Líefnaeldsneyti – Nærtækast, ódýrast , þörungar

Grein/Linkur: W-laga kreppa?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Júlí 2009

W-laga kreppa?

Cartoon_Oil_Supply_Demand

Cartoon_Oil_Supply_Demand

Orkubloggið hefur lýst hrifningu á því hvernig Sádunum tókst ætlunarverk sitt á undraskömmum tíma. Að koma olíutunnunni í 70 dollara með því að draga passlega úr framleiðslunni.

En engin rós er án þyrna. Nú vofir sú hætta yfir að Sádarnir hafi lagt heldur þungar byrðar á veröldina. Hækkandi olíuverð muni kæfa þann bata í efnahagslífinu sem teikn hafa verið á lofti um upp á síðkastið, t.d. bæði í Bandaríkjunum og í Kína.

Ýmsir vitringar hafa verið að kasta fram spádómum um ýmist U eða L-laga kreppu. Loks þegar vísbendingar voru að byrja að koma fram um að kreppan gæti hugsanlega orðið U-laga – botninum væri náð og efnahagsbati framundan – eru nú komnir fram nýir spádómar. Nú er spáð að þetta gangi ekki svo ljúflega, heldur að veröldin stefni hraðbyri í W-laga kreppu. Þar sem síðari dýfan verði enn verri enn sú fyrri.

Roubini_recent

Roubini_recent

Hækkandi olíuverð ásamt vaxandi verðbólgu muni snarlega kýla efnahagslífið niður á ný og jafnvel steinrota það í langan tíma. Og það er sjálfur efnahagssjándinn Nouriel Roubini sem nú varar við þessu. Hann segir aðstæður vera að skapast fyrir enn meiri dýfu og að atvinnuleysi eigi líklega ennþá eftir að aukast umtalsvert.

Roubini gengur svo langt að segja að Evrópusambandið kunni að liðast í sundur. Þar séu bankarnir í enn verri stöðu en komið hafi fram til þessa og verndarstefna gangi nú ljósum logum innan margra aðildarríkjanna. Slíkt sé afleitt því einangrunarstefna muni einfaldlega draga kreppuna á langinn.

Í reynd erum við öll á valdi Sádanna. Þeir kæra sig þó alls ekki um að kæfa okkur; vilja þvert á móti að við blómstrum svo við getum borgað þeim offjár fyrir olíufíkn okkar. Þess vegna kann að vera skynsamlegt fyrir þá að auka nú aðeins við olíuframleiðsluna. Fá smá slaka í verðið, svo efnahagslíf Vesturlanda hrökkvi ekki alveg upp af.

Nú er mikilvægt að spila rétt úr möguleikunum. Ekki bara fyrir Sádana, heldur ekki síður fyrir fámenna þjóð norður í Dumbshafi. Íslendingar eru í þeirri nánast einstöku aðstöðu að rafmagnsframleiðsla okkar er algerlega óháð kolvetniseldsneyti. Ef við gætum líka framleitt að verulegu leyti eigið eldsneyti á bíla- og skipaflotann yrðum við líklega sigurvegarar kreppunnar. Nú kann að vera hárrétti tíminn fyrir íslensk stjórnvöld að hefja endurreisnarstarf með því að gera Ísland óháðara innfluttu eldsneyti (nema hvað flugið fær auðvitað að njóta flugvélabensíns enn um sinn).

Biofuel-Cover

Biofuel-Cover

Stjórnvöld ættu að vinna þetta hratt. T.d. setjast niður með samtökum bænda og leita leiða til að  landbúnaðurinn geti dregið úr starfsemi sem skilar litlum arði og þess stað framleitt eldsneyti á íslenska bílaflotann. Lífefnaeldsneyti (biofuel) er líklega raunhæfasta og fljótvirkasta leiðin til að draga úr olíufíkninni.

Orkubloggarinn hefur lengi verið tortrygginn á lífefnaeldsneyti sem framtíðarlausn í orkumálum. Og hefur þá verið að vísa til fyrstu kynslóðar af slíku eldsneyti, sem byggist á ræktun á hefðbundnu ræktarlandi, sem er óheppilegt fyrir fæðuframboð í heiminum. Aftur á móti bindur bloggið miklar vonir við að biofuel komi til með að verða góður kostur þegar unnt verður að vinna það úr þörungum  (algae).

En hugsanlega er lífefnaeldsneyti nærtækasta, ódýrasta og skynsamlegasta lausnin. Ekki verður fram hjá því litið, að nýlega lýstu bandarísk stjórnvöld því yfir að vetni verði aldrei raunhæfur orkugjafi í stórum stíl. Það sé einfaldlega allt of dýrt og ópraktískt. Þokkalegt rothögg fyrir þann ljúfa iðnað.

biofuel_car

biofuel_car

Einnig eru uppi efasemdir um að til sé nægjanlegt liþíum  í veröldinni til að standa undir stórfelldri rafbílavæðingu. Og nokkuð langt virðist í að metanólið eða DME verði raunhæfur kostur. Þess vegna freistast Orkubloggið til að veðja á lífmassann sem skásta kostinn þegar horft er til ekki of fjarlægrar framtíðar. E.h.t. kemur svo kannski að því að allt gangi fyrir sólarorku – en ekki alveg á næstunni!

Þegar horft er til lífmassans er s.k. þriðju kynslóðar lífefnaeldsneyti auðvitað mest spennandi; eldsneyti unnið úr þörungum. Vonandi verður sá möguleiki raunhæfur sem fyrst, svo forðast megi að ræktarland heimsins umbreytist í fóðurakra fyrir bílaflotann. Hér á Íslandi getum við aftur á móti leyft okkur að hafa litlar áhyggjur af fæðuframboði. Hér er mikið af ræktarlandi, sem upplagt væri að nota til hefðbundinnar lífmassaframleiðslu.

Það mætti sem sagt nota íslenskt lífefnaeldsneyti til að minnka þörfina á innfluttri olíu; þannig mætti bæði spara gjaldeyri og skapa ný störf hér heima. Að vísu yrði ríkið þá væntanlega af tekjum, sem nú fást í tengslum við sölu á því bensíni og olíu sem lífmassinn myndi leysa af hólmi. Ekki er raunhæft að lífefnaeldsneytið þoli eins mikla skattlagningu; til þess er framleiðslan líklega enn of dýr.

repja_Thorvaldseyri

repja_Thorvaldseyri

Heildaráhrifin af því að auka hlutfall innlendrar orku ættu þó að verða prýðilega jákvæð. Þarna myndu verða til störf, byggjast upp verðmæt þekking og reynsla og allt yrði þetta enn eitt skrefið að því að gera Ísland framtíðarinnar algerlega orkusjálfstætt. Ekki amalegt markmið að stefna að.

En til að svo megi verða er ekki nóg að nokkrir hugsjónamenn eða sérvitringar séu að bauka við þetta hver í sínu horni. Orkustefna er grundvallaratriði hjá hverju ríki. Íslensk stjórnvöld eiga að taka af skarið og móta sér skýra orkustefnu . Ekki bara í virkjana- og raforkumálum, heldur einnig um það hvernig við getum komið bílum og skipum sem mest á innlent eldsneyti. Íslenskan lífmassa!

Fleira áhugavert: