Virkjun á Folalda­hálsi – Ógn við landslagið

Grein/Linkur: Telja virkjun á Folalda­hálsi ógn við stór­brotið lands­lag

Höfundur: Garðar Örn Úlfarsson Fréttablaðinu

Heimild:

.

.

Nóvember 2021

Bæjarráð Hveragerðis óttast að ný virkjun á Folaldahálsi verði aðeins upphafsskref inn á verðmætt náttúrusvæði. Verkfræðistofan Efla segir svæðið við háspennulínur, sem séu mun meira afgerandi en virkjunin verði.

Eyþór H. Ólafsson

Við teljum okkur þurfa að standa í lappirnar gagnvart þessu,“ segir Eyþór H. Ólafsson, formaður bæjarráðs Hveragerðis, um eindregin mótmæli ráðsins vegna áforma um 3,9 megavatta gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi í landi jarðarinnar Króks.

„Bæjarráð harmar að ekkert tillit skuli hafa verið tekið til harðra mótmæla Hveragerðisbæjar við áform um virkjun á Folaldahálsi,“ segir í bókun ráðsins, sem kveður stórbrotið landslag og fjölbreytni í jarðfræðilegri gerð vera dýrmæta auðlind fyrir framtíðarkynslóðir.

„Almannahagsmunir hljóta að liggja miklu frekar í verndun svæðisins en röskun þess til minni háttar orkunýtingar,“ segir bæjarráðið.

„Þegar Bitruvirkjun var í umhverfismati, fyrir hana mátti ekki einu sinni hafa Hveragerði inni á kortinu, því það hefði komið svo illa út. Sem betur fer tókst okkur að stöðva hana,“ Eyþór H. Ólafsson, formaður bæjarráðs Hveragerðis“

Eyþór segir málið eiga sér forsögu. Hvergerðingar hafi barist gegn bæði skjálftum frá Hellisheiðarvirkjun og mengun frá gufuvinnslu á svæðinu. Þótt menn séu kannski komnir fyrir það, þá hræði sporin.

„Þegar Bitruvirkjun var í umhverfismati, fyrir hana mátti ekki einu sinni hafa Hveragerði inni á kortinu, því það hefði komið svo illa út. Sem betur fer tókst okkur að stöðva hana,“ segir Eyþór. „Og svo höfum við orðið vör við að það hefur dregið niður í orkunni í Hveragerði en það vill enginn viðurkenna það.“

Núverandi mannvirki á fyrirhuguðu borunarsvæði á Folaldahálsi. mynd/Efla

Folaldaháls er norður af Hveragerði í átt að Þingvallavatni, upp af hæðunum ofan við Reykjadal. Eyþór segir að þótt virkjunin fyrirhugaða á Foldaldahálsi eigi að vera frekar lítil séu Hvergerðingar á varðbergi.

„Það er gríðarlega falleg náttúra á þessu svæði og um leið og það er hleypt inn á það – þótt ekki sé nema pínulítilli virkjun sem hefði sem slík kannski lítil áhrif – þá eru menn komnir með annan fótinn inn á svæðið með framkvæmdir, borpalla og vegi og vilja kannski halda áfram,“ útskýrir Eyþór.

Nú liggur fyrir tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem felur í sér skilgreiningu iðnaðarsvæðis á Folaldahálsi fyrir gufuaflsvirkjun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 17. desember og vísaði bæjarráð Hveragerðis málinu til frekari umsagnar hjá skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins.

Að því er fram kemur í greinargerð Eflu um virkjunaráformin er gert ráð fyrir þremur borholum ásamt gufuskilju, gufuháfi, ásamt gufulögnum og öðrum búnaði gufuaflsvirkjunar, auk stöðvarhúss og kæliturna.

Aðkoma að virkjunarsvæðinu er sögð verða eftir línuvegi Búrfellslínu 3 frá Hellisheiði. Jarðstrengur verði lagður um 7 kílómetra að bænum Króki í Grafningi. Raforkuna megi nýta fyrir sumarhúsabyggð og mögulega aðra starfsemi í landi Króks.

„Svæðið sem verður fyrir raski er fast við háspennulínu og eru möstur þess mun meira afgerandi í umhverfinu en mannvirki gufuaflsvirkjunarinnar,“ segir í skýrslu Eflu.

Fleira áhugavert: