Lagnakerfismiðstöðin – Tilgangurinn, sagan
Grein/Linkur: Hversvegna Lagnakerfismiðstöð?
Höfundur: Kristján Ottóson
.
.
Nóvember 1997
Hversvegna Lagnakerfismiðstöð?
Fimmtánda hver fjölskylda verður árlega fyrir tjóni af völdum vatnsleka, segir Kristján Ottósson , og árlegt tjón er a.m.k. milljarður króna.
Tjón vegna vatnsleka frá biluðum húsalögnum eru mikil og fer þeim hratt fjölgandi. Heildarumfang þeirra er a.m.k. einn milljarður króna árlega og fjöldi þeirra slíkur að 15. hver fjölskylda verður fyrir tjóni á ári hverju. skv skýrslu Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins nr. 9512 „Átak um forvarnir vatnstjóna Lokaskýrsla“.
Mikinn hluta þessara tjóna má rekja til skorts á þekkingu á efni og vinnubrögðum þeirra er að lagnamálum vinna.
Jafnframt verða alvarleg slys á fólki og dauðsföll vegna hitaveituvatns. Heitt vatn og aðrir heitir vökvar eru algengustu brunavaldarnir hjá íslenskum börnum. Brunaslys barna á Íslandi, innlagnir á Landspítalann á árunum 1982 til 1995 eru 290 börn með húðbruna og eru þau slys flest vegna baðvatns (15,2%). skv. Læknablaði 1997:83.
Hitastig og þrýstingur heita neysluvatnsins er hærri hér á Íslandi en víðast hvar annarstaðar í heiminum sem veldur verulega minni líftíma tækja og búnaðar og ótímabærum bilunum sem skapar hættuástand og leiðir til slysa.
Auk þess er eftirlit með sölu tækja og búnaðar til lagnakerfa hér á landi nánast óvirkt.
Ísland er því kærkomið söluland á óvandaðri vöru fyrir erlenda framleiðendur. Afleiðing af því er að slys og tjón eru mun algengari en þyrfti að vera.
Í nágrannalöndum okkar hafa gilt reglur, skráðar og óskráðar um viðurkenningu lagnaefnis. Þar hafa þessar reglur verið virtar, en á Íslandi hafa reglur um vottun lagnaefnis (sbr. byggingareglugerð, grein 7.0.3) hins vegar að mestu leyti verið hundsaðar.
Þekkingarskortur leiðir til þess að höndum er kastað til lokafrágangs lagnakerfa, sem aftur leiðir til þess að ástand þeirra er óviðunandi, fólk fær ekki það sem það taldi sig vera að borga fyrir og allir eru óánægðir.
Þekkingarskortur er afleiðing af algjöru aðstöðuleysi við frumkennslu og eftirmenntun hönnuða og iðnaðarmanna. Um lokafrágang lagnakerfa gilda víða í nágrannalöndum okkar sérstakar vinnureglur sem ekki hafa náð að festa rætur hér að mestu vegna aðstöðuleysis.
Viðskil við lagnakerfi eru oft með þeim eindæmum að t.d. vita íbúar húsa sjaldnast hvar á að skrúfa fyrir ef vatn fer að leka. Allar merkingar og notkunarleiðbeiningar eða aðrar skýringar vantar.
Nokkur kostnaður er af því að mennta betur hönnuði og iðnaðarmenn en kostnaður vegna reksturs vanbúinna og vanstilltra lagnakerfa er mun meiri.
Líf og heilsa verður seint metin til fjár
Lagnakerfamiðstöð með allri aðstöðu til kennslu og þjálfunar er ætlað að bæta úr þeim vanda sem lagnamenn á Íslandi standa frammi fyrir.
Dæmi: Í einu sjúkrahúsi á landsbyggðinni voru varmanýtar öfugt tengdir vegna vankunnáttu. Þetta ástand varði í 12 ár. Heildartjón þessa sjúkrahúss í 12 ár (samkvæmt hönnunarforsendum) nam a.m.k. 10 m.kr. sem er um fimmtungur af stofnkostnaði Lagnakerfamiðstöðvar.
Dæmi sem þessi eru mýmörg.
Heildarkostnaður vegna vatnstjóna er a.m.k. 1.000 m.kr. á ári. Ef árangur af Lagnakerfamiðstöð verður sá að tjónin minnka þó ekki sé nema 1% sparast 10 m.kr á ári eða svipuð upphæð og gert er ráð fyrir til árlegs rekstrarkostnaðar Lagnakerfamiðstöðvar.
Ef hins vegar árangur af Lagnakerfamiðstöð verður sá að tjónin minnka sem nemur 5% sparast 50 m.kr. á ári eða svipuð upphæð og sem nemur stofnkostnaði Lagnakerfamiðstöðvar.