Rottur – Bilað skolp, rottur í heimsókn

Grein/Linkur:   Rottur streyma úr skólpi í Reykjavík

Höfundur: Hjálmar Friðriksson RÚV

Heimild: ruv

.

rotta

Júlí 2016

Rottur streyma úr skólpi í Reykjavík

Sé skólp á heimilum ekki í lagi er beinlínis verið að bjóða rottum í heimsókn. Þetta segir Ómar F. Dabney, rekstrarfulltrúi hjá Meindýravörnum Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu. Ómar segist ekki hafa orðið var við rottufaraldur í Reykjavík. Líklegra sé að almenningur sé meðvitaðri um rottur.

„Við höfum ekki orðið varir við faraldur. Það er alltaf meira um þetta á sumrin. Þetta tengist alltaf bilun eða gati í skólpi. Ef við fáum mörg útköll úr sömu götu þá er fer maður yfirleitt og tekur öll húsin. Við setjum eitur í alla vatnsbrunna og þá heyrist ekki múkk frá íbúum aftur,“ segir Ómar.

Ómar segir það gott að fólk sé meðvitaðra um kvikindið, líkt og hann kallar rottur að jafnaði. Hann brýnir fyrir fólki að láta meindýravarnir alltaf vita sjái það rottu á ferli. „Það þýðir að sé bilun í lögnum eða skólpi fyrst hún kemst út. Rottan kemst alltaf út úr skólpinu ef það er gat. Hennar heimkynni er holræsakerfið og þar viljum við hafa hana,“ segir Ómar. Meindýravarnir setji þá eitur út í holræsisbrunnana til að fyrirbyggja að þær komist upp úr holræsiskerfinu.

Gáfuð dýr

Að sögn Ómars er alltaf meira um rottugang á götum Reykjavíkur á sumrin. Ástæða þess er fremur einföld, frost er þá farið úr jörðu og því geta rottur komist út í jarðvegi frá skólpi og grafið sig upp á yfirborðið. „Hún grefur sig upp fjölda metra, allt í fimm metra ef út í það er farið,“ segir Ómar. Ekki sé þó hægt að segja að það sé krökkt af rottum í holræsakerfi borgarinnar.

Það er ljóst að Ómar ber ákveðna virðingu fyrir rottum. „Þetta er eitt af fáum kvikindum sem myndu lifa af kjarnorkusprengingu,“ segir Ómar og bendir á að rottur séu merkilega gáfuð dýr. Hann þekki dæmi um að rottur hafi komist inn í kjallaraíbúðir í gegnum rist í niðurfalli í gólfi. Rotturnar loka svo á eftir sér, draga ristina til baka, þannig að íbúar verði ekki varir við heimsóknina.

Koma sjaldan upp úr klósettum

Þekkt flökkusaga fjallar um það hvernig rottur hafi synt upp klósett, jafnvel meðan á því er setið. Ómar segir það mjög fáheyrt og raunar geti það ekki gerst á meðan vatn er í klósettinu. „Ég held að ég hafi heyrt um eitt dæmi þar sem rotta kom upp úr klósetti. Þá var það ónotað klósett sem þornaði, vatnið gufaði upp úr, og þá náðu þær að stökkva upp úr klósettinu. Meðan það er vatn í klósettinu þá kemst hún ekki upp úr,“ segir Ómar.

Fleira áhugavert: