Vatn, ölframleiðsla – 4 sek/lítrar +
Grein/Linkur: Framleiða 12 dósir á sekúndu
Höfundur: Höskuldur Daði Magnússon
.
.
Maí 2022
Framleiða 12 dósir á sekúndu
„Fyrir nokkrum árum sáum við fram á að geta ekki annað aukinni eftirspurn. Þessi stækkun er því búin að vera í undirbúningi síðan 2018,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Ölgerðin tók á dögunum í notkun nýtt 1.650 fermetra framleiðsluhús á lóð fyrirtækisins við Grjótháls í Reykjavík. Í nýja húsinu er hátækniframleiðslulína fyrir dósir sem gjörbyltir starfseminni að sögn forstjórans. „Hún framleiðir 12 dósir á sekúndu. Þetta verður alger bylting,“ segir Andri.
Húsið byggt á níu mánuðum
Fyrsta skóflustungan að nýja húsinu, sem Arkís hannaði, var tekin í apríl á síðasta ári og verksmiðjan var gangsett í janúar síðastliðnum. Ótrúlegt má telja að framkvæmd sem þessi hafi verið kláruð á aðeins níu mánuðum. „Að baki er langur undirbúningur hjá starfsfólki Ölgerðarinnar, mikil skipulagning og svo eiga þýskir samstarfsmenn okkar hrós skilið,“ segir Andri.
Samið var við þýska fyrirtækið Krones um uppsetningu framleiðslulínunnar en Andri lýsir því fyrirtæki sem „Marel drykkjarvörubransans“. „Starfsmenn þess bera ábyrgð á því að öll línan virki hjá okkur, jafnvel þótt tækin komi víðar að. Hér voru um 45 tæknimenn frá Þýskalandi þegar mest lét frá október og fram að jólum. Þeir komu svo aftur í janúar til að gangsetja. Nú eru fjórir Þjóðverjar hér til að fínstilla framleiðsluna og við fáum svo línuna formlega afhenta á næstu vikum.“
2,5 milljarða fjárfesting
Þegar nýja framleiðslulínan er komin í fulla notkun verður hægt að ráðast í endurnýjun á eldri verksmiðju sem byggð var 1986. „Þetta er verkefni upp á 2,5 milljarða króna og þegar þessari endurnýjun er lokið hefur Ölgerðin fjórfaldað framleiðslugetu sína á dósum og getur þannig komið enn betur til móts við aukna eftirspurn og óskir viðskiptavina sem hafa tekið vel á móti vörum okkar,“ segir Andri.
80 milljónir eininga í fyrra
Forstjórinn segir að 46% af starfsemi Ölgerðarinnar sé framleiðsla á eigin vörumerkjum, svo sem Appelsíni, Kristal, Egils Gulli og Collab. „Það eru verðmætustu gæði fyrirtækisins,“ segir hann. Um 17% af starfseminni er framleiðsla á sérleyfisdrykkjum á borð við Pepsi og Pepsi Max, Tuborg, Carlsberg og fleiri slíka. Þá standa eftir 37% sem eru innflutningur á alls kyns mat- og sérvöru. „Það er gott jafnvægi í þessu. Það kom skýrt fram á Covid-tímanum að þegar ákveðnir þættir falla, rísa aðrir upp.“
Ölgerðin framleiddi rúmlega 80 milljónir eininga af drykkjarvöru á síðasta ári. „Áherslan hefur smám saman verið að færast yfir í minni einingar sem neytendur vilja og aukningin hjá okkur hefur verið langhröðust í 33 cl dósum. Á sama tíma er minni sala á tveggja lítra plastflöskum. Neytendur tengja betur við smærri einingar í áli,“ segir Andri.
Aukin áhersla á útflutning
Hann segir að aukin afkastageta losi um vaxtarhömlur hjá fyrirtækinu. Nú sé hægt að svara aukinni spurn neytenda eftir drykkjum í áldósum en jafnframt sé hægt að leggja aukna áherslu á útflutning og vöruþróun.
„Við getum núna byrjað með tilraunaútflutning á Collab. Það er mikill áhugi á þeirri vöru. Um leið getum við haldið áfram með frekari vöruþróun. Eitt mikilvægasta markmið okkar er að nýjar vörur séu að minnsta kosti 5% af okkar veltu hverju sinni og nú getum við lagt aukna áherslu á drykki í dósum.“