Hoffell, sagan – 50 l/s 80°C, 1.750m hola
Grein/Linkur: Góður árangur af borunum við Hoffell
Höfundur: Rarik
.
.
Júlí 2017
Góður árangur af borunum við Hoffell
Góður árangur var af borun holu HF-4 við Hoffell og virðast nú allar forsendur vera fyrir hendi til að hitaveita á Höfn í Hornafirði geti orðið að veruleika.
Borun á holu HF-4 lauk þann 14. júlí sl. og virðist holan skv. fyrstu mælingum geta gefið allt að 50 l/sek af um eða yfir 80°C heitu vatni. Verði það raunin þá er það betri árangur er búist var við. Holan er 1.750 m djúp og hiti í botni hennar er vel yfir 80°C. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sá um borunina og ÍSOR sá um ráðgjöf og eftirlit.
Á undanförnum árum, eða frá 2012, hefur RARIK í samstarfi við ÍSOR látið bora eftir heitu vatni við Hoffell í Hornafirði með það að markmiði að finna heitt vatn fyrir hitaveitu á Höfn. Frá 1992 til 2006 höfðu sveitarfélagið Hornafjörður í samstarfi við Jarðfræðistofuna Stapa og einnig Orkustofnun unnið að jarðhitaleit við Hoffell. Boraðar voru 33 rannsóknarholur fram til 2006, flestar grynnri en 60 m, en fjórar yfir 300 m. Hlé varð á borunum frá 2006 þar til RARIK hóf að láta bora árið 2012, en síðan þá hafa verið boraðar 12 grunnar rannsóknarholur, ein 150 m hola, þrjár 500 m holur og fjórar djúpar rannsóknarholur 1100 til 1750 m djúpar, sem hannaðar eru þannig að þær nýtist sem vinnsluholur. Árangur hefur verið góður og er nú nægjanlegt vatn fundið fyrir hitaveitu á Höfn. RARIK mun þó bora eina djúpa holu til viðbótar, til að tryggja öryggi veitunnar þótt ein hola skemmist.
RARIK hefur rekið fjarvarmaveitu á Höfn í Hornafirði frá 1991, þar sem vatn hefur verið hitað upp með ótryggðu rafmagni og dreift um þéttbýlið. Um 75% húsa á Höfn eru tengd fjarvarmaveitunni, en önnur hús eru hituð með beinni rafhitun. Þegar ótryggt rafmagn hefur ekki verið fyrir hendi þá hefur vatnið verið hitað með brennslu olíu. Að mati RARIK er ekki líklegt að ótryggt rafmagn fáist á næstu árum á þeim kjörum sem nauðsynlegt er til að fjarvarmaveitan beri sig. Því var ákveðið að fara í jarðhitaleit til að freista þess að finna heitt vatn fyrir Höfn. Árangurinn er eins og áður segir góður og forsendur fyrir hitaveitu virðast nú vera til staðar.
.