Gasleiðslur Norðursjó – Arabar fjárfesta, sagan
Grein/Linkur: Sólveig & Gassled
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Ágúst 2011
Sólveig & Gassled
Í færslu Orkubloggsins um norsku gullgerðarvélina var fjallað um æpandi hagnað Norðmanna af gassölu sinni – og um kvartanir franskra og þýskra orkufyrirtækja vegna verðsins sem þau þurfa að punga út fyrir norska gasið.
Í umræddri færslu um norska gasið, var einnig minnst á það hvernig olíusjóður arabanna í Abu Dhabi (Abu Dhabi Investment Authority) mátti gefa eftir efsta sætið á listanum yfir stærstu fjárfestingasjóði veraldar. Þegar norski Olíusjóðurinn, Statens Pensjonsfond Utland (SPU) komst í efsta sætið með verðmæti upp á 3.100 milljarða norskra króna.
Í þessu sambandi er skemmtilegt að umræddur fjárfestingasjóður olíuljúflinganna í Abu Dhabi átti nýlega stórviðskipti við Norðmenn. Þ.e. við norska olíufyrirtækið Statoil. Þau viðskipti fólust í því að Abu Dhabi Investment Authority keypti stóran hlut í norsku gasleiðslunum í Norðursjó. Og það eru einmitt þessar gríðarlegu gaslagnir sem eru umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag:
I. Gasleiðslurnar í Norðursjó.
Sala Norðmanna á gasi hefur aukist mjög í síðustu árum. Alls kemur nú um 15% af öllu því gasi sem notað er í Evrópu frá Noregi. Í sumum löndum í V-Evrópu er hlutfall norska gassins allt að 35%!
Næstum allt þetta óhemjumikla gas frá vinnslusvæðunum á norska landgrunninu er flutt til meginlands Evrópu um neðansjávarlagnir sem liggja eftir botni Norðursjávar. Og norskar gasleiðslur ná ekki aðeins til meginlandsins, heldur teygja þær sig líka til Bretlandseyja (sbr. kortið hér til hliðar).
Norska olíufélagið Statoil var nýverið að skrifa undir enn einn gassölusamninginn og í þetta sinn við eitt helsta orkufyrirtækið í Skotlandi. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að öll helstu kolvetnissvæði Breta eru í Norðursjó skammt utan strönd Skotlands. Þetta er til marks um hversu gasvinnslu Breta fer nú hratt hnignandi og þeir, rétt eins og flest ríkin á meginlandi Evrópu, eru að verða sífellt háðari innfluttu gasi. Norsku, rússnesku og alsírsku gasi.
II. Gassled & Gassco.
Lengi vel var þetta æðakerfi gasframleiðslu Noregs rekið af vinnslufyrirtækjunum sjálfum. En árið 2001 voru allar gaslagnirnar á norska landgrunninu settar inn í nýtt fyrirtæki, sem kallað var Gassled.
Þetta var gert að kröfu (eða skv. „tilmælum“) norska ríkisins. Í dag er Gassled eigandi að öllum gaslögnum sem liggja frá norska landgrunninu og flytja gas til viðskiptavina gasvinnslufyrirtækjanna í Evrópu. Gassled er vel að merkja eingöngu eignarhaldsfélag – og eignirnar eru viðkomandi gasleiðslur. Til þess að sjá um reksturinn á gasleiðslukerfi Gassled var svo stofnað annað fyrirtæki. Það fyrirtæki er alfarið í eigu norska ríkisins og heitir Gassco.
Þegar Gassled var stofnað fyrir sléttum áratug síðan urðu öll þau fyrirtæki sem stunduðu gasvinnslu á norska landgrunninu einfaldlega hluthafar í hinu nýja fyrirtæki (í samræmi við það sem viðkomandi fyrirtæki höfðu lagt til uppbyggingar á eigin gasleiðslum). Þar var norska ríkið langstærst með samtals u.þ.b. 75% hlut; annars vegar í gegnum Statoil (tæplega 30% hluti) og hins vegar í gegnum Petoro (með um 45% hlut – en um Petoro var einmitt fjallað í einni færslu Orkubloggsins fyrr í sumar).
III. Arabarnir kaupa í Gassled – Sólveig verður til.
Lengst af hefur Gassled sem sagt verið í um 75% eigu Statoil og Petoro samanlagt. Afgangur hlutabréfanna hefur svo verið í eigu ýmissa annarra fyrirtækja sem koma að gasvinnslu í lögsögu Norðmanna. Þar má nefn franska Total, sem á um 6% í gaslagnakerfinu, bresk-hollenska Shell á um 5% og ítalska Eni á um 1,5% – auk nokkurra annarra norskra og útlendra fyrirtækja sem eru með minni hlut.
Gasflutningakerfi Norðmanna hefur því að stærstu leyti verið í eigu þeirra sjálfra (um 75%). En fyrir um tveimur mánuðum – einmitt þegar Orkubloggarinn var að spóka sig í Noregi – urðu þau tíðindi að Statoil seldi mestallan hlut sinn í Gassled! Og kaupandinn var enginn annar en áðurnefndur olíusjóður arabanna í furstadæminu Abu Dhabi; Abu Dhabi Investment Authority.
Þarna er eftir talsverðu að slægjast. Um leiðslur þessa tíu ára gamla gaslagnafyrirtækis fer nú, sem fyrr segir, u.þ.b. 15% af öllu því gasi sem notað er í Evrópu. Á síðasta ári (2010) var velta Gassled rúmir 27 milljarðar NOK (um 570 milljarðar ISK). Sem er vel að merkja einungis flutningskostnaður vegna gassins sem streymir frá Noregi. Sjálfir álíta Norðmenn að flutningar á vegum Gassled muni aukast um allt að 25-30% ánæstu tíu árum og verði þá um 130 milljarðar rúmmetra af gasi á ári.
Nú kunna einhverjir að spyrja sig hvort Norðmenn séu orðnir alveg spinnegal að selja einhverjum dularfullum aröbum svo stóran hluta í þessu æðakerfi norska efnahagslífsins? Minnumst þess þegar aðrir arabískir aurar, nefnilega fjárfestingasjóður frá öðru furstadæmi í UAE (Dubai) ætlaði að kaupa nokkrar hafnir í Bandaríkjunum fyrir fáeinum árum. Þá varð hreinlega allt vitlaust þar vestra og það endaði með því að Dúbæjarnir hröktust burt. Það var svo bandaríski trygginga- og fjármálarisinn AIG sem hirti hafnargóssið – áður en hann sjálfur reyndar féll með braki og brestum eins og alræmt er.
Norðmenn virðast ekki vera alveg eins viðkvæmir fyrir arabískri fjárfestingu eins og Bandaríkjamenn og sjá barrrasta sölu Statoil á hlut sínum í Gassled sem nokkuð góðan díl. Það er líka vel að merkja svo að meirihluti Gassled verður áfram í norskum höndum. Af því Statoil heldur eftir um 5% hlut (selur sem sagt um 25% en átti um 30%). Með þessum eignarhlut Statoil ásamt hlut Petoro ráða Norðmenn því áfram rétt rúmlega 50% í Gassled. Og sökum þess að Petoro er alfarið í eigu norska ríkisins og norska ríkið á um 70% i Statoil, er augljóst að Norðmenn munu áfram ráða því sem þeir vilja í sambandi við Gassled.
Kaupandinn að þessum 25% eignarhluti í gaslögnum Gassled í Norðursjó er sérstakt nýstofnað fyrirtæki, sem nefnist hinu notalega norræna nafni Sólveig. Eða réttara sagt Solveig Gas Norway. Þó svo Arabarnir frá Abu Dhabi séu stór eignaraðili í Sólveigu er hún samt alls ekki hreinræktuð Arabastúlka. Fjárfestingasjóðurinn frá Abu Dhabi er nefnilega einungis fjórðungseigandi í Solveig Gas Norway.
Meðeigendur Arabanna að fyrirtækinu eru tveir aðrir „útlendingar“; annars vegar risastór kanadískur eftirlaunasjóður sem kallast Canada Pension Plan Investment Board (30%) og hins vegar þýski tryggingarisinn Allianz (30%). Abu Dhabi Investment Authority eða olísjóður arabanna í Abu Dhabi er því í reynd bara fylgisveinn vestrænna lífeyris- og tryggingapeninga í þessum kaupum Sólveigar á 25% hlut í Gassled.
Það er sjeikinn geðþekki Ahmed bin Zayed Al Nahyan sem er í forsvari fyrir fjárfestingu Arabanna frá Abu Dhabi í Gassled. Margir búast reyndar við því að arabarnir horfi til þess að kaupa brátt meira í þessu mikilvæga gasflutningafyrirtæki – hvort svo sem það yrði þá af Total eða öðrum minni hluthöfum. Slík kaup gætu líka orðið með aðkomu Sólveigar.
Það virðist a.m.k. vera mikill áhugi meðal fjárfestingasjóða víða um heim á gasæðakerfinu sem Gassled rekur í Norðursjó. Abu Dhabi & félagar eru nefnilega ekki fyrstu fjárfestingasjóðirinir sem kaupa í Gassled. Í fyrra (2010) seldi ExxonMobil sinn hluta í fyrirtækinu (um 8%) til tveggja stórra fjárfestingasjóða; annars vegar sjóðs í eigu svissneska UBS og hins vegar til franska CDC Infrastructure. Þetta er væntanlega vísbending um að menn sjái gasleiðslur sem flytja norskt gas til Evrópu sem eitthvert hundtryggasta og öruggasta brownfieldsem fyrirfinnst í heimi hér. En um leið að þetta sé fjárfesting sem kannski síður henti orkufyrirtækjum sem eru skráð á markaði – fyrirtækja sem eru væntanlega mun áhættusæknari heldur en stórir fjárfestingasjóðir í eigu ríkja, lífeyrissjóða eða tryggingafélaga.
Með kaupum Solveig Gas Norway á 25% hlut í Gassled verður hátt í þriðjungur af hlutabréfunum í fyrirtækinu komin í hendur erlendra fjárfestingasjóða. Öll viðskipti með eignarhluti í Gassled eru vel að merkja háð blessun norskra stjórnvalda. Auk þess er öll umsýslan með eignir Gassled, sem fyrr segir, í höndum norska ríkisfyrirtækisins Gassco. Og öll verð á gasflutningunum um leiðslur Gassled eru háð samþykki norskra stjórnvalda. Norðmenn eru því langt í frá búnir afsala sér yfirráðum yfir gaslagnakerfinu, þó svo þeir leyfi útlendingum að ávaxta þar sitt pund. Skemmtilegt viðskiptamódel sem Norsararnir hafa þarna komið á fót.
Og hvað sem líður eignarhaldi á Gassled, þá mun norskt gas áfram streyma hindrunarlaust um neðansjávarlagnirnar í Norðursjó um langa framtíð. Nú er reyndar svo komið að æ fleiri spá því að 21. öldin verði ekki öld endurnýjanlegrar orku, heldur öldin sem gas verði helsti orkugjafi mannkyns. Nú er bara að krossa fingur og vona að með í þeim ljúfa leik verði líka alveg glás af gasi frá íslenska Drekasvæðinu. Vonandi tekst loks að ná þokkalegum árangri af útboði leitarleyfa þar á bæ.