Nord Stream 2 – Orka, afl

Grein/Linkur: Hóta að hætta við Nord Stream 2 ráðist Rússar á Úkraínu

Höfundur: Ævar Örn Jósepsson RÚV

Heimild:

.

Mynd – blacknews.ro 21.02.2022

.

Desember 2021

Hóta að hætta við Nord Stream 2 ráðist Rússar á Úkraínu

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands Mynd: EPA-EFE – PAP

Hin mikilvæga en umdeilda gasleiðsla frá Rússlandi til Þýskalands, Nord Stream 2, verður ekki tekin í notkun ef Rússar valda frekari stigmögnun Úkraínudeilunnar, samkvæmt samkomulagi þýskra og bandarískra stjórnvalda. Annalena Baerbock, leiðtogi Græningja og nýr utanríkisráðherra Þýskalands, greindi frá þessu í sjónvarpsviðtali í dag.

Hún upplýsti að vegna þeirrar miklu spennu og óvissu sem ríkir á landamærum Úkraínu og Rússlands hafi stjórnvöld í Washington og fyrri ríkisstjórn Þýskalands, með Angelu Merkel í kanslarastólnum og núverandi kanslara, Olaf Scholz, í embætti fjármálaráðherra, sammælst um „að ef til frekari stigmögnunar kæmi, þá yrði þessi gasleiðsla ekki tekin í notkun.“

Scholz hafði áður lýst því yfir að réðust Rússar inn í Úkraínu myndu Þjóðverjar – og Evrópusambandið – grípa til harkalegra refsiaðgerða en ekki minnst á Nord Stream 2 í því sambandi, enda leiðslan Þjóðverjum afar mikilvæg.

Von der Leyen sagði að ekki yrði hróflað við Nord Stream 2

Ekki er lengra síðan en á föstudag að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýskalands í ráðuneyti Merkel, útilokaði að lokun Nord Stream 2 yrði liður í aðgerðum gegn Rússum, enda mætti ekki skerða orkuöryggi í Evrópu.

Umdeild leiðsla

Þessi mikla leiðsla var einn fárra ásteytingarsteina Merkels og Barracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og eftirmenn hans báðir hafa verið á sömu línu. Nord Stream 2 var Merkel mikið hjartans mál, enda lykilatriði í þeirri áætlun þýskra stjórnvalda að leggja niður kjarnorku- og kolaorkuver.

Bandaríkjamenn og nágrannaþjóðir Þýskalands í austri voru hins vegar afar mótfallinn þessum áformum og sögðu hættu á að með þessu ráðslagi yrðu Þjóðverjar allt of háðir Rússum um orku. Úkraínumenn hafa líka áhyggjur af áhrifum Nord Stream 2.

Í dag fer rússneskt gas til Þýskalands og annarra Evrópusambandsríkja að miklu leyti í gegnum Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði óttast að tilkoma Nord Stream 2 muni veikja hvort tveggja efnahag Úkraínu og stöðu þess í öryggispólitík Evrópu.

Nú síðast fór svo Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, fram á það við Olaf Scholz að hætta framkvæmdum við gasleiðsluna. Þetta gerði hann þegar Scholz heimsótti Varsjá í vikunni, í þriðju opinberu heimsókn sinni eftir að hann tók við kanslaraembættinu.

Fleira áhugavert: