Rör í rör – Hvað varð um tengidósina?

Grein/Linkur: Hvað varð um rör-í-rör kerfið?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Janúar 2013

Hvað varð um rör-í-rör kerfið?

Hér má sjá tengidós fyrir rör-í-rör lagnakerfi frá einum þekktasta framleiðanda slíkra kerfa. Ég hef alla tíð undrast hönnun þessarar dósar, m. a. eru á henni 8 skrúfur. Til voru tengidósir sem voru einfaldari í hönnun og þar með notkun, en að nota ekki tengidósir lækkar kostnað við rör-í-rör kerfi til mikilla muna

Þetta lagnakerfi kom á markað minnir mig fyrir um fjórum áratugum. Vart þarf að útlista kerfið fyrir lagnamönnum, en það er ekki ósennilegt að fleiri líti yfir pistlinn, svo rétt er að skýra það í stuttu máli.

Kjarninn í því eru plaströr í kápu fyrir bæði hita- og neysluvatnslagnir, næstum alltaf pexrör. Oft var miðað við að lagt væri að hverjum ofni eða tæki frá stofni í tækjaklefa, þar enduðu leiðslur í tengiboxi. Reglan var sú að tengiboxið við stofn væri lægra en tengingar í tæki, ef leki kæmi á leiðslu mundi vatnið skila sér í tengiboxið og þaðan í frárennsli. Þetta var kerfi sem átti að útiloka eins og mögulegt var vatnsskaða af lekum.

Ekki verður annað sagt en að vel hafi verið undirbúið að taka á móti þessu nýja lagnakerfi hérlendis. Fenginn var kennari frá virtum norskum tækniskóla til að koma hingað og setja væntanlega kennara inn í tækni kerfisins, þeir mundu síðan koma þekkingunni áram til hérlendra lagnamanna.

Þetta stutta námskeið hjá þessum ágæta Norðmanni er okkur, þá væntanlegum kennurum á komandi námskeiðum, æði minnisstætt. Ég held að segja megi eftir þetta langan tíma að sá norski færði okkur takmarkaðan fróðleik.
En við létum ekki deigan síga og þó nokkur námskeið voru haldin um rör-í-rör kerfið, en þó held ég að fá námskeið hafi verið haldin á síðustu árum.

Hvað gerðist, reyndist notagildi kerfisins ekki standa undir væntingum og er það algjörlega dottið upp fyrir?
Svo er ekki þó það sé ekki mikið notað samkvæmt ströngustu kröfum eins og í upphafi, plaströr í kápu eru enn mikið notuð.

Það sem ég held að hafi orðið fótakefli rör-í-rör kerfisins var kostnaðurinn. Í samanburði við önnur lagnakerfi var það dýrt, en ég held að enginn hafi rýnt í hvar kostnaðarmunurinn lá aðallega.
Það sem gerði rör-í-rör lagnakerfið lítt samkeppnishæft var ekki kerfið í heild heldur hluti þess.
Það voru dósirnar þar sem tækin, hvort sem voru ofnar eða hreinlætistæki, voru tengd.

En það eru komnar lausnir þar sem dósunum er hreinlega sleppt, tengingarnar gerðar einaldari. Þar fóru Svíar fremstir, lausnin var að taka plaströrin í kápurörunum út úr veggjum bak við ofnana og tengja síðan með þunnveggja stálrörum. Við hreinlætistæki er dósunum einnig sleppt og notuð einföld veggtengi sem eru mun ódýrari en hinar upphaflegu tengidósir.
Þá er búið að fjarlægja það dýrasta úr kerfinu  og samanburður er miklu hagstæðari við önnur kerfi.

Var þá ekki búið að kasta fyrir róða reglunni um að hugsanlegur leki skilaði sér á réttan stað? Að sumu leyti er það svo, en þó ekki að öllu. Ég minni á grein sem ég skrifaði í Fréttablað LAFÍ síðla árs 2010 þar sem ég lýsti að ég uppgötvaði að 12ø pexrör í kápu, sem voru notuð í ofnakerfi í húsi í Þorlákshöfn, voru ekki með súrefnisvörn. Tveir ofnar voru farnir að leka. Það var skipt um öll rörin. Tenging við ofna var ekki með hefðbundnum dósum heldur voru notuð veggtengi. Því varð nokkuð rask við hverja ofnatengingu en hana var auðvelt og ódýrt að endurbæta.

Fleira áhugavert: