Snjóbræðsla – Í gamlar steyptar tröppur

Grein/Linkur:  Að leggja hita í gamlar tröppur

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Desember 1993

Að leggja hita í gamlar tröppur

Margur hefur fengið skell á hálum tröppum. Í dag mun það tæpast þekkjast á jarðhitasvæðum að ekki sé lögð snjóbræðsla í tröppur um leið og húsið er byggt.

En hvað um gamlar tröppur, er eitthvað hægt að bæta úr þar?

Þessi spurning hefur oft komið upp og svarið er einfaldlega já. Það er auðveldara en ætla mætti, þó vissulega kosti það nokkuð umstang og fjárútlát eins og aðrar framkvæmdir.

En það virðist vefjast ótrúlega mikið fyrir húseigendum og jafnvel fagmönnum. Þess vegna er meiningin að gefa hér nokkrar leiðbeiningar sem vonandi koma að gagni.

Hikið ekki við að brjóta

Fyrst skulum við gera okkur grein fyrir því að margar eldri tröppur eru sprungnar og illa farnar, sérstaklega þær sem hafa verið pússaðar. Sem betur fer hefur það aukist á síðari árum að pússa tröppur um leið og þær eru steyptar.

Það ætti ekki að vera svo erfitt að brjóta burt tröppurnar sem hvíla eins og hlass á bakinu. Engu skiptir hvort tröppurnar eru á lofti eða fyllingu. Burðurinn og járnagrindin er í bakinu. Það er því ekki verið að rýra burðargetuna þó tröppurnar séu hreinsaðar burt.

Þá aðvörun er best að gefa strax að það borgar sig engan veginn að reyna að brjóta raufar fyrir snjóbræðslurörin. Það verður svo lítið eftir að á endanum verður allt látið fjúka.

Að þessu brotverki loknu líta tröppurnar út eins og brött brekka. En gleymum ekki efsta pallinum fyrir framan útidyrnar, þar erum við oft í vanda. Í fæstum tilfellum er hægt að hækka pallinn þegar steypt verður aftur. Þess vegna verður að fleyga varlega ofan af steypunni, þó án þess að skerða burðargetuna.

Þá hefst uppbyggingin.

Snjóbræðslulögnin

Það fást margar gerðir af snjóbræðslurörum í dag og ekki er vert að hætta sér út á þann hála ís að segja að nákvæmlega þessa gerð skuli nota. En eitt er þó óhætt að ráðleggja; að nota þjál og sveigjanleg rör. Og aldrei grennri rör en 25 mm.

Teinar eru boraðir inn í bakið, það getur verið 10 mm kambstál. Snjóbræðslurörin eru bundin á þessa teina með plastbendlum. En um leið vil ég ráðleggja að upp á snjóbræðslurörið sé rennt 35 mm bylgjuðu plaströri.

Til hvers?

Til þess að ekki verði neinn skaði þótt frjósi í snjóbræðslurörunum ef heita vatnið bregst eða eitthvað annað kemur upp á. Þetta er aðeins varúðarráðstöfun.

Á svæði Hitaveitu Reykjavíkur er það krafa að snjóbræðslukerfi sem er innsteypt í tröppur sé tengt millihitara og fyllt frostlegi. Það er líka varúðarráðstöfun en stofnkostnaðurinn miklu meiri.

Flestar gerðir af snjóbræðslurörum eru þannig að þau þola að í þeim frjósi, en ef í þeim frýs þar sem þau eru innsteypt og hafa enga þenslumöguleika má búast við að steypan springi. Þá skemmast rörin líka.

Reglan á að vera þessi:

Það á að ganga þannig frá snjóbræðslurörum að ekki verði skaði á þeim eða umhverfi þeirra þó vatnið í þeim frjósi. Í mesta lagi rekstrartruflun!

Tröppurnar steyptar aftur

Þá er á eitt að líta; hver trappa verður að færast fram um a.m.k. 10 sm. Þetta er í fæstum tilfellum vandamál.

Þetta er gert til að steypan verði ein samfella og þar af leiðandi sterkari og til að rými myndist svo snjóbræðslurörin komist óhindrað úr einni tröppu í aðra.

Fleira áhugavert: