Vatn – Drekkum nóg af því

Grein/Linkur:  Vatn, drekkum nóg af því heilsunnar vegna

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Heimild: 

.

 Mynd – htveir.is 13.11.2022

.

April 2012

Íslendingar eru þjóð sem talin er vera upp til hópa frekar heilbrigð. Þetta er mat margra þeirra “heilsugúrúa” sem komið hafa til landsins og fallið fyrir landi og þjóð. Margir þeirra gætu hugsað sér að flytja hingað, vegna fjölda þátta sem þeir telja vera einstaka á Ísland

Þeir nefna náttúru landsins, sem er svo sannarlega mikilfengleg og oft ögrandi. Loftið, sem oftast er ekki eins mettað og á mörgum öðrum stöðum í heiminum. Heitu hverina, heita vatnið og sundlaugarnar, sem eru á margan hátt fyrirtaks lækningaraðstaða.

Ein gömul lækningaraðferð er til dæmis að hita og kæla líkamann til skiptis. Svipað og finnar og rússar nota heita saunu og snjóinn, þá getum við setið í heitu pottunum í laugunum í hörkufrosti og svo vaðið snjóinn á sundlaugarbakkanum og stungið okkur í heita og notalega sundlaugina.

En það sem að þeir telja vera aðalauðlind landsins er vatnið. Hreint, tært, bragðgott og beint úr krananum. Því miður kunnum við mörg hver ekki að meta þennan unaðsdrykk, fyrr en þá kannski ef við flytjum erlendis. Ég held ég geti fullyrt að allir þeir sem flytja erlendis í einhvern tíma, hugsi oft um íslenska vatnið með söknuði.

Margir halda að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af ofþornun hér á Íslandi, í þeirra huga er ofþornun líkamans eitthvað sem eingöngu gæti gerst þegar ferðast er um heiminn á suðlægum, heitum slóðum og við langhlaup. En sú er ekki raunin, því vessaþurrð er algeng og getur haft gífurleg áhrif á þá sem ekki drekka nægan vökva.

Hér eru nefnd 13 einkenni sem líkaminn getur sýnt þegar um langvarandi vatnsskort er að ræða:

Þreyta og almennt orkuleysi: Ofþornun verður í vefjum líkamans, oft kallað vessaþurrð, það veldur því að á virkni ensíma og niðurbroti hægist og líkaminn missir orku.
Hægðatregða: Þegar vel tuggður matur fer niður í ristilinn, þá inniheldur hann of mikinn vökva til að formaðar hægðir myndist. Þarmaveggurinn dregur síðan til sín umframvökva úr fæðunni þegar hún ferðast neðar í ristilinn. Ef langvarandi þurrkur er til staðar í ristlinum, sýgur þarmaveggurinn of mikið vatn til sín, til að veita til annarra hluta líkamans og hægðir safnast upp vegna þurrks.
Meltingartruflanir: Ef líkaminn verður fyrir langvarandi þurrki, minnkar seyting meltingarsafa, sem getur leitt til meltingartruflana.
Blóðþrýstingur: Blóðmagn líkamans verður ekki nægjanlegt til að fylla allar slagæðar, bláæðar, ásamt háræðum.
Magabólgur, magasár: Maginn framleiðir slímlag til að vernda slímhúðina í meltingarveginum fyrir súrum meltingarvökvanum. Slímlagsframleiðsla minnkar við mikinn þurrk og súr meltingarvökvinn gerir usla í maganum.
Öndunarfæravandamál: Slímhúðin í öndunarveginum er rök, það verndar öndunarfærin frá óæskilegum efnaeindum sem gætu verið til staðar í loftinu. Ef þurrkur verður í slímhúðinni tapast sú verndun.
Ójafnvægi á sýrustigi líkamans: Vessaþurrð hægir á framleiðslu ensíma og sýrustig hækkar í líkamanum.
Þyngdaraukning og offita: Þorsta er oft ruglað við svengd og er algengt að þá sé meira borðað en líkaminn brennir og því hlaðast aukakílóin á líkamann.
Exem: Líkaminn þarfnast raka til að geta svitnað. Svitinn er nauðsynlegur og losar líkamann við óæskileg eiturefni úr húðinni, sem annars gætu valdið húðvandamálum.
Kólesteról: Vessaþurrð veldur því að vökvi tapast úr frumunum, líkaminn reynir að halda í frumuvökvann með því að framleiða meira kólesteról.
Blöðrubólga, þvagfærasýkingar: Vessaþurrð veldur því að eiturefni safnast í þvagblöðru, þar sem hún tæmir sig sjaldnar. Það getur valdið ertingu og sýkingum í slímhúð þvagfæranna.
Gigt: Vessaþurrð eykur magn og styrk eiturefna í blóði og frumuvökva, sem getur safnast saman og valdið auknum verkjum í liðum líkamans.
Ótímabær öldrun: Vökvamagn í líkama nýfædds barns er um 80%, með aldrinum lækkar þessi prósenta mikið og því er svo mikilvægt að drekka meira vatn eftir því sem við eldumst meira.

Vatnsdrykkja hefur sem betur fer stórlega aukist. Það að drekka vatn er algjörlega nauðsynlegt fyrir líkamann til að hann geti starfað eðlilega og án kvilla. Þó er það enn svo því miður, að alltof margir drekka of lítið vatn.

Margt er í boði og oft er það svo að það sem fæst í hillum eða kælum verslananna er meira spennandi en það sem er alltaf aðgengilegt og kemur bara úr eldhúskrananum. Allir safarnir sem til eru í fallegu umbúðunum, orkudrykkirnir í öllum regnbogans litum og svo allar tegundirnar af gosi sem svo alltof margir drekka of mikið af.

Skoðum nokkrar staðreyndir um vatn:

  • 75% bandaríkjamanna eru með krónískan ofþurrk, það sama á sennilega við um helming allra jarðarbúa.
  • Hjá 37% bandaríkjamanna er þorstaskynjun svo slök, að hún er túlkuð sem svengd.
  • Ofþurrkur, jafnvel þó að hann sé vægur, hægir á brennslukerfi líkamans um 3%.
  • Ónóg vatnsdrykkja er aðalorsök þess sem veldur þreytu yfir daginn.
  • Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að drekki fólk 6-10 glös af vatni yfir daginn, gæti það létt á bakverkjum og liðverkjum í allt að 80% þessara tilfella.
  • Ef vatnið í líkamanum minnkar um aðeins 2%, getur það valdið lélegu skammtímaminni, erfiðleikum með einfalda stærðfræði og skorti á einbeitingu.
  • Að drekka 5 glös af vatni á dag dregur úr u.þ.b. 45% áhættu á ristilkrabbameini, allt að 79% áhættu á brjóstakrabbameini og 50% áhættu karlmanna á blöðruhálskrabbameini.
  • Eitt glas af vatni nægði til að slá alveg á hungurverki sem komu seint að kvöldi, hjá næstum 100% þátttakenda í könnun í háskóla í Washington.

Þrátt fyrir að við vitum öll hve hollt og nauðsynlegt er fyrir okkur að drekka að minnsta kosti 8 glös af vatni á dag, er það nú stundum svo að okkur langar ekki endilega í allt þetta vatn og þörfnumst því smá fjölbreytni.

Bragðbætt vatn gæti verið kærkomin tilbreyting og hér eru nokkrar tillögur sem sniðugt væri að prófa:

Engifer og myntuvatn
5 cm bútur af engiferrót, þvegin og skorin í bita
3 greinar af ferskri myntu
2 l vatn
Kremjið varlega engiferrótina og myntuna í morteli. Blandið saman við vatnið og látið standa í ísskáp í klukkutíma.

Agúrkuvatn
½ meðalstór agúrka
1 sítróna, þvegin og skorin í báta
2 l vatn
Flysjið agúrkuna, skerið hana eftir endilöngu og í sneiðar. Setjið út í vatnið með sítrónunum og látið standa í ísskáp klukkutíma.

Lime og rósmarínvatn
1 lime, þvegið og skorið í báta
1 grein af fersku rósmarín
Safi úr einni appelsínu og börkur af ½ appelsínu
2 l vatn
Setjið limebátana og rósmarín í vatnið. Skerið ysta lagið af berki hálfrar appelsínu, best er að nota flysjárn Setjið út í vatnið, ásamt appelsínusafanum. Látið standa í ísskáp í klukkutíma.

Svo er um að gera að nota hugmyndaflugið og prófa sig áfram með fleiri bragðgóða drykki þar sem vatn er undirstaðan.

Fleira áhugavert: