Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður FP, skrifa undir samkomulagið í Húsi atvinnulífsins

Með samkomlaginu verða allir félagsmenn Félags pípulagningameistara sem stunda atvinnurekstur félagsmenn í Samtökum iðnaðarins og þar með í Samtökum atvinnulífsins. Þannig bætast 140 nýir félagsmenn Félags pípulagningameistara í hóp þeirra 1.400 fyrirtækja sem eru nú þegar í Samtökum iðnaðarins. Inngöngu í Félag pípulagningameistara hafa þeir einir sem hafa meistararéttindi og löggildingu í pípulögnum.

Með inngöngu Félags pípulagningameistara verða í fyrsta sinn öll meistarafélög iðngreina í bygginga- og mannvirkjaiðnaði hér á landi innan vébanda Samtaka iðnaðarins. En fyrir eru meistarafélög í blikksmíði, dúklögn- og veggfóðrun, innréttinga- og húsgagnasmíði, skrúðgarðyrkju, húsasmíði, málaraiðn, múraraiðn og rafverktöku.

Árni Sigurjónsson, formaður SI: „Við fögnum því að fá pípulagningameistara til liðs við okkur og hlökkum til samstarfsins. Þetta er stórt skref sem er stigið nú þegar allar iðngreinar sem tilheyra bygginga- og mannvirkjaiðnaði eru samankomnar undir hatti Samtaka iðnaðarins. Með þessu eflum við samtökin og rödd þessara mikilvægu atvinnugreina enn frekar.“

Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður FP: „Félagsmenn okkar samþykktu aðild að Samtökum iðnaðarins í rafrænni kosningu og verðum við þar með þátttakendur í stærstu og öflugustu hagsmunasamtökum atvinnurekenda á Íslandi. Við eigum samleið með öðrum meisturum í bygginga- og mannvirkjagerð. Framundan er því spennandi samstarf en saman ætlum við að ráðast í mörg krefjandi verkefni.“