Kanada, Athabasca – Olíusandur
Grein/Linkur: Paradísarheimt?
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Maí 2009
Paradísarheimt?
Orkubloggið hefur nú í all mörgum færslum haldið sig á sviði endurnýjanlegrar orku. Nú er orðið tímabært að klípa sig í handlegginn og snúa aðeins tilbaka að raunveruleikanum. Og hvað er þá betra en að halda á slóðir skinnaveiðimanna í norðanverðu Kanada?
Ekki er langt síðan Fort McMurray var einn af hinum hnignandi útnárum Kanada. Árið 1996 var þessi bær, norðarlega á eyðilegum sléttum Albertafylkis, með um 60 þúsund íbúa. Á þessum tíma benti flest til þess að íbúunum myndi halda áfram að fækka jafnt og þétt og að ekkert fengi snúið þeirri þróun.
En viti menn; þá gerðist það að olía tók að hækka í verði. Kanadíski olíusandurinn við Athabasca-ána, sem fram til þessa hafði nánast eingöngu verið til tómra leiðinda, varð nú til þess að skyndilega tóku milljarðar dollara af fjárfestingafé stóru olíufélaganna að streyma inn á svæðið við Fort McMurrray.
Á aðeins einum áratug óx bærinn um 50% – í 80 þúsund íbúa. Nú er slegist þar um hverja einustu íbúðarholu og jafnvel skúra á baklóðum. Sagt er að krakkarnir þar geti varla beðið eftir að klára skyldunámið; þaðan fari þau beint í olíuiðnaðinn og þéni þar meira en 100 þúsund dollara yfir árið. Sannkallað „síldarævintýri“, enda er bærinn í dag gjarnan nefndur Fort McMoney.
Sumir halda að orkuframtíð heimsins sé græn. Og jafnvel að olían sé á síðustu dropunum. Sannleikurinn er hins vegar allt annar. Þó svo endurnýjanlegi orkugeirinn eigi örugglega eftir að vaxa gríðarlega í framtíðinni, þá er framtíðin næstu áratugina ekki græn heldur fyrst og fremst svört. Kolsvört – eins og olía og kol.
Eftir því sem hinar góðu gömlu hefðbundnu olíulindir eiga erfiðara með að anna eftirspurninni, fara menn einfaldlega að sækja olíu á nýjar slóðir. Næstu áratugi verður svarta gullæðið líklega í hámarki á svæðum olíusandsins í Kanada og kannski einnig í Venesúela. Jafnskjótt og það svarta klístur fer að minnka, munu menn fara í heimskautaolíuna. Og kannski líka í bandaríska olíugrýtið (oil-shale), sem liggur á víð og dreif um t.d. Kólóradó og Mormónafylkið Utah.
Já – enn er af miklu að taka í olíubransanum og langt í það að heimurinn hverfi frá olíu sem aðalorkugjafa samgöngugeirans. Í dag er það kanadíski olíusandurinn í Alberta-fylki sem er mest spennandi, enda á tiltölulega aðgengilegu svæði sem þar að auki heyrir undir stjórnvöld sem hvorki eru grunuð um að grípa skyndilega til vopna né eignarnáms.
Vissulega verður þessi óhefðbundna olíuvinnsla talsvert dýrari en sullið sem kemur nánast eins og sjálfkrafa gosbrunnur upp úr hinum gullslegna arabíska sandi. En þetta er þó ekki dýrari vinnsla en svo, að hún borgar sig ágætlega við 50 dollara markið og á sumum svæðum þolir þessi nýja olíuvinnsla líklega verð allt niður í 40-45 dollara tunnan.
Orkubloggið sagði nýverið stuttlega frá kanadíska olíusandinum. Og eins og lesendur kannski muna, þá er einfaldlega allt STÓRT í sambandi við olíusandinn; miklar birgðir, stórir trukkar og há laun. Í dag ætlar bloggið að staldra aftur við þennan ævintýralega hroða og beina sjónum sínum sérstaklega að svæðunum við Athabasca-ána.
Þar á slóðum þvottabjarnaveiðimanna og skinnakaupmanna hefur veröldin snarsnúist á örfáum árum. Athabasca er ekki lengur tákn um lítt snortnar veiðilendur í anda sléttuindíánanna í Frumbyggjabókunum skemmtilegu. Þarna hafa dýragildrurnar vikið fyrir einhverjum tröllslegustu skurðgröfum heimsins, sem brjóta niður gisinn barrskóginn eins og eldspýtur og skófla upp svarta sandklístrinu í magni sem jafnvel stórhuga íslenskir Kárahnjúkahnakkar eiga erfitt með að ímynda sér.
Í baksýn má svo sjá rauða logana frá gasorkuverunum, sem framleiða raforkuna sem notuð er til að kreista olíudropana úr drullunni Frá þessu öllu streymir brennisteinsmengað kælivatnið sem tekið er tært og fagurt úr Athabasca-ánni, en skilað útí sérstakar tjarnir sem ætlað er að geyma mengunina frá þessari subbulegu vinnslu í nokkra áratugi. Svo er bara að vona að banvæn brennisteinsdrullan leki ekki aftur útí drottninguna Athabasca á leið hennar áfram yfir sléttur Kanada og útí sjálft Athabasca vatnið.
Kannski rétt að rifja aðeins upp hversu stórt mál olíusandurinn er. Þegar menn reyna að meta hversu mikla olíu má vinna úr olíusandinum, ræður olíuverðið mestu um niðurstöðuna. M.ö.o. miða menn einfaldlega við það hvað vinnslan má kosta – auðlindin er þarna til staðar en hvort hún verður sótt ræðst af olíuverðinu hverju sinni.
Það voru talsverð tímamót þegar olíuverðið rauk yfir 60 dollara tunnan árin 2005 og '06. Þetta varð til þess að stjórnvöld í Alberta endurmátu vinnanlegar birgðir af olíusandi í fylkinu. Niðurstaðan var birt 2007; litlar 170-180 milljarðar olíutunna eru nú sagðar vinnanlegar í Alberta m.v. olíuverð upp á 60 dollara. Fyrir vikið býr fylkið – og þar með Kanada – nú yfir næst mestu olíubirgðum heims á eftir sjálfri Saudi Arabíu!
Bæði Orkubloggarinn og aðrir guttar í bransanum lyftu augabrúnum í undrun og jafnvel yggldu brúnirnar fullir tortryggni, þegar þessar tölur voru fyrst settar fram af sjálfsöruggum Albertum. En olíuverðhækkanirnar 2007 og allt fram á mitt ár 2008 fengu iðnaðinn fljótt til að viðurkenna réttmæti þessara talna. Kanada var einfaldlega eins og hendi væri veifað orðin önnur stærsta olíuvon heimsins, á eftir sandbörðum Sádunum. Munurinn er sá að Sádarnir virðast eiga í smá veseni með að viðhalda framleiðslunni sinni, meðan Kanadamenn stefna í stóraukna framleiðslu.
Niðursveiflan í efnahagslífinu núna hefur ekki breytt neinu um væntingar Kanadamanna. Kreppan mun í mesta lagi tefja það lítillega að byggja upp stórfellda vinnslu úr kanadíska olíusandinum. Spurningin núna er i raun aðeins sú, hvort vinnslan úr olíusandinum árið 2015 verði 3 milljónir eða 4 milljónir tunna á dag.
Það er orðið nokkuð óumdeilt að eftir örfá ár mun olíusandurinn við Athabasca einn skila jafnmikilli olíu eins og öll vinnsla Noregs gerir í dag. Og það er bara byrjunin á því að Kanada komist í hóp allra stærstu olíuframleiðenda í heimi (í dag er Kanada í 7. sæti með vel yfir 3 milljón tunnur og þar af kemur nú næstum helmingurinn eða um 1,3 milljón tunna frá olíusandinum). Sumir tala jafnvel um að Kanada verði fyrr en varir orðið þriðja eða jafnvel annað mesta olíuframleiðsluríki heims!
Nefna má til gaman að samtals er áætlað að þarna í Alberta sé að finna um 1.700 milljarða tunna af olíu! Til samanburðar gera hógværar (svartsýnar) spár um olíuvinnslu ráð fyrir því að í mesta lagi eigi núna eftir að nást upp u.þ.b. 1.200 milljarðar olíutunna í heiminum öllum. Kannski hafa peak-oil-bölmóðarnir gleymt að taka olíusandinn með í reikninginn?!
Málið er að líklega verða 90% þessa geggjaða magns af olíusandi aldrei sótt úr jörðu vegna of mikils kostnaðar. Þess vegna hljóðar vinnsluspáin „aðeins“ upp á u.þ.b. 170 milljarða tunna af vinnanlegri olíu (10% af heildarmagninu). En það eitt er samt nóg til að gera Kanada að næststærsta olíuríki veraldar.
Olíusandinn í Alberta er að finna víða um fylkið. En svæðið við Athabasca-ána þykir mest spennandi – einfaldlega vegna þess að þar er unnt að vinna subbið með opnum námum. Það þarf bara að skafa um 75 metra jarðvegslag ofan af yfirborðinu til að komast að stöffinu – sem er oft i kringum 50 m þykkt lag af sandolíuklístri. Þessi vinnsla er í sjálfu sér ekki mjög frábrugðin því þegar Orkubloggarinn stóð sem stubbur, bullsveittur úti í móanum austur á Klaustri með Tonka-gröfu og stunguskóflu og mokaði djúpar holur sér til gamans. Skóflurnar við Athabasca eru bara aðeins stærri. Óneitanlega var vikurblönduð skaftfellsk moldin þrifalegri en olíuklístrið – en moksturinn þarna vestra er örugglega næstum því jafn skemmtilegur.
Víða er þó olíusandurinn ekki alveg svona aðgengilegur. Utan Athabasca-svæðisins er hann á mun meira dýpi og vinnslan því bæði flóknari og dýrari. Menn hafa skoðað ýmsar leiðir til að ná drullunni þar upp, t.d. með því einfaldlega að bora niður og koma þangað brennheitri gufu frá gasorkuveri eða jafnvel kjarnorkuveri, sem „bræðir“ olíuna úr sandinum – svo hægt sé að dæla henni upp á yfirborðið.
Áður fyrr léku menn sér jafnvel að þeirri hugmynd að sprengja kjarnorkusprengjur neðanjarðar, sem myndu virka eins og fyrsta flokks sandbræðslukerfi og skilja eftir sig kolsvartar og þykkar olíulindir. Í dag þykja slíkar hugmyndir ekki alveg raunhæfar… nema kannski í huga Dr. Strangelove eða Mr. Burns.
Núna eru a.m.k. þrjár gríðarstórar olíusandnámur starfræktar á Athabasca-svæðinu. Sú stærsta er örugglega náman þeirra ljúflinganna hjá Syncrude; rétt tæplega 200 ferkm drullupyttur og í reynd einhver alstærsta náma í heimi. Til að vinna eina tunnu af olíu þarf Syncrude að skófla upp 2 tonnum af olíusandi og spreða allt að 35 rúmmetrum af gasi til að ná olíunni úr sandklístrinu. Þetta er m.ö.o einhver orkufrekasta olíuvinnsla sem þekkist – en borgar sig samt prýðilega.
Þar að auki þarf vinnslan þúsundir sekúndulítra af vatni – úr Athabasca-ánni auðvitað. Bæði sem kælivatn og til að auðvelda dælingu á stöffinu. Sagt er að þegar áin er í lágmarki, sé allt að 15% af vatnsrennslinu tekið úr ánni. Vatnið sem verður eftir þegar búið er að nota það er gegnsósa af brennisteini og ýmsum öðrum skít. Það rennur útí sérstakar tjarnir – sem margar hverjar liggja alveg við hliðina á Athabasca-ánni. Vegna hverrar tunnu af olíu sem unnin er úr sandinum fara hundruð rúmmetra af brennisteinsmenguðu vatni í tjarnirnar. Þar er olíufélögunum ætlað að geyma mengað vatnið í nokkra áratugi, uns óhætt verður að sleppa því aftur út í vistkerfið.
Já – subbið tengt vinnslunni úr olíusandi er nánast yfirgengilegt. Og þá eru gróðurhúsaáhrifin enn ótalin. Raforkan frá gasorkuverunum (gasbruninn) sem fer í að hita olíusandinn og losa olíuna frá honum, hefur orðið til þess að kolefnislosun Kanada hefur aukist um 25% frá árinu 1990 (til samanburðar mun losun Bandaríkjanna „aðeins“ hafa aukist um ca. 17% á þessu sama tímabili). Þessi losunaraukning Kanadamanna er ekki alveg í anda Kyotosamningsins. Skv. honum átti Kanada að minnka losun sína um 6% á tímabilinu 1990-2012. Það er reyndar ekki bara olíusandurinn sem á „heiðurinn“ af þessum arfaslaka árangri Kanadamanna í að draga úr kolefnislosun; hérna spilar ýmis annar iðnaður stóra rullu.
Í olíuiðnaðinum hlæja menn almennt ennþá að þessu Kyoto-rugli. En eru reyndar samt að byrja að verða smá áhyggjufullir yfir því að fá kannski bráðum á sig einhvern leiðinda losunarskatt. Eins gott að Obama hafi góða lífverði – að öðrum kosti er hætt við að við eigum eftir að upplifa heldur óskemmtilegt olíutilræði við kappann. En reyndar leikur Obama tveimur skjöldum. Á sama tíma og hann talar fyrir auknu hlutfalli endurnýjanlegrar orku er hann í óðaönn að treysta vináttuböndin við Kanadamenn – til að tryggja að svarta sullið frá olíusandinum renni beinustu leið suður yfir landmærin til síþyrstra Bandaríkjamanna.
Þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Þegar síðast fréttist voru Kínverjar nefnilega komnir á lyktina af olíusandinum. Heyrst hefur að kínversk fyrirtæki séu á fullu að kaupa upp hlutabréf í helstu olíuvinnslufyrirtækjunum á Athabasca-svæðinu. Og þetta er ekki lengur bara kjaftasaga; PetroChina er hreinlega byrjað að byggja olíuleiðslu frá Athabasca, sem ætlað er að beina olíustreyminu vestur til Kyrrahafsstrandarinnar, í stað þess að hún fljóti öll suður á bóginn til Bandaríkjanna. Þaðan á svo að sigla með svarta gullið yfir Kyrrahafið, til Kína.
Það var engin tilviljun að Kanada var fyrsta ríkið sem Obama sótt heim eftir að hann varð forseti. Obama og félögum er mikið í mun að minnka þörfina á arabískri olíu og eru því í hörðu en hljóðlegu orkustríði við Kínverja um kanadísku olíuna. Til að skilja hagsmunina má nefna að kanadíski olíusandurinn gæti skilað mörgum milljónum tunna á dag – ekki bara í áratugi heldur í næstum tvær aldir. Nánast ekkert í heiminum jafnast á við þetta magn og það er því til mikils að vinna að tryggja sér aðgang að þessum risalindum.
Til gamans má nefna að norsku skotthúfurnar i StatoilHydro eru líka mættar á svæðið, undir merkjum dótturfyrirtækisins North American Oil Sands Corporation(NAOSC). Allir sem vettlingi geta valdið ætla að ná í sinn skerf af olíusandinum, sama hver umhverfisáhrifin verða. Meira að segja íslenskt fjármagn er þarna á ferli. Í gegnum fyrirtæki sitt, Lindir Resources, er Jón í Byko hluthafi í Athabasca Oil Sands Corp(AOSC). Um verkefni AOSC má t.d. lesa í þessari glænýju kynningu fyrirtækisins, sem einnig má nálgast á vefnum þeirra (kynningin er dagsett 4. maí 2009).
Kanadísku ljúflingarnir brosa auðvitað að öllu tilstandinu í kringum olíusandinn. Skreppa svo heim af skrifstofunni, losa af sér bindið, fara í flauelsjakkann og mæta á ráðstefnu um endurnýjanlegar framtíðarlausnir í orkumálum heimsins. Sitja þar ábúðamiklir á svip og kynna ný og glæsileg kanadísk vindorkuver. Lygna svo aftur augunum og og hugsa til dollaranna sem streyma í stríðum straumi frá olíusandinum. Það svarta ævintýri er bara rétt að byrja og er líklegt til að gera Kanada að Saudi Arabíu framtíðarinnar.
Á meðan eltast íslenskir stjórnmálamenn við ellimótt og orkuhnignandi Evrópusamband. Væri kannski nærtækara að horfa vestur um haf, til landsins sem býr yfir einhverjum mestu orkulindum í heimi og er ennþá með gríðarleg ónýtt tækifæri t.d. í byggingu jarðvarmavirkjana? Horfa til framtíðar! Er Kanada etv. draumalandið til að tengjast nánum efnahagslegum böndum?
Óneitanlega er Orkubloggið skotið bæði í hlynlaufinu og öllum kanadísku snillingunum – hvort sem þeir teljast grænir eða svartir. Þar að auki er glæsilegasti fugl Íslands, himbriminn, amerískur og enn ein sönnun þess að fegurðin ein ríkir fyrir vestan okkur en ekki austan. Kannski er Ísland kreppunnar bara óskilgetin Öskubuska, sem gæti fundið paradís hjá kanadíska prinsinum sínum.