Framtíðarbaðið – Vatn, gufa, heilbrigði

Grein/Linkur:  Hvernig verður baðið í framtíðinni?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Júní 1994

Hvernig verður baðið í framtíðinni?

Vísindaskáldsögur hafa verið og eru uppáhaldslestur margra. Þar er reynt að skyggnast inn í framtíðina; menn þjóta um himingeyminn á hraðskreiðum geimförum og skreppa til Mars í helgarfrí.

Það er hægt að skjótast inn í framtíðina á nærtækari vettvangi. Hvernig verður okkar nánasta umhverfi þegar 21. öldin gengur í garð?

Þýskur spámaður

Maður er nefndur Dr. Armin Ziegler. Hann hefur reynt að spá fyrir um hvernig baðið verður eftir aldamótin. Fylgjum homum eftir nokkra stund.

Baðið mun fá aukna þýðingu í okkar daglega lífi í framtíðinni. Morgunsnyrtingin mun verða gufubað þar sem margskonar ilmolíur auka vellíðan ásamt þægilegri tónlist. Þetta gerist í baðherbergi sem er mikið stærra en þau eru almennt í dag. Þar verða ekki aðeins hefðbundin hreinlætistæki heldur einnig nokkur þjálfunartæki þar sem hægt er að efla líkamann með daglegum æfingum.

Baðkerið er orðið miklu stærra, það er orðið það sem við í dag köllum heitan pott. Þegar góða gesti ber að garði er þeim gjarnan boðið „til baðs“. Þar er hægt að sitja, spjalla og njóta góðra veitinga. Þægindi sem við í dag þekkjum í sundlaugum og sumarbústöðum.

Þrjú orð skulum við muna um framtíðarbaðið. Vatn, gufa og heilbrigði.

Tæknin

Ýmislegt úr tækni geimferðanna verður þá orðið sjálfsagður hlutur í baðherberginu. Þar ber hæst stóraukin nýting vatns. Þá mun það ekki þekkjast, ekki einu sinni á Íslandi, að vatn sé aðeins notað einu sinni og síðan kastað. Í framtíðarbaðinu verður hreinsun og hringrás vatnsins sjálfsagður hlutur. Tæknin sem gerir það mögulegt verður þá orðin ódýr og þarf litla orku. Verður því ekki til að íþyngja heimilisbuddunni.

En það er gufubaðið sem er ein helsta breytingin. Það hreinsar líkamann betur en vatnsbað og sparar vatn.

Eitt lítið tæki verður til á öllum böðum, lítið tæki sem hægt er að taka með sér í vinnuna eða ferðalagið. Það gerir kleyft að setja sjóðandi heita klúta á andlitið til hressingar. Margir muna eflaust eftir þeim frá hinum góðu gömlu Loftleiðaárum. Þá var það sjálfsagður hlutur að flugfreyjurnar bæru fram slíka klúta.

Innréttingar og tæki

Flísalögn með gamla laginu verður liðin tíð. Í stað þeirra verða komnir gólf- og veggdúkar úr glertrefjum eða keramiki. Þá verður auðvelt að leggja með háhita. Einnig auðvelt að taka burt með sömu tækni. Þess vegna verður hægt að breyta um áferð og útlit með tiltölulega litlum kostnaði og fyrirhöfn.

Baðkerið miklu stærra eins og áður var sagt, önnur tæki breytast ekki mikið, nema þau kunna að verða framleidd úr nýjum efnum.

En allar tengingar verða ennþá þægilegri og einfaldari en í dag. Öll tæki verða tengd með sveigjanlegum börkum og skynditengjum. Þá tækni getum við raunar séð í dag í loftslöngum og lögnum. Allt mun verða miðað við að auðvelt verði að endurnýja og skipta um tæki.

Jafnvel Íslendingar verða hættir að múra inn baðker!

Allt verður miðað við þægindi, nýtni og orkusparnað. Og það mun koma í ljós að þessi þrjú hugtök geta átt hina bestu samleið.

Já, tæknin mun þróast áfram. En að öðru leyti er þessi framtíðarsýn ferðalag aftur í tímann. Við erum í raun komin í hin fornu tyrknesku, rómversku og arabisku böð.

Jafnvel í fornu norrænu baðstofurnar.

Fleira áhugavert: