PVC plast – Grænfriðungar, aflátsbréf

Grein/Linkur:  Grænfriðungar í stríði við plast

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

September 1994

Grænfriðungar í stríði við plast

Athyglisverður dómur féll við viðskiptadómstólinn í Vínarbog í Austurríki í nóvember á síðasta ári. Dómstóllinn dæmdi grænfriðunga til að hætta herferð sinni gegn PVC-plasti og draga til baka fullyrðingar um efnið þar sem þær væru rangar og sköpuðu óróa í viðskiptum að ástæðulausu.

Áður en þessi dómur féll hafði hreyfing grænfriðunga verið aðvöruð og skorað hafði verið á hana að stöðva herferðina, en þeir létu sér ekki segjast og var því höfðað mál.

Þetta er mál sem kemur almenningi við, bæði hérlendis sem erlendis. Vart mun vera til það heimili á landinu að ekki séu þar hlutir úr margskonar plasti, þar á meðal PVC.

Hvar finnst það?

Ekki er ólíklegt að þú gangir á þessu efni daglega. Gólfdúkar og flísar úr PVC eru algengar í skólum, skrifstofum og einkaheimilum. Búsáhöld margskonar, svo sen skálar, ausur, fötur, garðkönnur, vatnsslöngur, box undir matvæli; svo mætti lengi telja.

En PVC er ekki síst að finna í lögnum. Hérlendis er það helst í frárennslisrörum í grunnum. Hver kannast ekki við appelsínugulu rörin sem lögð eru í flesta grunna? Þessi rör eru meira að segja framleidd hérlendis af tveimur verksmiðjum, Hampiðjunni í Reykjavík og Seti á Selfossi.

Þetta var efnið sem grænfriðungar í Austurríki fóru í stríð við. Einkum beittu þeir auglýsingum á stórskiltum utanhúss og höfðu varið til þess miklu fjármagni. Þeir útmáluðu efnið sem umhverfisspillandi og kröfðust þess að hætt yrði að framleiða hráefnið og þar með hluti úr því, hvort sem það voru rör, búsáhöld eða annað, töldu raunar að það væri engin þörf á að framleiða efnið og nota, önnur umhverfisvæn efni gætu komið í staðinn. Sami rökstuðningur og gegn sel- og hvalveiðum inúíta í heimskautalöndum; þeir gætu hætt að éta kjöt og spik og ræktað grænmeti í staðinn.

Hvað vitum við um plast?

Plastið er ungt efni á mælikvarða mannkyns. Vitum við nóg um það til að hægt sé að fullyrða að það sé skaðlaust? Er allt í lagi að nota plastleiðslur fyrir drykkjarvatn?

Það má fullyrða að svo sé. Með nútíma tækni er enginn vandi að vita upp á hár hvaða efni er í plasti. Það er unnið úr lífrænum efnum, olíu, gasi og kolum.

Spurningarnar beinast ekki fyrst að grunnefni plasts heldur að þeim aðskotaefnum sem í það er blandað til að fá fram mismunandi eiginleika. Krossbundin polyetenrör, öðru nafni pexrör, eru ýmist íblönduð efnum eða geisluð til að ná fram auknum styrk. Lengi vel voru þessi rör ekki leyfð fyrir drykkjarvatn meðan ítarlegar rannsóknir fóru fram. Grænt ljós var síðan gefið á notkun þeirra og fullyrða má að öll þau plastefni sem í dag eru leyfð fyrir drykkjarvatn eru með öllu skaðlaus.

Sorgarsagan um grænfriðunga

Enginn veit hvar grænfriðungar bera niður næst. Það ætla að verða sorgleg örlög þessara samtaka að fara eftir kjörorðinu „tilgangurinn helgar meðalið“. Það er að segja ef einhver fjárvon er.

Hreyfing grænfriðunga er vissulega þörf hreyfing í veröld þar sem maðurinn ryðst um náttúruna eins og ruddi. En þessari hreyfingu væri kannske hollt að minnast þess að það er aldrei vænlegt að glata siðferðilegum markmiðum og sjálfsgagnrýni. Áður en verr fer væri grænfriðungum hollt að minnast þess að mafían alræmda byrjaði sem vörður réttlætis og verndari fátæklinga.

Meira að segja kristin kirkja klofnaði meðal annars vegna sölu aflátsbréfa; syndugir menn gátu keypt sig undan frömdum og ófrömdum syndum. Ef þetta hefði gengið eftir hefðu þeir ríku farið til himna en fátækir syndarar beinusu leið til vítis.

Grænfriðungum er, ekki síður en öðrum, hollt að minnast þessa; að kasta burt siðferðilegum lögmálum leiðir ætíð til ófarnaðar.

Fleira áhugavert: