Afkastar/geislar svartur ofn meira en hvítur?
Grein/Linkur: Hvaða máli skiptir hvort miðstöðvarofnar eru hvítir eða svartir?
Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson
.
.
Febrúar 2000
Varmaflutningur frá venjulegum miðstöðvarofnum skiptist gróflega til helminga. Annars vegar verður varmageislun frá yfirborði ofnsins til umhverfisins, og hins vegar varmaburður með loftinu sem leikur um ofninn. Ef ofninn væri hins vegar úr póleruðu áli, þá yrði varmaflutningur með geislun nær enginn og hitunarafköstin mundu minnka um helming. Geislun frá póleraða álinu er aðeins um 4% af geislun svarthlutar.
Það merkilega er að hvít málning er nánast „svört“ með tilliti til varmageislunar því að hvítmálaður flötur geislar 90-92% af geislun hins fullkomna svarthlutar. Svört málning geislar 95-98% af svarthlutargeislun. Þannig myndu afköst ofnsins aukast um 2-3 % við að mála hann svartan í stað þess að hafa hann hvítan.
Hér er einnig forvitnilegt að bera saman við lit á dýrum. Þar sem hvítir hlutir endurkasta meira ljósi en dökkir, mætti ætla að það væri að þessu leyti óhagstætt fyrir ísbjörninn að vera hvítur; hann fari þá á mis við sólarorku sem hann gæti annars nýtt til að halda á sér hita. En hér er sannarlega ekki allt sem sýnist, frekar en með hvítu ofnana. Það hefur sem sé komið í ljós að ísbirnir og nokkur önnur hvít heimskautadýr eru nánast svört í útfjólubláu ljósi. Þau drekka með öðrum orðum í sig mikla orku frá slíkri geislun og nýta hana til að halda á sér hita.