Fólk sem hatar rafmagn

Heimild:  

.

Desember 2018

Jólaerindi orkumálastjóra 2018

Þróunin í loftslagsmálunum

Á COP 21 í París komu þjóðir heimsins sér saman um markmið í loftslagsmálum án þess þó að því fylgdi verkáætlun. Það var ákaflega vel til fundið að halda loftslagsráðstefnuna COP 24 í reyknum frá kolaorkuverunum í Katowice í Póllandi. Síðustu upplýsingar frá vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna gáfu engin tilefni til þess að menn gætu farið heim af þeim fundi án þess að marka skýra stefnu um framhaldið. Þrátt fyrir erfið skoðanaskipti og margar blikur á lofti tókst að ljúka við 150 síðna plagg sem inniheldur verkáætlun fyrir orkuskipti og minnkun losunar og vísi að heilstæðu markaðskerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir þótt þar séu vissulega enn margir lausir endar.

Tækniþróun síðustu ára eykur okkur bjartsýni. Kostnaður við vindorku og sólarorku til rafmagnsframleiðslu hefur farið lækkandi. Rafhlöður hafa fengið aukinn orkuþéttleika og verð á hverja geymda kílówattstund fer ört lækkandi. Framleiðsla og sala á rafbílum fer hraðvaxandi og nú virðist sem komnar séu fram raunhæfar lausnir fyrir vetnisbíla. Stærsta hindrunin hingað til hefur verið hár kostnaður við efnarafala en nú tilkynnir t.d. einn  framleiðandi að hann sé tilbúinn með 120 kW efnarafal til þess að nota í venjulegan fólksbíl. Árangur þeirra vísindamanna sem í samstarfi við Orku náttúrunnar hafa sýnt fram á leiðir til þess að binda koltvísýring í basalti með hagkvæmum hætti hefur vakið heimsathygli.

Þau iðnríki sem þróa og innleiða nýja tækni í orkumálum hafa lagt sig fram um að fá fram lausnir og byggja upp iðnað fyrir búnað til raforkuframleiðslu. Markmiðið hefur verið að samhliða tækniþróun efla nýjar atvinnugreinar og auka samkeppnishæfni iðnaðar í löndunum. Mönnum hefur hins vegar oftlega sést yfir að 40 % af allri frumorkunotkun heimsins nýtist til þess að framleiða lággilda varmaorku. Nú opnast augu manna fyrir því að það er mun hagkvæmara að vinna lággilda varmaorku beint í stað þess að framleiða rafmagn og umbreyta því  yfir í lággilda varmaorku. Fyrsti kosturinn er ávallt að skoða hvaða varmalindir eru í okkar næsta umhverfi og nýta þær beint eða með hjálp varmadælna til þess að sinna hitaþörfinni. Þar sem jarðhiti er til staðar liggur beint við að nýta hann en þetta getur líka verið t.d. afgangsvarmi frá iðnaðarframleiðslu, varmaorka frá sólinni eða ársmeðalhiti í jörð.

Nýtingu jarðhita hefur miðað hægt á heimsvísu til þessa en nú hafa kínversk yfirvöld lagt fram áætlanir um jarðhitanýtingu til húshitunar í 26 borgum. Sérstakt flaggskip jarðhitanýtingar er Xiongan, sem er ný borg sem á að byggja upp í útjaðri Beijing og á að vera með lágmarks mengun og losun. Borgin mun standa á þekktu, gjöfulu jarðhitasvæði og getur orðið sýnidæmi um nýtingu jarðhita í borgarskipulagi. Þá er ekki einungis horft til húshitunar heldur líka möguleika til þess að bæta lífsgæðin í borginni með sundstöðum, upphituðum íþróttahúsum og gróðurhúsum. Kínverjar líta mjög til samstarfs við íslenska sérfræðinga og íslensk fyrirtæki um þessa uppbyggingu.

Samstarf Evrópuríkja um þróun og innleiðingu nýrrar orkutækni, SETPLAN, hefur sett fram nýja metnaðarfulla áætlun til þess að auka jarðhitanýtingu hjá Evrópulöndum. Talið er að jarðhiti geti annað um 20 % hitunarþarfar Evrópulandanna. Sérstök áhersla er lögð á að minnka kostnað og áhættu við jarðhitanýtingu með þróun nýrrar tækni. Orkustofnun og samstarfsaðilar á Íslandi, Georg og Rannís, hafa verið leiðandi í þessari áætlanagerð og tekið að sér að stjórna mikilvægum þáttum hennar.

Þriðji orkupakkinn

Umræður um þriðja orkupakkann hafa verið fyrirferðamiklar á haustmisserinu. Það hefur verið áhugavert að kynnast því hvernig hægt er að ræða mál í þaula að því er virðist án þess að komast nær kjarna málsins.

Við Íslendingar höfum valið að taka þátt í EES samstarfinu. Það gefur okkur aðgang að mörkuðum Evrópu fyrir afurðir okkar og hverskyns samstarfi, t.d. á sviði rannsókna og stjórnsýslu, sem við teljum afar gagnlegt fyrir okkur. Regluverk og stjórnsýsla innan sambandsins er hins vegar í stöðugri þróun. Þar sem við höfum ekki fulla aðild að því starfi, en kannski fyrst og fremst vegna þess að smæð okkar gerir okkur illa kleift að taka fullan þátt í undirbúningi og aðdraganda nýrra tilskipana, geta þar komið fram hlutir sem koma okkur illa og valda fyrirhöfn og kostnaði án þess að markmiðum viðkomandi tilskipunar sé náð. Þarna erum við reyndar á sama báti og minni aðildarþjóðir Evrópusambandsins.

Það er rangt, sem haldið hefur verið fram, að rafmagnsframleiðsla okkar sé ótengd Evrópu. Við erum í samkeppni við önnur Evrópulönd um fjárfestingar í nýjum orkukrefjandi iðnaði og vörur sem eru framleiddar með íslenskri raforku fara inn á Evrópumarkaðinn í skjóli þeirra tollafríðinda sem við njótum innan EES. Þess vegna fylgist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, grannt með fjárfestingum í virkjunum og flutningsvirkjum til þess að tryggja að einstök fyrirtæki séu ekki að fá óeðlilegar ívilnanir og fyrirgreiðslu sem líta má á sem ríkisstyrk. Meðan við viljum eiga þennan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins verður viðskiptalegt umhverfi á Íslandi að vera sambærilegt við það sem gildir í aðildarlöndunum. Það gildir líka um framleiðslu, sölu, flutning og dreifingu á raforku.

Fólk sem hatar rafmagn

Image result for I hateNýjasta kvikmynd Benedikts Erlingssonar fer nú sigurför um heiminn og vinnur til verðlauna víðast hvar þar sem hún er sýnd á kvikmyndahátíðum. Söguþráðurinn er einfaldur, kona á besta aldri er búin að fá nóg af nýjum virkjunum, rafmagnslínum og iðjuverum sem breyta ásýnd landsins og og leggur til atlögu við ófreskjuna. Hún laumast um heiðar landsins með boga í hönd og örvamæli á bakinu og skýtur málmþræði yfir háspennulínur sem mynda skammhlaup og slá út raforkukerfinu. Rafmagn fer af stóriðjuveri en einnig hjá stórum hluta landsmanna. Við sem höfum á unga aldri drukkið í okkur frásagnir af Hróa Hetti og köppum hans förum létt með að trúa því að bogi og örvar séu öflugt vopn í baráttu gegn vondum öflum og til þess að bjarga fögrum konum úr klóm misyndismanna.

Það er auðvelt að hrífast með af  stigmagnandi söguþræði og einstæðri persónusköpun Benedikts og Halldóru Geirharðsdóttur og eins og í öllum góðum ævintýrum láta söguna fanga sig og lyfta sér upp úr raunheimum um stund. Í fyrstu umfjöllun um myndina var henni lýst sem mikilvægu innleggi í  umræðuna um nýjar virkjanir og nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Ævintýrið með sínum sumpart einfaldaða og sumpart tilbúna veruleika er skyndilega orðið að leiðarljósi fyrir landsmenn um mikilvægar ákvarðanir til framtíðar. Í seinni hluta myndarinnar glyttir reyndar einnig í tengingu við loftslagsmálin og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar eins og flóð og náttúruhamfarir.

Það er áleitin spurning hversu mikið vit er í því að leggja vinnu í vandaða umfjöllun og lýðræðislega afgreiðslu mikilvægra og erfiðra mála ef framhaldið er síðan á valdi einstaklinga sem telja sig hafa svo góðan málstað að verja að þeir geti tekið sér vald til þess að ráðast með ofbeldi gegn uppbyggingu mannvirkja og atvinnustarfsemi sem byggir á  lýðræðislegri og málefnalegri niðurstöðu bærra stofnana og yfirvalda og er til komin í samræmi við gildandi lög í landinu. Reyndar er það þannig að ofbeldið í þessari mynd er jafn úrelt og bogi og örvar sem stríðstól.

Það efnahagslega tjón fyrir framkvæmdaaðilann sem hægt er að valda með skemmdarverkum á mannvirkjum og búnaði eru hreinir smámunir miðað við það fjárhagslega tjón sem hægt er að valda með því að leggja fram tilefnislausar kærur vegna verkefna sem eru að nálgast framkvæmdastigið og skapa þannig tafir og óvissu um áframhaldið, sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar t.d. fyrir fjármögnun verkefnisins. Þær réttarbætur sem voru innleiddar til þess að veita almenningi aðkomu að ákvörðunum um framkvæmdir voru einfaldlega vanhugsaðar þannig að kæruheimildir liggja alltof aftarlega í ferlinu. Það þýðir annars vegar að samfélagslegur kostnaður vegna þeirra tafa og breytinga sem kærur geta leitt til verður mjög hár, eins og nýlegt dæmi vegna laxeldis á Vestfjörðum sýnir okkur, og hins vegar að góðar ábendingar koma í alltof mörgum tilfellum of seint fram til þess að geta haft áhrif á verkið nema til þess að tefja framkvæmd þess.

Í framhaldinu hefur síðan höfundur myndarinnar lagt ofuráherslu á að halda myndinni fram sem innleggi í umræðuna um loftslagsmálin. Þar er hann, eins og ungt ljóðskáld benti á í viðtalsþætti í ríkisútvarpinu, kominn í augljósa mótsögn við meginstef myndarinnar sem er að berjast gegn framleiðslu vistvænnar orku og nýtingu hennar fyrir þau framleiðsluferli sem mannkynið telur sér nauðsynleg og fá nú orkuna frá brennslu kola og annars jarðefnaeldsneytis.

Þeim sjónarmiðum hefur mjög verið haldið á lofti að við ættum einungis að lokka til okkar iðnfyrirtæki sem hafa sem minnsta kolefnislosun í framleiðsluferlinu sjálfu. Hugsunin virðist vera sú að með því minnkum við heildarlosun frá Íslandi og komum betur út í alþjóðlegum samanburði. Á heimsvísu gerir þetta ekkert gagn ef framleiðsluferlin eru sett upp annars staðar, þar sem raforka er framleidd t.d. með kolum. Hins vegar eigum við að sjálfsögðu að stefna að því að öll stóriðja  á Íslandi sé með bestu fáanlegri tækni þannig að kolefnislosun frá framleiðsluferlinu sé í lágmarki á heimsvísu.

Friður á jörð

Nú standa fyrir dyrum friðlýsingar í framhaldi af flokkun virkjanakosta í öðrum áfanga rammaáætlunar. Orkustofnun hefur gert sínar athugasemdir þar sem lögð er áhersla á að það þurfi að vera samhengi milli þeirrar skilgreiningar á virkjanakostum sem lþingi afgreiddi og þeirrar friðlýsingar sem lögð er til. Tillögur um friðlýsingar heilla vatnasviða í framhaldi af umfjöllun og ákvörðun um einstaka afmarkaða virkjanakosti eru dæmi um slíkt. Einstakir virkjanakostir sem eru í nýtingarflokki þurfa að undirgangast nákvæmara mat á umhverfisáhrifum áður en til virkjana kemur og sama ætti auðvitað að gilda um þá virkjanakosti sem á að friðlýsa.

Tökum dæmi um 150 MW vatnsaflsvirkjun sem framleiðir 1 Terawattstund eða einn milljarð kílówattstunda á ári. Söguleg gögn segja okkur að raforkuframleiðsla til stórnotenda skapi útflutningsverðmæti upp á 25 milljarða króna á ári. Til samanburðar þá var útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2017 um 197 milljarðar króna. Það er því frekar auðvelt að greina hvaða hagvaxtarmöguleika við erum að útiloka með friðun einstakra virkjunarkosta.

Ef iðjuver er rekið með orku frá þessu vatnsorkuveri sparast losun koltvísýrings sem samsvarar 0.86 kg á hverja kWst miðað við að iðjuverið væri að öðrum kosti rekið með rafmagni framleiddu með olíu. Við erum því að tala um 860 000 tonn á ári. Ef líftími orkuversins er 60 ár þá gerir þetta að rúmlega 50 milljónir tonna af losun koltvísýrings sparast. Til samanburðar þá er koltvísýringslosun allra bifreiða á Íslandi undir einni milljón tonna ári.

„Í Brundtland-skýrslunni, sem kom út 1987, er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Áherslan er á að sjónarmið samfélags og náttúru standi jafnfætis þeim efnahagslegu““ ( hi.is/haskolinn/hvad_er_sjalfbaerni ). Það er svolítið merkilegt að þrátt fyrir þá miklu ógn som steðjar að heimsbyggðinni er eins og loftslagsmálunum sé algjörlega vikið til hliðar þegar rætt er um hverju sé til fórnað og hvað ávinnist með nýjum virkjanahugmyndum. Þetta er ekki eingöngu íslenskt fyrirbrigði. Efnaðir og samfélagslega meðvitaðir Bandaríkjamenn, sem eiga sér frístundahús í Martha´s Vineyard styðja öll góð áform í loftslagsmálum svo lengi sem þau hafa ekki í för með sér að þeir þurfi að sjá vindmyllur við sjóndeildarhringinn.

Ef við erum sammála um að vinna að þessum markmiðum um sjálfbærni þýðir það að við göngumst undir að efnahagur, samfélag og náttúruvernd eigi að vegast á þegar ákvörðun er tekin. Fyrsta skilyrðið er þá að þessir meginþættir séu vel upplýstir þegar ákvörðun er tekin. Svo er greinilega ekki í þeim tillögum að friðlýsingu sem nú hafa verið settar fram. Í raun eru þær mestmegnis byggðar á sjónarmiðum náttúruverndar varðandi einstaka virkjanahugmyndir og þær röksemdir sem þar gilda síðan nýttar til þess að leggja fram tillögur um friðun heilla vatnasvæða án þess að samhengið sé nægilega vel skýrt. Þarfir stækkandi þjóðar fyrir ný atvinnutækifæri og vandamál allra jarðarbúa vegna gróðurhúsaáhrifa, loftslagsbreytinga, hækkandi sjávarstöðu og súrnun sjávar eru að engu höfð. Einnig getur fortakslaust bann við orkuvinnslu, jafnvel í smáum skala, komið í veg fyrir að hægt sé að byggja upp vistvæna ferðaþjónustu á þessum svæðum.

Hverju erum við tilbúin að fórna?

Ég á persónulega svolítið erfitt með að hlusta á forsvarsmenn samtaka sem kenna sig við náttúruvernd og sjálfbæra þróun lýsa vanþóknun sinni á framtaksleysi ráðamanna til þess að sporna við hnattrænni hlýnun og skemmta sér þess á milli undantekningalítið við að skjóta á allt sem hreyfist í átt að aukinni nýtingu vistvænna orkulinda á Íslandi. Gagnrýni á þetta háttalag er oft svarað með að við getum dregið úr frumframleiðslu með því að breyta lífsstíl okkar og minnka alls konar neyslu og þannig minnka orkuþörf á heimsvísu og þörfina fyrir að auka útflutningstekjur okkar til framtíðar.

Stór hluti jarðarbúa telur sig með réttu ekki búa við þau efnislegu gæði og þá samfélagslegu innviði sem þarf till þess að tryggja heilsu og velferð þeirra. Nú í aðdraganda nýrra kjarasamninga fullyrða verkalýðsfélögin að lægstu taxtar á vinnumarkaði hér á Íslandi dugi ekki fyrir lágmarks framfærslu. Skattgreiðslur okkar fara að mestu leyti til heilbrigðiskerfisins, til menntakerfisins og annarra samfélagslegra innviða sem allir einkennast af vaxandi kröfum og þörf fyrir meira fjármagn. Í flestum fjölskyldum er það líka þannig að útborguð laun duga rétt mátulega til þess að standa straum af húsnæðiskostnaði, fæða og klæða fjölskylduna og reka heimilisbílinn. Ef við ætlum að snúa þessari skútu við þá þurfum við að skilgreina þarfir okkar og velferð frá grunni. Ég hef ekki séð neinar raunhæfar hugmyndir verða til sem geta leitt til grundvallarbreytinga í neyslumynstri okkar sem þjóðar eða einstaklinga. Það breytir hins vegar ekki því að við verðum að leita allra raunhæfra leiða í daglegu lífi okkar til þess að minnka kolefnisspor okkar og önnur neikvæð áhrif á náttúru og umhverfi.

Vér neytendur

Hvernig getum við sem einstaklingar spornað gegn loftslagsbreytingum. Það hefur margt skynsamlegt komið fram í þeim efnum. Rafvæðing bílaflotans er mikilvægt skref. Bent hefur verið á að það háa neyslustig sem við mörg okkar búum við í dag færir okkur ekki endilega meiri lífshamingju. Sérstaklega þegar við fylgjum ekki okkar eigin þörfum og löngunum heldur sogumst með í stríðum flaumi auglýsingamennsku og samfélagsmiðla og sitjum svo uppi með heilsuspillandi fæðu, metnaðarlausa menningarneyslu og allskonar óþarft drasl sem á endanum byggir okkur út.

Við getum líka sem neytendur gert kröfur til þeirra sem selja okkur vörur og þjónustu. Farið alltaf fram á að fá sendan rafbíl þegar þið pantið leigubíl eða bílaleigubíl, nema ef túrinn endar á Egilsstöðum.

Við þurfum að skipuleggja okkur og hugsa í lausnum ef við viljum breyta þessu. Við hjónin höfum haldið jól með fólki okkur tengdu í Stokkhólmi. Stórar fjölskyldur þar sem margir koma saman og afar glatt er á hjalla. Í undirbúningi hátíðarinnar var einfaldlega dregið um hver gefur hverjum jólagjöf þannig að á aðfangadagskvöld fá allir einn pakka í stað þess að fjöldi pakka í hrúgunni verði veldisfall af fjölda gesta.

Ár sorgar og söknuðar

Ágætu starfsmenn Orkustofnunar. Árið 2018 sem senn er á enda hefur liðið eins og önnur ár þar sem við höfum sinnt okkar fjölbreyttu verkefnum af elju og trúmennsku. En það er óhætt að segja að dimmur skuggi hafi lagst yfir stofnunina við sviplegt fráfall starfsfélaga okkar Þórarins Sveins Arnarsonar þann 23. maí sl. Þórarinn var góður og traustur vinnufélagi. Hann var líka áhugasamur og virkur uppalandi og félagi sinna fjögurra ungu sona og lék með Lúðrasveit verkalýðsins. Söknuður okkar var og er enn sár og við minnumst hans með þakklæti og virðingu. Ekki síst er hugur okkar hjá Mörtu konu hans og sonunum. Blessuð sé minning hans.

En nú förum við og höldum upp á jól og áramót, hvert með sínum hætti. Þetta verða svona launþegajól með mörgum frídögum og fáum vinnudögum þannig að nú skapast tækifæri til þess að njóta hvíldar og friðar og hlaða okkar innri rafhlöður. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir samstarfið á árinu og hlakka til að hitta ykkur aftur á nýju ári til þess að takast á við gömul og ný verkefni sem bíða okkar.

Gleðileg jól

18.12.2018                                                                                                                                                                          Guðni A.  Jóhannesson                                                                                                                                            orkumálastjóri

Fleira áhugavert: