætíð að liggja fyrir samtímis. Að gefa upp hitastig og endingartíma segir harla lítið ef það vantar hvaða þrýsting plaströrið á að þola, slíkar upplýsingar eru lítils eða einskis virði.

5.

Tökum dæmi að völ sé á pexrörum til að leggja hita­ og neysluvatnslagnir í hús sem á að fara að byggja. Meðfylgjandi upplýsingar, eða vegasaltið, segir að það þoli 10 bör (10 kg) og 70 gráðu hita á Celsíus. Getur það gengið, verður ekki heitavatnið á veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur sumsstaðar 75 ­ 80 gráður? Jú, en þá er að nota vegasaltið, þrýstingurinn í hitakerfinu verður ekki 10 bör heldur í mesta lagi 2 bör eða einungis 20% af því sem pexrörin þola. Þess vegna er í lagi að hitinn sé hærri, það er einu sinni lögmál vegasaltsins að þegar annar armurinn fer upp fer hinn niður, það er mergurinn málsins.

Að lokum

Það væri mikið slys ef anað væri áfram fyrirhyggjulaust við að innleiða ný efni og nýjar aðferðir í lagnamálum, af því gæti hlotist mikill skaði. En það eru allir sammála um að þannig verði ekki að verki staðið og því er það raunalegt, og af því getur hlotist meiri skaði en af gönuhlaupum, ef málsmetandi aðilar og embættismenn ætla að standa í vegi fyrir þeirri þróun sem nú er hafin.

Því miður eru þeir til.

Í PEXRÖRUM vegur hiti og þrýstingur salt, því hærri hiti, því lægri þrýstingur eða öfugt.

Fleira áhugavert: