Olía til að hita vatn – Örþrifaráð, sagan 2023

Grein/Linkur:  Örþrifaráð ef nota þarf olíu til að hita vatn

Höfundur:  Haraldur Ingólfsson

Heimild: 

.

.

Nóvember 2023

Örþrifaráð ef nota þarf olíu til að hita vatn

Ef veturinn verður kaldur gæti þurft að takmarka heitt vatn til einhverra stórnotenda. Stjórn Norðurorku fjallaði um mögulegan skort á heitu vatni í vetur á fundi fyrr í mánuðinum.

Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, greindi á fundi stjórnar fyrirtækisins fyrir skemmstu frá áhyggjum starfsfólks af því að ekki verði hægt að anna spurn eftir heitu vatni ef veturinn verður kaldur. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Norðurorku frá 13. nóvember.

Norðurorka hefur undanfarna vetur þurft að keyra tvær stórar varmadælur til að geta annað spurn eftir heitu vatni og hefur varla dugað til. Staða mála hvað varðar hitaveituna hefur ekki batnað og líkur á að kerfið muni ekki anna spurn eftir heitu vatni ef veturinn verður kaldur, þrátt fyrir varmadælurnar.

Eitt ráð sem fyrirtækið hefur ef slík staða kemur upp er að nota olíu til að hita upp vatn, en Norðurorka á stóran olíuketil sem hægt er að gangsetja ef á þarf að halda. Því fylgir hins vegar mikil mengun og sóun að því er fram kemur í fundargerðinni því ketillinn brennir 27 þúsund lítrum af svartolíu á sólarhring og því mat fyrirtækisins að notkun hans eigi ekki rétt á sér nema í neyð. Þó það sé ekki orðað beint þannig í fundargerðinni má ætla að um örþrifaráð væri að ræða ef kæmi til þess að gripið yrði til þess ráðs að nota olíuketilinn.

Niðurstaðan er að ljóst sé að ef ekki verður nægt heitt vatn á álagstímum í vetur verði að skerða heitt vatn til einhverra stórnotenda og eru upphitaðir íþróttavellir og sundlaugar nefnd í því sambandi.

Fleira áhugavert: