Vatnsveita Reykjavíkur, sagan – Stofnun innlagnadeildar

Grein/Linkur: Hrós til Vatnsveitu Reykjavíkur

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Vatnslögnin til Reykjavíkur. Þjóðminjasafn/Pétur Brynjólfsson  Framkvæmdir við Vatnsveitu Reykjavíkur hófust 1908

.

Júlí 1996

Hrós til Vatnsveitu Reykjavíkur

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Vatnsveita Reykjavíkur hefur sent frá sér greinargóðar upplýsingar um stofnun innlagnadeildar. Fyrir það á hún hrós skilið.

ÞAÐ hefur löngum loðað við opinber þjónustufyrirtæki, sem oftast hafa einkarétt á þjónustunni, að lipurð væri ekki sem skyldi og viðmót við þá sem á að þjóna ekki alltaf sem hýlegast.

Eitthvað virðist þetta vera að breytast, sum fyrirtækjanna eru „á niðurtalningu“, einkaréttartíminn styttist og samkeppnin er framundan, þá er eins gott að fara að aðlaga sig nýjum siðum í tíma.

Gott dæmi um þetta er Póstur & sími. Það fer ekki á milli mála að þegar slík stofnun er orðin fyrirferðarmikil á auglýsingamarkaði og styrkir útsendingar frá heimsviðburðum á íþróttasviði að hún er farin að haga sé eins og fyrirtæki í samkeppni.

Það fer ekki mikið fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði en það er eins og ráðamenn í Mjólkursamsölunni skynji breytingar og hafi gert lengi og þess vegna haslað sér völl á kynningar- og auglýsingamarkaði, enda má segja að mjólkin sé í samkeppni við margskonar drykkjarvöru.

Breytinga ekki að vænta

En það eru til fyrirtæki og stofnanir sem ekki þurfa að búast við samkeppni í framtíðinni. Það eru hinar fjölmörgu veitustofnanir sem flestar ef ekki allar eru í eigu sveitarfélaga, hitaveitur, vatnsveitur og rafveitur.

Allar starfa þessar veitur eftir lögum frá Alþingi sem veitir þeim einkaleyfi til að selja vöru og þjónustu á ákveðnum svæðum.

Það verður ekki annað sagt en að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel og þetta rekstrarform er ríkjandi í öllum iðnvæddum ríkjum, enginn valdsmaður hefur verið svo mikill frjálshyggjumaður að reyna að einkavæða almenningsveitur nema Margaret Thatcer, sú kjarnakona. Tvennum sögum fer af þeirri einkavæðingu, a.m.k. hafa engir lagt til að farið verði inn á slíkar brautir hérlendis.

Það þarf að bæta tengslin

Þó að opinberar stjórnir og æðstu embættismenn þessara veitna, hvort sem þær veita vatni eða rafmagni, hafi þau markmið að veita viðskiptamönnum sínum sem besta þjónustu, þá fer það ekki á milli mála í öllu þeirra viðmóti að þar er valdið; það þarf ekki að óttast samkeppni.

Veitukerfin hafa í sjálfu sér ekki svo mikil bein samskipti við þá sem kaupa þjónustuna nema í formi þess að afhenda hana og innheimta gjald fyrir, þó hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur nýlega sent frá sér ágætan upplýsingabækling til viðskiptavina.

Allar hafa þær mikil tengsl og samskipti við ákveðna stétt manna, rafveiturnar við rafvirkjameistara og hita- og vatnsveitur við pípulagningameistara. Samskipti þeirra við meistarana eru að mestu slétt og felld en þó finna þeir ætíð fyrir því að þeir eiga samskipti við stóra bróður.

Þetta birtist í því m.a. að upplýsingastreymi til þeirra frá veitunum eru mest í því að þeir reka sig á; einn daginn breyta þær reglum sínum og starfsháttum einhvers staðar á skrifborði inni í stofnuninni, reglugerðir eru ekki endurnýjaðar heldur lagaðar til eftir hendinni.

Það má furðulegt heita að a.m.k. stærstu veiturnar skuli ekki gefa út fráttablað, segjum einu sinni á ári, eða handbók í lausblaðaformi fyrir meistarana sem síðan yrði endurnýjuð með útsendingu á nýjum síðum þegar þess gerist þörf.

Þó kom góð sending í póstkassana hjá pípulagningameisturum og fleirum sem málið varðar í síðustu viku.

Þetta var bréf og uppdrættir frá Vatnsveitu Reykjavíkur. Þar er öllum hlutaðeigandi skýrt frá stofnun nýrrar deildar, innlagnadeildar. Vatnsveita Reykjavíkur er að breyta starfsháttum, hér eftir ætlar hún að leggja kalda vanið alla leið inn í hús í stað þess að skilja eftir stút við lóðamörk. Í bréfinu er skilmerkilega skýrt hvernig húseigendur og pípulagningameistarar eiga að taka á móti lögninni, hvaða uppdrætti þurfi að leggja fram og hvar. Einnig hver þjónusta Vatnsveitu Reykjavíkur er og nákvæmar og greinargóðar teikningar af því hvernig ganga skuli frá heimæðinni, hvort sem það er endanlegar heimæðar við byggingar eða tengingar við vinnuskúra.

Það vekur líka athygli að Vatnsveita Reykjavíkur er ekkert að skipta sér af lögnum innanhúss, hún viðurkennir þar með að slíkt sé hlutverk byggingarfulltrúa á hverjum stað. Það eina sem hún fer fram á er að gert sé ráð fyrir að hægt sé, án breytinga á lögn, að setja á inntakið rennslismæli.

Þar að auki hógvær ósk: „Vatnsveitan óskar eftir því að húseigendur setji a. m. k. upp kúluloka og tæmingarloka.“

Það taka margir eftir því þegar opinber stofnun „óskar“ eftir einhverju en segir ekki „þú skalt“.

Vatnsveita Reykjavíkur á hrós skilið fyrir þessar greinargóðu og kurteislegu upplýsingar. Vonandi er hér fordæmi fyrir aðrar veitustofnanir hvar sem þær eru á landinu.

Fleira áhugavert: