Þróun hitaveitunnar í lagnamálum – Sagan

Grein/Linkur:  Eru stóru hitaveiturnar að bregðast í þróunarstarfi?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Ágúst 1994

Eru stóru hitaveiturnar að bregðast í þróunarstarfi?

Meðal þess sem heldur þjóðrembu okkar við lýði er jarðvarminn, virkjun hans og notkun. Vissulega er það lítið okkur mörlendingum að þakka að hér í jörðu sé finnanlegt heitt vatn og gufa. En virkjun og notkun þessara gersema er mannanna verk. Réttlætir ekki glæsileg frammistaða okkar í þessum málum nokkra þjóðrembu? Örugglega frekar en flest annað, ef á annað borð þjóðremba er nokkurntíma réttlætanleg.

Móðurhitaveitan

Höfuð og herðar ber Hitaveita Reykjavíkur yfir allar hitaveitur landsins. Hún dælir upp mestu vatni, hefur langstærstan kaupendahóp, lengsta dreifikerfið, merkasta orkuverið (Nesjavelli) og er langsamlega ríkust.

Hún á Perluna, gleymum því ekki.

Hitaveita Reykjavíkur hefur verið framsækið fyrirtæki og fullyrða má að hún hafi ætíð verið vel rekin.

Aðrar hitaveitur, sem standa undir því nafni að vera „stórar“ eru Hitaveita Suðurnesja, sem eflaust telur sig einnig eiga stórmerkt orkuver að Svartsengi, Hitaveita Akureyrar og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar.

Upphafið

Það var mikil framsýni hjá Jóni Þorlákssyni þegar hann, fyrstur manna svo vitað sé, lagði til fyrir 70 árum að hitaveita yrði lögð í öll hús í Reykjavík. Ævintýrið hófst fyrir alvöru á síðustu árum konungsríkisins Íslands. Þá var lögð hitaveita í allar byggingar innan gömlu Hringbrautar. Síðan varð nokkuð hlé en næsta stórátakið kom upp úr 1960, síðan voru grannbyggðir Reykjavíkur innlimaðar í kerfið upp úr 1970, öllum til ánægju og hagsbóta.

Það má segja að lagnatæknin hafi lítið breyst frá upphafi. Stálrör, tengd með rafsuðu, er tækni sem enn heldur velli. Lengi vel voru rörin lögð í steypta stokka sem nú eru að hverfa. Afdrifaríkasta breytingin er þegar kápurör úr plasti koma til sögunnar og innspýting á einangrun milli kápu og hitaveiturörs verður möguleg. Betri einangrun, en ekki síður, betri vörn gegn tæringu stálrörsins af völdum utanaðkomandi raka.

Hvað um þróun í lagnamálum?

Þróunin er upptalin með framansögðu. Hér birtist enn árátta okkar Íslendinga; að ætlast til að allir aðrir sinni þróun fyrir okkur. Á sinn kostnað auðvitað, er það ekki ódýrast?

Það er nú svo. Það liggur engan veginn á borðinu að það sé ódýrast fyrir okkur þegar til lengri tíma er litið. Ýmislegt, sem er gott og gilt annarsstaðar á jarðkringlunni kann að vera vafasamt fyrir okkur. Viðfangsefnin kunna að krefjast annarra lausna hérlendis.

Þróun, rannsóknir og tilraunir á innlendum vettvangi eru nauðsynlegar á flestum sviðum.

Ekki síst í vali á efni til hitaveitulagna hérlendis. Hefur ekkert gerst í þeim efnum?

Sáralítið hjá „stóru“ hitaveitunum. En það hefur gerst heilmikið hjá sveitamönnum. Hitaveitur víða í sveitum landsins eru lagðar úr plaströrum og lukkast ágætlega. Enda vandséð að þær hitaveitur hefðu orðið að raunveruleika ef ekki hefði verið farið inn á nýjar brautir í lagnamálum. Plaströrin gerðu þær mögulegar bæði tæknilega og fjárhagslega.

Við teljum okkur forystuþjóð í nýtingu jarðvarma til húshitunar og erum það.

En er ekki kominn tími til að þessi öflugustu fyrirtæki landsins, svo sem Hitaveita Reykjavíkur, fari að gera víðtækar tilraunir með önnur lagnaefni en stálrör, sem vissulega hafa sína kosti, en eru enn að ryðga í sundur hér og þar í veitukerfinu.

Það eru margskonar plastefni sem koma til greina og eru í notkun í fjarvarmaveitum víðsvegar í V-Evrópu. Þar má nefna krossbundið polyeten eða polybuden t.d.

Ekki síður má nefna trefjaplaströr sem hafa ekki minna þrýstiþol en þau stálrör sem notuð eru í dag, en þann stóra kost framyfir þau að ryðga ekki.

Er það ósanngjarnt að krefjast þess að stærstu hitaveiturnar, eða allavega Hitaveita Reykjavíkur, fari að sinna þróun, rannsóknum og tilraunum í lagnamálum?

Ber þeim ekki skylda til þess?

Er ekki kominn tími til að kanna fleiri möguleika en stálrör?

Fleira áhugavert: