Þýskaland, sagan – Kjarnorka út og kolin inn
Grein/Linkur: Þýskaland: Kjarnorka út og kolin inn
Höfundur: Sigurður Már Jónsson
.
.
September 2021
Þýskaland: Kjarnorka út og kolin inn
Eftir að kjarnorkuslysið varð í Fukushima kjarnorkuverinu í Japan árið 2011 urðu mótmæli gegn kjarnorkuverum áberandi. Margar þjóðir ákváðu að draga úr notkun kjarnorku og loka jafnvel verum sínum. Á því má hafa skilning enda mörgum brugðið yfir alvarleika slyssins. Það var hins vegar einhver versta ákvörðun sem hefur verið tekin þegar horft er til loftslagsmála og ljóst að það mun hafa verulegar og kostnaðarsamar aukaverkanir. Atburðarásin sýnir líka glögglega að ekki er allt sem sýnist í þeim vísindum sem fást við loftslagsvandann.
Eins og áður sagði má hafa skilning á áhyggjum fólks og víða eru kjarnorkuver ekki langt frá þéttbýlum svæðum. Fukushima kjarnorkuverið var hins vegar af gamalli tegund og varð fyrir einstæðri áraun vegna náttúruhamfara. Flest nýbyggð kjarnorkuver teljast gríðarlega traust, að því marki að öll mannanna verk geta brugðist.
Bylgja mótmæla eftir Fukushima-slysið
Í Þýskalandi reis hávær bylgja mótmæla eftir Fukushima-slysið og Angela Merkel Þýskalandskanslari tilkynnti að öll kjarnorkuver yrðu aflögð fyrir árið 2022. Það var í hennar stíl, hún reyndi alltaf að þjóna almenningsálitinu fremur en að hún fylgdi ákveðinni stefnu. Það þarf ekki að taka fram að kolaorkuver Þjóðverja munu standa mun lengur en ýmsar hliðar þessarar ákvörðunar voru raktar í pistli hér fyrir nokkru síðan.
Ekki er langt síðan kom út skýrsla fjölmargra háskóla þar sem reynt er að meta afleiðingar af ákvörðun Þjóðverja, bæði þjóðhagslega og ekki síður umhverfisáhrif. Skemmst er frá því að segja að sú ákvörðun að loka strax 10 af 17 kjarnorkuverum Þjóðverja á árunum 2011 til 2017 hefur þýtt það að orkuframleiðsla hefur færst til annarra orkugjafa, að stórum hluta til kolaorkugjafa. Um leið hafa Þjóðverjar orðið að hætta sölu orku til annarra landa sem þýðir að kaupendur hafa orðið að uppfylla orkuþörf sína með öðrum orkugjöfum. Allt ber þetta að sama brunni, lokun kjarnorkuvera þýðir meiri notkun kola og þar af leiðandi fer mera koldíoxíð út í andrúmsloftið.
Rannsóknin var gerð af vísindamönnum við Carnegie Mellon háskólann; háskólinn í Kaliforníu, Berkeley; háskólinn í Kaliforníu, Santa Barbara, og National Bureau of Economic Research (NBER). Sameiginlega skiluðu þessir aðilar skýrslu sem útlistar meðal annars hvaða aðferðafræði var beitt en leitast var við að fá skilning á því hvaða efnahagslegu og umhverfislegu áhrif ákvörðunin hafði.
12 milljarða dala kostnaður
En hugsanlega vekur mesta athygli að vísindamennirnir áætluðu samfélagslegan kostnað við að hætta með kjarnorku um það bil 12 milljarða dala á ári fyrstu árin, eða 1.213 milljarða íslenskra króna. Meira en 70 prósent kostnaðarins stafar af aukinni hættu á dauða (áætlað 1.100 umfram dauðsföll árlega) sem stafar af því að fólk er útsettara fyrir loftmengun sem losað við brennslu jarðefnaeldsneytis.
Rannsóknin leiddi í ljós að orkuþörf í Þýskalandi vegna niðurlagningar kjarnorkuveranna var fyrst og fremst sinnt með notkun jarðefnaeldsneytis og innflutningi á raforku frá nærliggjandi löndum. Flutningurinn frá kjarnorku til jarðefnaeldsneytisorku leiddi til verulegrar aukningar á losun alþjóðlegrar og staðbundinnar loftmengunar. Að auki hækkaði raforkuverð vegna niðurlagningar kjarnorkuvera, þannig að raforkuframleiðendur nutu góðs af en þýskir neytendur þurftu að borga meira fyrir orkuna.
Lokun kjarnorkuvera hafði vissulega líka ávinning. Hann helstan að draga úr hættu á kjarnorkuslysum og lækka kostnað við geymslu kjarnorkuúrgangs. En jafnvel hæstu áætlanir um ávinning af því að hætta notkun kjarnorku voru líklega mun minni en 12 milljarðar dollara á ári. Það er sú tala sem Þjóðverjar verða horfast í augu við vegna þessarar ákvörðunar sinnar.