Gullæðið Texas 2009 – Gas og olía, sagan

Grein/Linkur:  Þyrnirós vakin upp í Texas

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

September 2009

Þyrnirós vakin upp í Texas

Það ríkir nýtt gullæði í gamla olíuríkinu Texas. Æði sem kennt er við Barnett Shale.

George P. Mitchell_3

George P. Mitchell – Smella á myndir til að stækka

Þarna í villta vestrinu er löngu búið að dæla megninu af svarta gullinu upp úr aðgengilegu olíulindunum sem svo auðveldlega mátti finna í stórum saltsteinshvelfingum undir yfirborði jarðar. En sumir vildu ekki afskrifa Texas. Til var maður sem var sannfærður um að þarna í fylki sjálfs JR Ewing hlyti að mega finna meiri olíu og gas. Ef maður bara sýndi nógu mikla þolinmæði og útsjónarsemi. Þessi maður er George P. Mitchell.

Í dag er olíubaróninn og fasteignakóngurinn George P. Mitchell kominn á tíræðisaldur (f. 1919 í Galveston í Texas, af grísku bergi brotinn). En þrjóska hans hefur borið ríkulegan ávöxt. Á síðustu tíu árum hafa villtustu draumar Mitchell um nýja olíu- og gasuppsprettu í Texas ræst svo um munar.

spindletop_texasForsaga þessa nýja ævintýris er í stuttu máli eftirfarandi: Í gegnum tíðina hefur Texas verið eitt mikilvægasta olíuvinnslusvæði í Bandaríkjunum. Olíu- og gaslindirnar þar má gróflega flokka í tvennt.

Annars vegar eru lindir þar sem olía og gas hefur safnast saman í eins konar hvelfingum og tiltölulega auðvelt hefur verið að bora niður og dæla gumsinu upp. Þessar olíu- og gaslindir eru lykillinn að baki því að Texas varð snemma helsta vinnslusvæði Bandaríkjanna.

Hins vegar  má finna þunn lög af olíu og þó einkum gasi í sjálfum jarðlögunum þar sem gasið hefur myndast í jörðinni. Það borgar sig sjaldnast að bora niður í þessi gasþunnildi, því oftast næst einungis örlítið magn þar upp. Svo þarf að færa borinn nokkur hundruð metra og bora aftur – og svo framvegis. Þetta er sem sagt mjög dýrt og því hafa þessi olíu- og gasþunnildi á milli grjótharðra sandsteinslaga að mestu legið í friði. Þrátt fyrir óseðjandi hungur Bandaríkjamanna eftir bæði olíu og gasi.

Þegar stóru og auðunnu olíulindirnar í Texas tæmdust smám saman töldu flestir stefna í að saga Texas sem olíufylkis væri senn á enda. Menn voru jafnvel farnir að sjá fyrir sér að rafmagnsframleiðsla með vindorkuverum yirði næsti stóriðnaður þessa risastóra og fornfræga fylkis.

Barnett_Shale_Geology_east-west

Barnett_Shale_Geology_east-west

George Mitchell var á öðru máli. Athygli hans beindist að sérstökum jarðlögum sem kölluð voru Barnett-lögin. Ástæðan fyrir nafngiftinni er að í upphafi 20. aldar veittu jarðfræðingar athygli óvenju dökku jarðvegslagi við árbakka einn í Texas. Áin sú er kennd við landnema á svæðinu – John W. Barnett – og þetta jarðvegslag reyndist vera óhemjuríkt af lífrænum leifum.

Í ljós kom að hugsanlega mætti finna olíu og gas í Barnett. Víðast hvar er nokkuð djúpt niður á gumsið, þó svo þarna mætti sem sagt sjá það í bakkanum. Það hefur lengi verið tæknilega unnt að bora niður í slík jarðlög og ná bæði olíu og gasi upp. Vandamálið er að slík vinnsla borgar sig ekki nema þar sem olía eða gas hefur náð að safnast saman í miklu magni – og að auki er Barnett umlukið grjóthörðum sandsteini sem valdið hefur mönnum vandkvæðum. Hefðbundnar vinnsluaðferðir borguðu sig hreinlega ekki og þess vegna skeyttu menn lengst af ekki um þunnildin í Barnett.

Fyrir vikið sváfu gas- og olíulindirnar í Barnett áfram værum svefni. Í heil hundrað ár rétt eins og Þyrnirós. En þá birtist prinsinn á hvíta hestinum – prinsinn sem var nógu þolinmóður til að finna hagkvæma leið til að höggva niður þétt þyrnigerðið umhverfis kastalann sem geymdi  gasið í völundarhúsi sínu.

Prinsinn sá var reyndar maður kominn vel yfir miðjan aldur, en jafn mikill olíu-sjarmör fyrir því. Það var um 1980 að Geroge Mitchell, þá um sextugt, byrjaði að skoða möguleika á að þróa lárétta bortækni  til að nálgast Barnett-þunnildin. Og viti menn; með öflugu tuttugu manna teymi tókst honum að ná tökum á bortækni, sem byggðist á nýrri hugsun. Eftir nærri tveggja áratuga þróunarvinnu varð nú skyndilega unnt að ná upp feykimiklu af bæði gasi og olíu á svæðum sem fram til þessa höfðu verið álitin vonlaus.

Shale_technology_horizontal

Shale_technology_horizontal

Lykillinn í lausn George Mitchell og starfsmanna Mitchell Energy  fólst í því að nota háþrýstivatn  til að brjóta sér leið gegnum saltsteinslögin og sötra upp gasið. Eftir á virðist þetta ósköp einfalt. Í staðinn fyrir að nota hefðbundna bortækni ruddi Mitchell sér leið lárétt gegnum sandsteininn með sandblönduðu háþrýstivatni. Þar með varð leiðin greið til að reka rörin lárétt inn að þunnum gashólfunum og dæla gasinu og olíunni upp upp.

Næstu árin, þ.e. upp úr aldamótunum, fínpússaði Mitchell svo tæknina og fór að stórgræða. Björninn var unninn og nýtt gullæði hófst í Texas. Olíufyrirtækin tóku streyma aftur til gamla, góða olíufylkisins og bullsveittir útsendarar þeirra æða nú þar um héruð og kaupa upp vinnsluréttindi villt og galið. Og landeigendur brosa.

barnett_shale_map

barnett_shale_map

Þó svo hér að ofan sé mikið talað um olíu er það þó fyrst og fremst gas sem er þarna að hafa. Sérstaklega eru þessi gullvægu gasþunnildi í gríðarlegu magni beint undir borgunum Dallas og Fort Worth. Og á nokkurra þúsunda ferkm svæði þar í kring.

Þarna liggur gasið sem sagt á milli afar þéttra sandsteinslaga sem eru ca. 320-360 milljón ára gömul og enginn hægðarleikur að komast þar í gegn. En með nýju bortækninni er unnt að láta rörin fara eins og snák lárétt eftir gaslindunum. Þetta er ekki dýrari vinnsla en svo að peningalyktin hefur á ný gosið upp í Dallas og nágrenni. Það er sem sagt kominn tími á Dallas Revisited þar sem hinn ungi, útsmogni og harðsvíraði John Ross Ewing II hefur byggt upp nýtt veldi; Ewing Gas! Og keppir þar auðvitað hvað harðast við hina gullfallegu frænku sína Pamelu Cliffie Barnes.

dallas_bobby_pam

dallas_bobby_pam

Þetta Barnett-stöff er sko ekkert smáræði. Þó svo líklega hafi fæstir Íslendingar orðið varir við umfjöllun um þetta ofboðslega magn af nýju Texasgasi í fjölmiðlum, má bera þetta saman við mestu olíuæðin sem urðu í Bandaríkjunum fyrr á tíð. Án gríns!

Þetta eru risaauðæfi og þess vegna sannkölluð efnahagsbylting yfirvofandi í Texas. Menn sjá fyrir sér að Texasgasið nýja muni skila landeigendum 35 milljörðum dollara og verða 100 milljarða dollara efnahagssprauta fyrir fylkið. Búið er að staðreyna nærri 70 milljarða rúmmetra af gasi í Barnett og taldar góðar líkur á að þar megi finna tíu sinnum meira eða 500-800 milljarða teningsmetra. Það lítur sem sagt út fyrir að beint undir Dallas og nágrenni sé einfaldlega stærsta gaslind í gjörvöllum Bandaríkjunum (að frátöldu landgrunninu auðvitað).

Barnett_Shale_production_2006

Barnett_Shale_production_2006

Það hefur valdið borgaryfirvöldum í Dallas og Fort Worth nokkrum heilabrotum hvernig eigi að standa að gasvinnslunni. Þarna er ekki einfaldlega hægt að fara út á tún – eins og gildir um olíuþunnildin í Dakota – og barrrasta byrja að bora. Allt eins líklegt að við munum fremur sjá gasvinnslutól beint undir hraðbrautarfléttunum kringum miðbæjarháhýsin. Þetta er svona svipað eins og ef háhitasvæði uppgötvaðist allt í einu beint undir Austurvelli og Arnarhváli. Kannski iðnaðarráðherra ætti að kíkja undir stólinn sinn?

Á þeim tíma sem George Mitchell bisaðist við að ná til gassins í Barnett-jarðlögunum höfðu stóru olíufélögin engan áhuga á að standa í svona veseni. En þegar gasið byrjaði að streyma upp hjá Mitchell komu þau auðvitað strax æðandi – ásamt þúsundum annarra smærri spámanna. Meðal þeirra var Devon Energy sem sá hvað var á seyði og keypti Mitchell Energy  af þeim gamla árið 2002 á litla 3,5 milljarða dollara. George Mitchell taldi sig hafa sannað mál sitt, tók við aurunum og slakaði loksins á kominn á níræðisaldur. Reyndar alveg makalaust hvað menn virðast eldast vel í olíubransanum.

Devon_Energy_2Á síðustu árum hafa líklega tugþúsundir af nýjum borleyfum verið gefin út í sýslunum umhverfis Dallas og Fort Worth. Kapphlaupið er æðisgengið. Greiðslur frá gasvinnslufyrirtækjunum til landeigenda hafa rokið upp úr öllu valdi í viðleitni þeirra að tryggja sér sem mest land. Vaxtarmunar-slefið úr munnvikum íslenskra bankadólga er hreinn barnaskapur miðað við flóðið úr kjafti gasfyrirtækjanna þegar Barnett-gasþunnildin eru annars vegar.

Einungis örfáir brunnar hafa reynst þurrir; nýja bortæknin hefur hreinlega opnað gasgáttir út um allt. Og þar sem kemur upp gas, þar þarf að byggja gasleiðslur. Afleiðingin af þessu öllu saman er auðvitað enn eitt góðærið í Texas. Á örfáum árum hafa orðið til einhver 70 þúsund störf í kringum þessar nýju gaslindir og samt er ævintýrið bara rétt að byrja. Eins og svo oft áður á Texas framtíðina fyrir sér!

Barnett_Shale_derrick_worker

Barnett_Shale_derrick_worker

Afleiðingarnar eru víðfeðmar – og stundum óvæntar. Nú er möguleiki á að gasleiðslunni, sem átti að byggja frá norðurströndum Alaska og alla leið suður til Alberta í Kanada, verði slegið á frest. Alaskabúum til sárra armæðu – leiðslan sú átti jú að verða mikil lyftistöng fyrir efnahaginn þar í dreifbýlistúttufylkinu á norðurhjara veraldarinnar.

Þegar allt í einu streymir ógrynni af nýju gasi upp í Texas sjá peningamenn lítinn tilgang í því að kosta stórfé til að flytja gas alla leið norðan frá Alaska og til Alberta og þaðan til Bandaríkjanna. Alaskaleiðslan nýja á að kosta 26 milljarða bandaríkjadala og t.d. hefur ljúflingurinn og einn besti vinur Orkubloggsins, gamli olíurefurinn T. Boone Pickens, sagt það tóma vitleysu að fara útí slíka fjárfestingu þegar nóg er af Texasgasinu. Pickens segir að best sé að setja Alaskaleiðsluna á ís í a.m.k. 10-15 ár, enda eins víst að unnt verði að finna samskonar gaslindir eins og í Texas í fjölmörgum öðrum fylkjum Bandaríkjanna. Það væri magnað.

barnett_US_Shales

barnett_US_Shales

Já – Pickens trúir á gasið. Og gasið í Texas virðist reyndar ætla að verða einn helsti bjargvættur Bandaríkjamanna á tímum hækkandi orkuverðs. Kannski væri besta efnahagsheilræðið handa íslenskum stjórnvöldum að taka Pickens á orðinu og byrja að kaupa upp gasvinnsluréttindi hingað og þangað um Louisiana, Arkansas og Pennsylvaníu.

Öll þessi fylki gætu haft að geyma svipaðar gaslindir þéttlokaðar milli sandsteinslaganna, rétt eins og við sjáum núna kringum Dallas og Fort Worth. Þess vegna ríkir nú mikil bjartsýni þar vestra um að auka megi gasvinnslu Bandaríkjanna verulega. Ekki veitir af.

Fleira áhugavert: