Varmadælur – Að góðum notum hér á landi

Grein/Linkur:  Eiga varmadælur erindi til Íslands

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: LAFI1

.

varmasdaelur

.

Ágúst 2011

Eiga varmadælur erindi til Íslands

Sigurður Grétar

Sigurður Grétar Guðmundsson

Fyrir rúmri hálfri öld sá ég furðulega grein í Vísi, sem þá var síð- degisblað í Reykjavík. Þar var sagt frá göldrum að mér fannst. Til væri tæki sem gæti unnið hita úr vatni, jörðu eða lofti þó hitastig varmagjafans væri örfáar gráður og þessi galdramaskína var kölluð varmadæla. Satt best að segja fannst mér þessi frétt vera frekar misheppnað gabb en forvitnin var þó vakin. Í næsta húsi við mig þar sem ég var við mína iðn, pípulagnir, var merkur öldungur að vinna við sömu iðn, Þorbjörn Bjarnason pípulagningameistari. Við höfðum aðeins litið til hvors annars og mér þótti þessi stéttarbróðir minn margfróður. Ég gekk því yfir til Þorbjörns og sýndi honum furðufréttina í Vísi, þá að varma væri hægt að vinna úr nánast hverju sem væri þó það væri niður við frostgráðu og jafnvel neðar. Þorbjörn sagðist ekki hafa heyrt af þessari tækni en áhugaverð væri hún.

Daginn eftir kom Þorbjörn yfir til mín og hafði ekki setið auðum höndum. Hann hafði krufið málið til mergjar og aflað sé fróðleiks, sagði þarna ekki um furðufrétt að ræða heldur væri þetta tækni sem kalla mætti öfugan kæliskáp og líklegt að þessi tækni ætti framtíð fyrir sér. Þessi gamla minning rifjaðist upp þegar ég gekk inn í Verklagnir við Smiðjuveg 70 í Kópavogi en vissulega hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því Þorbjörn Bjarnason fræddi mig fyrstur manna um varmadælu endur fyrir löngu. Önnur minning skaut upp kollinum. Gamall kunningi úr Kópavogi reisti sér bjálkahús austur á landi fyrir svo sem einum og hálfum áratug. Ég dróst nokkuð inn í hans mál sem ráðgjafi um gólfhita í bjálkahúsið. Byggjandinn vildi fá varmadælu til að vinna varma í húsið en ég ráðlagði honum eindregið frá því.

Hvers vegna?

Hérlendis var enginn þjónustuaðili fyrir varma-dælur. Ef einhver smá bilun yrði um kalda vetrardaga hvað þá? Hvert þyrfti að sækja aðstoð? Yfir hafið til Skandinavíu? Á þetta féllst byggjandinn og sett var upp rafdrifin varmatúba. En síðan þetta gerðist allt saman hefur verið unnin mikil þróunarvinna með varmadælur í Skandinavíu og Þýskalandi sérstaklega og í fleiri iðnþróuðum ríkjum. Það má því segja að Gunnlaugur Jóhannesson pípulagningameistari og framkvæmdastjór Verklagna komi inn á íslenskan markað með varmadælur á hárréttum tíma. Gunnlaugur flytur inn Thermia varmadælur frá Svíþjóð en ég hef fylgst með þróun þeirra undanfarin ár. Ekki er verra að Thermia er komin í eigu þess þekkta fyrirtækis Danfoss sem allir lagnamenn þekkja fyrir vandaðar vörur.

En hverjir hafa þörf fyrir varmadælur á Íslandi, er ekki að finnast jarðhiti hvarvetna? Nei, ekki er nú svo vel, til eru svokölluð köld svæði þar sem ekki er líklegt að jarðhiti finnist að nokkru marki, annaðhvort er vatnsmagnið of lítið eða þá varmi þess ekki nægilegur. En þarf varmadælan ekki orku til að vinna, gengur hún ekki fyrir rafmagni? Er þá ekki eins gott að nota rafmagnið beint til að hita upp vatn fyrir hitakerfi? Þarna kemur galdur varmadælunnar. Fyrir hvert kílówatt sem hún eyðir í sjálfa sig skilar hún 4 kílówöttum til baka, þetta er sú gamla þumalputtaregla sem löngum hefur verið notuð um varmadælur.

En hvert sækir þá varmadælan varmann sem hún aflar? Algengt er að leggja plastslöngur í jörðu á frostfríu dýpi og dæla um það kerfi vatni sem varmadælan vinnur úr. Það er einnig hægt að leggja plaströr í vötn sem ekki botnfrjósa og sækja þangað varma. Ekki er ólíklegt að hérlendis sem erlendis verði það útiloftið sem tekið er inn í varmadælu og síðan skilað til baka nokkrum gráðum kaldara en þegar það kom inn. Þar sem búið er að stofna fyrirtæki sem flytur inn og þjónustar varmadælur hérlendis mundi ég ekki hika við að ráðleggja þeim sem hafa hug á þessari tækni til að afla varma í sitt hús á köldu svæði að gera slíkt.

Ég skrifaði nokkrar „Lagnafréttir“ fyrr á árum um varmadælur og benti á nokkra staði hérlendis sem ekki væri útlit fyrir að ættu völ á heitu vatni í framtíðinni. Þar á meðal nefndi ég tvær eyjar sem ættu að kanna rækilega hvort þær ættu ekki að nýta sér kosti varmadælunnar. Þessar eyjar eru Grímsey og Vestmannaeyjar og mín ráðlegging er enn í fullu gildi. Aðeins eitt að lokum. Fyrr var nefnt að sums staðar væri þó nokkuð heitt vatn finnanlegt en því miður með allt of lágt hitastig. Þarna getur varmadælan komið að góðum notum við að nýta þennan varma og hækka hann. Möguleikar varmadælunnar eru slíkir að víða munu þær koma að góðum notum hér á landi.

Fleira áhugavert: