Bandaríkin, leirgas – Hljóðlát orkubylting, sagan

Grein/Linkur:  Hljóðlát orkubylting

Höfundur: Sigurður Már Jónsson

Heimild: 

.

.

Mars 2017

Hljóðlát orkubylting

Sigurður Már Jónsson

Nú er um það bil áratugur síðan vinnsla á leirgasi hófst fyrir alvöru í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að fátt hefur haft meiri áhrif á orkuiðnaðinn og orkuverð í heiminum eins og lesa mátti í fréttaskýringu í Financial Times. Að sumu leyti hefur þessi þróun horfið í skuggann af breytingu á ýmsum öðrum sviðum orkuiðnaðarins, svo sem gríðarlegri aukningu sólar- og vindorku. Staðreyndin er hins vegar sú að leirgasið (oil fracking) hefur haft gríðarleg áhrif á orkumarkaðinn, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar skiptir mestu að leirgas hefur reynst hafa jákvæð áhrif á útblástur Co2 þar sem það hefur rutt kolakyndingu út af borðinu. Leirgasið hefur reynst vera mjög samkeppnishæft við kol og reyndar einnig annað jarðefnaeldsneyti. andaríkin hafa verið fremstir allra við að nýta leirgas en vinnslan hefur verið umdeild og gagnrýnd fyrir neikvæð umhverfisáhrif, fyrst og fremst á grunnvatn. Það breytir ekki þeirri staðreynd að notkun þess hefur jákvæð áhrif í loftslagsmálum vegna þess að kolavinnsla hefur lagst af á stórum svæðum. Þá er ljóst að vinnsla leirgas hefur haft mikil áhrif á verðlag jarðefnaeldsneytis og einnig geopólitísk áhrif þar sem það hefur dregið úr áhrifum Rússa og annarra olíuútflutningsríkja.

Nú þegar olíuverð er að falla enn á ný hefur athyglin aftur beinst að leirgasi en margvíslegar tækniframfarir hafa orðið við vinnslu þess, sem meðal annars hafa leitt til þess að ríkulegar olíu- og gaslindir hafa fundist í Bandaríkjunum. Er nú svo komið að orkuþörf Bandaríkjanna hefur sáralítil eftirspurnaráhrif á hinum alþjóðlega orkumarkaði og í síðustu viku var upplýst að birgðastaða væri óvenju góð í Bandaríkjunum. Það hafði strax áhrif á orkumörkuðum og olíuverð lækkaði. En leirgasbyltingin hefur einnig færst yfir á olíumarkaðinn.

Bandaríkjamenn auka olíuframleiðslu

Á þessum áratug hefur orðið gríðarleg breyting í framleiðslu leirgas og nú eru framleidd um 50 milljón rúmfet af því á dag að því er upplýsingar frá bandaríska orkumálaráðuneytinu segja ( US Energy Administration). Auðvinnanlegt gas á lágu verði hefur ýtt kolum út af borðinu. Í stað þess að vera innflytjandi á gasi eins og margir áttu von á hefur Bandaríkjunum tekist að vera sjálfum sér nóg á því sviði. Ekki nóg með það heldur hafa Bandaríkjamenn verið að færast yfir að flytja út bæði kol og gas. Nokkuð sem fáir sáu fyrir fyrir rúmum áratug. Bandaríkjamenn hafa aukið leirgframleiðslu sína um 3 milljón tunnur á dag og tilraunir Saudi Araba og félaga þeirra til að ná stjórn á markaðinum – meðal annars með því að auka framboð af olíu og koma þannig dýrari olíulindum úr umferð – hefur ekki tekist. Jú, sumar olíulindir hafa verið teknar úr umferð en leirgasið hafur haldið stöðu sinni, meðal annars vegna stöðugra endurbóta í vinnslunni sem hafa unnið gegn verðlagshækkunum. Nú eru margir sem spá því að önnur leirgasbyltingin sé að koma fram. Vinnslukostnaður hefur lækkað þannig að jafnvægi er náð í 50 dollurum og í sumum tilvikum en neðar en það. Leirgasvinnslan hefur leitt til þess að talsvert af olíulindum hefur fundist og nú er svo komið að framleiðsla í slíkum lindum er að aukast verulega. Talið er að vinnsla í slíkum lindum geti aukist um 400 til 800 þúsund tunnur á dag.

Víða sjá menn fram á mikla aukningu framleiðslu. Ljóst er að Permian Basin lindin í Texas er einhver sú gjöfulasta sem fundist hefur. Hún er á pari við Ghawar lindina í Saudi Arabíu og Prudhoe Bay í  Alaska. Horfur eru því á verulegri aukningu, bæði á framleiðslu leirgas og ekki síður olíu úr tengdum lindum. Þetta gæti lyft framleiðslu Bandaríkjamanna í 11 milljónir tunna á dag, úr 9 milljónum tunna. Þegar horft er til þess að talið er að eftirspurn á heimsvísu aukist aðeins um eina milljón tunna á dag þá er augljóst að þessi framleiðsluaukning mun hafa áhrif. Við blasir að þó að Rússar og OPEC ríkin virði kvóta sína fullkomlega þá mun það ekki vega upp á móti þessari framleiðsluaukningu. Ljóst er að Saudi Arabar og OPEC verða að skera enn frekar niður framleiðslu til að ná tökum á verðþróuninni.

Kolaiðnaðurinn tæpast í gang aftur

En þessi þróun mun gera Donald Trump erfiðara að uppfylla kosningaloforð sín um að koma kolaiðnaðinum aftur í gang. Það virðast í það minnsta vera litlar markaðslegar forsendur fyrir því að efla kolavinnslu í Bandaríkjunum. Sömuleiðis blasir við að efnahagsleg þörf á afskiptum Bandaríkjamanna af þróun heimsmála með olíuhagsmuni í huga verður minni. Nákvæmlega hvaða áhrif það hefur á heimsmálin er erfitt að segja en þarna er í það minnsta einum áhrifavaldinum færra.

Þessu til viðbótar má benda á að allur orkuiðnaðurinn er í uppstokkun. Kína er nú stærsti framleiðandi sólarorku í heiminum en framleiðsla sólarorku tvöfaldaðist þar á árinu 2016. Kínverjar hyggjast verja 360 milljörðum dala í innviði vegna endurnýtanlegra orkugjafa á næstu þremur árum. Stjórnvöld í Peking hyggjast ennfremur auka hlutfall grænnar orku úr 11% af heild í 20% af heild árið 2030. Allt þetta mun einnig hafa umtalsverð áhrif á framleiðslu kola og jarðefnaeldsneytisiðnaðinn í heild. En leirgasið er sannarlega að breyta sögunni.

Fleira áhugavert: