Carbfix, Elon Musk – 130 M.kr. króna verðlaun

Grein/Linkur: Rakaskemmdir

Höfundur: Kári Helgason Carbfix

Heimild:

.

.

April 2022

Hvað ætlar Carbfix að gera við peningana sem Elon Musk gaf?

Elon Musk

Degi jarðar tilkynnti Elon Musk um fimmtán lið sem hlutu eina milljón dollara hvert, eða tæplega 130 milljónir króna, í alþjóðlegri samkeppni á hans vegum um bestu raunhæfu tæknilausnirnar til að fjarlægja koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbfix hlaut ekki aðeins ein heldur tvenn af fimmtán verðlaunum í þessum áfanga keppninnar, þar sem yfir þúsund teymi voru skráð til leiks.

Í nýjustu skýrslu IPCC kemur skýrt fram að heimurinn hefur enga möguleika til að ná loftslagsmarkmiðum sínum án umfangsmikillar kolefnisföngunar og -förgunar. Samhliða því að minnka losun frá iðnaði og orkuframleiðslu þarf að draga koldíoxíð úr andrúmsloftinu með öllum tiltækum leiðum, bæði náttúrulegum á borð við skógrækt og landgræðslu og tæknilegum á borð við lofthreinsiver og förgun.

Lofthreinsiverum má líkja við „öfuga strompa“; tæki sem soga til sín koldíoxíð í stað þess að sleppa því út og hreinsa þannig upp gamlar syndir. Carbfix hlaut XPRIZE verðlaunin í samstarfi við tæknifyrirtæki sem fanga koldíoxíð beint úr andrúmsloftinu með nýstárlegum aðferðum sem sjötíu dómurum samkeppninnar þóttu á meðal þeirra raunhæfustu.

Vert er að skoða helstu ástæður þess að íslenskt fyrirtæki stendur uppi sem sigurvegari í stórri alþjóðlegri samkeppni með áhrifamátt Elon Musk.

Mörg fanga, fá farga

Í reglum keppninnar segir að koldíoxíð skuli fjarlægt varanlega úr andrúmsloftinu. Tæknilausnum sem fanga koldíoxíð beint úr andrúmsloftinu fleygir nú fram sem aldrei fyrr með tilheyrandi samdrætti í kostnaði og orkunotkun. Á sama tíma er skortur á hagkvæmum lausnum til að farga koldíoxíðinu á öruggan og varanlegan hátt. Þegar búið er að fanga það úr andrúmsloftinu blasir nefnilega við vandamálið: Hvað á að gera við það?

Carbfix er eitt fárra fyrirtækja í heiminum sem hafa þróað lausn til að farga koldíoxíði á öruggan og varanlegan hátt. Lausnin felst í að hraða náttúrulegum ferlum sem binda koldíoxíð í berg. Þetta er gert með því að leysa það í vatni og dæla því niður í gljúpt basalt, þar sem það breytist í fastar steindir um aldur og ævi. Carb­fix tæknin er einstök á heimsvísu, margsannreynd og jafnframt örugg, umhverfisvæn og tiltölulega ódýr. Þar að auki hefur teymið áunnið sér traust með fjölda ritrýndra vísindagreina og langri rekstrarreynslu sem tvinnar saman verkfræði, efnafræði og jarðvísindi.

Vegna þessa sækjast fjölmörg fyrirtæki eftir samstarfi við Carbfix um að setja upp lofthreinsiver á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Fyrsta lofthreinsiver sinnar tegundar í heiminum, sem reist var af svissneska fyrirtækinu Climeworks í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði síðastliðið haust, vakti heimsathygli. Þessi vegferð hefur rækilega fest Ísland í sessi sem leiðandi í kolefnisförgun og gert gljúpt basalt að áður óþekktri auðlind.

Allt þetta endurspeglast í tveggja milljóna dollara XPRIZE verðlaunum frá Elon Musk Foundation, þar sem Carbfix vinnur með tveimur spennandi tæknifyrirtækjum að kolefnisföngun beint úr andrúmslofti og varanlegri steinrenningu þess.

Fyrirtækin sem um ræðir eru annars vegar Heirloom í Kísildalnum og hins vegar Verdox sem á rætur sínar að rekja til MIT-háskólans. Aðferðirnar sem þau beita til kolefnisföngunar úr andrúmslofti eru ólíkar en hafa það sameiginlegt að notast eingöngu við rafmagn. Kostnaður og orkunotkun eru lægri en áður hefur þekkst. Markmiðið er að setja upp lofthreinsiver beggja fyrirtækja á Íslandi á næstu tveimur til þremur árum og keppa um 60 milljóna dollara fyrstu verðlaun XPRIZE.

Orkuauðlindir Íslands eru takmarkaðar og þær ber að nýta skynsamlega. Því er ljóst að Ísland verður ekki með allra stórtækustu þjóðum í kolefnisföngun og -förgun. Hins vegar getur Ísland tekið sér leiðandi hlutverk í að þroska og hraða nýjum lausnum og hjálpa fyrirtækjum að stíga sín fyrstu skref utan rannsóknastofunnar. Framlag Íslands til loftslagsmála er ekki eingöngu talið í tonnum af koldíoxíði heldur líka þeim krafti sem við beinum í kapphlaupið um lausnir sem loftslagsaðgerðir krefjast. Hvað okkur varðar er hér er allt til reiðu: basalt, vatn og endurnýjanleg orka.

Ísland hefur nú þegar skapað sér sérstöðu sem vakið hefur heimsathygli. Carbfix mun nýta XPRIZE verðlaunin til að byggja undir forskotið sem náðst hefur með því að setja á fót nýsköpunargarða fyrir fjölbreytta lofthreinsitækni.

Fleira áhugavert: