Vindorka íslandi – Sagan 2009, spurðu vindinn
Grein/Linkur: „Spurðu vindinn“
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Júní 2009
„Spurðu vindinn“
Einu sinni fyrir mörgum, mörgum árum varð ég samferða nokkrum körlum í ferð þeirra austur með Síðu. Einn þeirra var Hannes Pétursson, skáld.
Við Foss á Síðu, þar sem fossinn fellur svo fallega hvítfyssandi lóðrétt niður af heiðarbrúninni, var stansað, gengið um og myndavélarnar mundaðar. Hannes stóð aftur á móti tómhentur og deplaði augunum svolítið sérkennilega. Aðspurður kvaðst hann líka vera að taka myndir; „Taka myndir með augunum„. Spurður að því hvort slíkar myndir varðveittust nægjanlega vel, svaraði hann að bragði: „Spurðu vindinn, vinur minn. Spurðu vindinn„.
Sé litið er til ljósmyndanna tveggja hér eilítið neðar kunna sumir að spyrja sig hvað veldur mismuninum? Af hverju er danska ströndin hér að neðan þakin vindrafstöðvum, en hin íslenska auð? Þrátt fyrir að sú síðar nefnda njóti líklega bæði meiri og stöðugri vinds og kunni því að henta enn betur fyrir vindorkuver en sú danska.
Svarið er ekki mjög flókið. Danmörk hefur jú lengst af fengið nær allt sitt rafmagn frá kolaorkuverum og þar er vindorkan því kærkominn orkugjafi. Bæði til að minnka þörfina á innfluttri orku og ekki síður til að draga úr mengun svo og að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá kolaorkuverum.
Ísland aftur á móti er með með gnægð af vatnsafli og jarðvarma. Hér hafa orkufyrirtækin því sérhæft sig í slíkum virkjanakostum – og kunna jafn lítið á að virkja vindinn eins og þau kunna mikið á að beisla vatnsafl og jarðvarma.
Þar að auki voru það alkunn sannindi allt fram undir aldamótin síðustu, að vindorka var almennt talsvert dýrari orkuvinnsla en bæði vatnsafl og jarðvarmi. Þess vegna hefur lítil sem engin ástæða verið fyrir íslensku orkufyrirtækin að vera að spá í slíka sérvisku, nema kannski á útnárum eins og í Grímsey. Þess vegna er t.d. ekki ein einasta vindrafstöð risin á suðurströnd Íslands, en myndin hér að neðan er einmitt tekin við Dyrhólaey.
En nú eru aldamótin löngu liðin og næstum áratugur í viðbót! Framþróun endurnýjanlegrar orku á heimsvísu er æpandi hröð og á síðustu tíu árum hefur orðið gríðarleg uppsveifla hjá vindorkufyrirtækjunum. Náðst hafa fram hreint ótrúlegar kostnaðarlækkanir í þessum iðnaði á stuttum tíma. Það er varla ofsagt að þau tímamót séu nú runnin upp, að hagstæðustu vindrafstöðvarnar jafnist nú á við hagkvæma vatnsaflsvirkjun eða jarðvarmaorkuver.
Það er mikil breyting frá því sem var fyrir einungis áratug eða svo. Fyrir vikið skyldi maður ætla að íslensku orkufyrirtækin og iðanaðraráðuneytið væru nú byrjuð að íhuga alvarlega þann möguleika að hér á landi rísi vindorkuver.
Þegar litið er fáein ár fram í tímann eru góðar líkur á að stórar vindrafstöðvar muni verða jafnvel ennþá hagkvæmari heldur en gamla, góða vatnsaflið. Kostnaðurinn kann að verða svipaður, en langvarandi umhverfisáhrif vindorkuveranna eru miklu minni. Það hversu vindorkan er að verða ódýr veldur því að orkuver af því tagi spretta nú upp með ótrúlegum hraða víðsvegar um ólík lönd eins og Bandaríkin, Spán og Kína.
Hér á landi er raforka til stóriðju svo geysilega hátt hlutfall af heildarorkuþörfinni, að líklega verður rafmagn frá vindorkuverum seint mjög stór hluti raforkuframleiðslu landsmanna. Til þess er vindorkan of sveiflukennd og ótrygg; hún hentar stóriðjunni ekki nægjanlega vel.
Engu að síður gæti verið hagkvæmt að stórar vindrafstöðvar framleiði allt að 5% raforkunnar á Íslandi. Í dag myndi það líklega þýða framleiðslu upp á 600 GWh (miðað við að heildarraforkuframleiðslan á ári sé um 12 þúsund GWh). Til að framleiða svo mikið af raforku frá vindrafstöðvum þarf mikið uppsett afl; varla er raunhæft að gera ráð fyrir meira en ca. 25-30% nýtingu hjá íslenskum vindrafstöðvum.
Illmögulegt er að fullyrða af neinni nákvæmni um það hversu mörg MW af vindrafstöðvum þarf hér á landi til að framleiða þessar 600 GWh. Engin raunveruleg hagkvæmnisathugun hefur verið gerð um þetta og ekki verið framkvæmdar þær vindmælingar sem nauðsynlegar eru til að meta hagkvæmnina af einhverju viti.
Þess í stað æða menn hér út um allar trissur að skoða möguleika á nýjum vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum. Og virða um leið að vettugi möguleikann á því að skynsamlegt kunni að vera að huga af alvöru að því að reisa hér vindorkuver. Ekki virðist hafa hvarflað að neinum manni að við gerð Rammaáætlunar um virkjanakosti á Íslandi, væri eðlilegt að skoða líka kosti vindorkuvera. En þar er einungis litið til vatnsafls og jarðvarma.
Það er að öllum líkindum einungis tímaspursmál hvenær útflutningur á rafmagni frá Íslandi um sæstreng verður raunhæfur kostur. Norðmenn hafa nú þegar lagt slíkan sæstreng eftir botni Norðursjávar og til Hollands. Þeir gera ráð fyrir að stórauka raforkusölu með þessum hætti á komandi árum. Í því skyni stefna Norsararnir á að reisa fjölda stórra vindrafstöðva all langt utan við ströndina og jafnvel að þær verði fljótandi. Þeir ætla að umbreyta vindinum sem þar blæs svo hressilega, í beinharðar gjaldeyristekjur.
Hér virðast ráðamenn aftur á móti fremur vilja að þjóðin gerist peningaþrælar Hollendinga og Breta. Að mati Orkubloggsins er orðið tímabært að Íslendingar hefji vinnu með það að markmiði að Ísland selji raforku í stórum stíl til Evrópu. Frá stórum vindorkuverum. Iðnaðarráðherra og ráðgjafar hennar hljóta að fara að skoða þessa möguleika ekki seinna en strax. Annað væri mikil skammsýni.