Jarðvarminn – Jarðvegshitun til ræktunar

Grein/Linkur: Því notum við ekki jarðvarmann meira til ræktunar?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – attavitinn.is 9.6.2021

.

Júní 1994

Því notum við ekki jarðvarmann meira til ræktunar?

Finnst olía við Ísland? Verðum við olíuveldi eins og Noregur? Er það ekki eina von Færeyinga að olía finnist á þeirra landgrunni?

Þannig hugsa margir; fara síðan í heita sturtu eða fá sér sundsprett í næstu sundlaug og sitja í stofunni heima við yl jarðvarmans.

Já, er ekki þessi stórkostlega, hreina og tæra auðlind okkar orðin of sjálfsögð. Munum við eftir því í erli daganna hversu dýrmæt hún er? Er æskilegt að hér við land finnist olía með allri mengunarhættunni?

Auknir notkunarmöguleikar

Notkun jarðvarma til upphitunar, þvotta, baða og snjóbræðslu þykir sjálfsagður hlutur í dag.

En hvað um jarðvegshitun til ræktunar, er það ekki ókannað svið?

Svo er alls ekki en örugglega má auka jarðvegshitun til mikilla muna.

Við verðum að fara meira en öld aftur í tímann til að finna hvenær skipulögð jarðvegsupphitun hófst. Sá heiður fellur í skaut Þingeyingum (eins og margur annar að þeirra eigin áliti). Vitað er að um 1850 var byrjað að rækta kartöflur í volgri jörð í Reykjahverfi nyrðra. Á síðari hluta nítjándu aldar voru ræktaðar kartöflur í 4.500 ferm. Nálægt 1890 fóru bændur þar að veita heitu vatni um garðlönd í opnum skurðum.

Á síðari tímum eru það garðyrkjubændur í hreppum austur sem verið hafa í fararbroddi með góðum tilstyrk Orkustofnunar og Búnaðarfélags Íslands.

Hvað um grös og tré?

Því miður er vitneskjan um áhrif jarðvegshitunar á grös og tré nokkuð takmörkuð. Þó má fullyrða að hún getur haft mikil og jákvæð áhrif en er vandmeðfarin. Ekki má pína þessar plöntur til vaxtar allt árið; þær þurfa sinn hvíldartíma. Þá verður einnig að gæta þess að hiti verði ekki of mikill, sem er mjög skaðlegt. Einhvern tímann var sagt að til góðs grasvaxtar þyrfti lágmark 7 gráðu hita bæði í jarðvegi og lofti. En möguleikarnir eru tvímælalaust mestir við grænmetisræktun.

Raunar var ætlunin að benda hinum almenna húseiganda á þessa möguleika. Sá sem hitar upp húsið, bílastæðið og gróðurhúsið með jarðvarma ætti að prófa beð fyrir matjurtir, rósarunna og jafnvel tré. Væri þetta ekki góð viðbót við skemmtilegheitin í garðinum?

Íþróttavellir

Þó nokkrir grasvellir eru með hitakerfi. Sá fyrsti var íþróttavöllurinn í Kópavogi, en hitakerfi hans var gangsett 1974. Þar var raunar gert meira; heljarmikil plastábreiða var til staðar auk mikils keflis sem hægt var að rúlla ábreiðunni upp á sem er jafnlöng vellinum.

Á sama hátt og sett er plast yfir jurtabeð, hvort sem jarðvegur er hitaður upp eða ei, var þá talið nauðsynlegt að slíkur plastdúkur væri til staðar og þá komið að því sem fyrr var sagt. Ekki er nóg að hita jarðveginn; lofthitinn þarf einnig að hækka. Vera minnst 7 gráður bæði á blöðum og rótum.

Hver varð árangurinn í Kópavogi? Sorglega lítill. Brást hitakerfið og þessi sérstæði búnaður?

Svarið liggur ekki í augum uppi. Þó læðist að sá grunur að hann hafi aldrei verið notaður sem skyldi. Mikil vandkvæði voru á að hemja plastdúkinn stóra þó til séu ráð sem duga; þau voru einfaldlega ekki þegin.

Hvort sem þessi búnaður kemur að gagni til aukins grasvaxtar eða ekki er eitt víst. Plastdúkurinn hefði getað komið að miklum notum til að varna því að völlurinn gegnblotnaði fyrir leiki, en hefur aldrei verið notaður sem slíkur.

Engir vita það betur en knattspyrnumenn hve miklu betra er að spila á þurrum velli en blautum og ekki síður hve þurr völlur spillist miklu minna en blautur í leik.

Fleira áhugavert: