Byggingareglugerð, sagan – Huldar eða óhuldar lagnir
Grein/Linkur: Flótti til fortíðar eða sókn til framtíðar
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
September 1998
Flótti til fortíðar eða sókn til framtíðar
Mörg ný lagnaefni eru komin á markaðinn. Þó að þessi lagnaefni séu sett utan á fullbúna veggi, má hylja þau á margvíslegan hátt, svo að vel fari.
HINN 1. júlí sl. tók ný Byggingareglugerð gildi hér á landi eftir talsvert strangar fæðingarhríðir, en förum ekki nánar út í það. Að sjálfsögðu tekur slík reglugerð til alls þess sem að húsbyggingu lýtur, en ekki er óeðlilegt að hér sé staldrað við þau atriði sem fjalla um lagnir og lagnaefni. Í kaflanum „Tæknibúnaður“ er fjallað um tvennt sem miklu máli skiptir, í fyrsta lagi um val á lagnaefni og í öðru lagi um hvernig lögnum skuli komið fyrir í byggingum.
Um val á lagnaefni segir þetta:
„Við val á lagnaefni er, auk staðla, bent á leiðbeiningar viðkomandi veitna þar sem þær eru fyrir hendi og leiðbeiningarit Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Efnisvottorð skulu greina notkunarforsendur lagnaefnis svo glöggt komi fram við hvaða aðstæður nota megi efnið, fyrst og fremst varðandi tegund vatns, þrýsting og hita.“
Um frágang lagna í byggingum segir þetta:
„Lagnir skulu vera aðgengilegar til þjónustu, hreinsunar, eftirlits og viðgerða þannig að múrbroti eða öðrum skemmdum á húsnæði sé haldið í lágmarki ef endurnýja þarf lagnir eða gera við þær. Vatnslagnakerfi skulu vera útskiptanleg þannig að sem minnstar skemmdir verði á byggingu, þau skulu þannig hönnuð og frá þeim gengið að hugsanlegir lekar uppgötvist fljótt og leiði ekki til skemmda á öðrum lögnum eða byggingahlutum.“
Nú er það svo með allan texta að hann má túlka á mismunandi vegu, þó Biblían sé kristnum mönnum aðgengileg til lestrar er mikill fjöldi presta og preláta, lærðra manna og leikra að útskýra þann texta ár og síð. Framangreindur texti úr Byggingareglugerð 1998 hefur þó þann kost að hann er hvorki skipandi né bannandi, það má segja að han gefur hverjum og einum kost á því að nýta sér eitt af því sem hann á dýrmætast, heilbrigða skynsemi.
Huldar eða óhuldar lagnir
Það er víst að bera í bakkafullan lækinn að hamra á því að hérlendis hafa menn fram að þessu einungis viljað huldar lagnir, lengst af höfum við notað svört stálrör í hitakerfi og galvaniseruð stálrör fyrir kranavatn, bæði heitt og kalt. Þessum lögnum hefur verið komið kirfilega fyrir inn í einangrun útveggja eða í milliveggjum, hvort sem þeir hafa verið hlaðnir og múraðir eða úr timbri og á vissu árabili voru lagnir settar í neðstu plötu húsa með skelfilegum afleiðingum.
Í dag eru allir sammála um að allt sé þetta í hæsta máta óskynsamlegt og mörg ný lagnaefni, miklu nettari en gömlu snittuðu og skrúfuðu rörin, eru komin á markaðinn og hafa talsvert verið notuð, má þar nefna Mannesmann lagnakerfið og fleiri í líkingu við það.
Þó þessi lagnakerfi séu sett utan á fullbúna veggi má hylja þau á margvíslegan hátt svo vel fari.
Ef menn hinsvegar vilja endilega setja lagnir inn í veggi eða gólf er það auðvelt með rör í rör-kerfinu, kerfi sem er alfarið úr plasti, plaströrið sem flytur vatnið er dregið í annað rör og því hægt að skipta um það eins og raflagnir. En nú er að myndast undarlegur þrýstingur á að nota þessi nýju lagnakerfi, svo sem Mannesmann kerfið, á sama hátt og við höfum notað snittaðar og skrúfaðar lagnir í áratugi, sem sagt þann að troða þessum lögnum inn í einangrun og veggi.
Þetta verða byggingafulltrúar varir við en hins vegar er ekki svo einfalt að skynja hvar uppsprettan að þessum þrýstingi er. Nú er það fullvíst að það er ekkert verri kostur að leggja t. d. Mannesmann lagnakerfið hulið á sama hátt og gömlu lagnirnar, sá tengimáti sem þar er notaður, að þrykkja saman rör og tengi, hefur næstum því þriggja áratuga óaðfinnanlega reynslu hér á landi.
En hinsvegar er þessi lagnamáti svo arfavitlaus, að í stað þess að leyfa að Mannesmann lagnkerfi verði kaffærð inn í steypu eða einangrun, ætti miklu fremur að stöðva slíkan lagnamáta með öllu nema unnt sé að endurnýja lagnirnar án þess að brjóta nokkurstaðar veggi eða gólf. Annað eins hefur verið bannað í lagnamálum hérlendis á undanförnum áratugum og það til stórtjóns, svo það ætti að vera kominn tími til að mega stöðva lagnahefð sem hefur leitt af sér stórtjón.
Setjum að lokum fram einfalt lögmál fyrir þann sem er að fara að byggja og þarf að velja lagnaefni og lagnaleiðir og þetta lögmál á jafnt við þann sem byggir eitt einbýlishús fyrir sjálfan sig eða stór sambýlishús til sölu á almennum markaði.
„Ef lagnir skulu vera huldar er aðeins um eitt lagnakerfi og lagnaefni að ræða, rör í rör kerfi, sem er alfarið úr völdu plastefni. Ef lagnakerfi mega og eiga að vera utanáliggjandi er um mörg lagnakerfi að velja, úr stáli, plasti, álplasti eða eir þar sem hann á við.“
Við skulum umfram allt frekar sækja inn til framtíðar með skynsemina að leiðarljósi, en að fara á flótta til fortíðar vegna íhaldssemi og ótta við það nýja.