Steinrör – Enn í fullu gildi?

Heimild: 

.

September 1995

Eru steinrör enn í fullu gildi?

Öll lagnaefni hafa sína kosti en einnig takmarkanir. Velja á lagnaefni miðað við aðstæður

Sú var tíðin að allar frárennslis lagnir undir botnplötu húsa voru úr steinrörum, en svo héldu plaströr innreið sína og í dag er það undantekning að steinrör séu notuð innan sökkla.

Með tilkomu plaströra héldu margir að steinrör yrðu að láta í minni pokann, en er það svo?

Nei, langt frá því, og til þess liggja margar ástæður.

Það vill oft fara svo þegar ný efni koma á markað, að ýmsir halda að þar sé kraftaverkaefni sem ýti öllum eldri efnum til hliðar, en því fer fjarri. Öll lagnaefni hafa sína kosti, en þau hafa einnig sínar takmarkanir og því má aldrei gleyma.

Það á aldrei að að bjóða neinu efni meira en það þolir, það á að velja lagnaefni miðað við aðstæður.

Þess vegna munu steinrörin halda velli um langa framtíð.

Múrarar lögðu grunnlagnir

Það er dálítið skondið að það voru múrarar sem lögðu grunnlagnir allt fram til 1960, þó að pípulagningamenn legðu allar aðrar lagnir í húsum, líklega hefur þetta helgast af því að efnið í rörunum var steinsteypa.

En mikið hefur breyst síðan. Þétting með steinrörunum var þannig að fyrst var tjöruhampi slegið inn í múffuna og síðan smurt með steypu yfir, ekki furða þótt þetta væri álitin múraravinna.

Það var ekki lítil framför þegar gúmmíhringir komu til sögunnar til að þétta samskeytin, en það er fleira sem hefur breyst.

Framleiðsla steinröra hefur breyst mikið. Fyrir nokkrum áratugum var framleiðslan frumstæð og vélakostur lítill, gæði röra og einkum tengistykkja æði misjöfn.

Nú eru víða að koma í ljós alvarlegir gallar á frárennslislögnum úr steini, sem eru í grunnum eldri húsa, segjum fjörutíu ára og eldri.

Þetta er ekki óeðlilegt, en hvað á þá að taka til bragðs?

Í flestum tilfellum verður að gera lagnirnar óskaðlegar, taka þær með öllu úr sambandi, brjóta sem minnst innanhúss og finna leið til að leggja frárennslislögn frá hverjum stofni, sem kemur ofan af hæðum, sem fyrst út úr húsi og sameina lagnir síðan utanhúss.

Myndavélin niður um klósettið

En videóið er til fleiri hluta nytsamlegt en til að horfa á bláar ofbeldismyndir eftir miðnætti. Með þessari tækni er líka hægt að skoða ókræsilegar frárennslislagnir undir húsum og þá tækni er sjálfsagt að nýta til hins ítrasta. Hérlendis eru starfandi þó nokkur fyrirtæki sem taka að sér slíka könnun; það er einfaldlega send myndavél inn í frárennslislögnina og hún „keyrð“ eftir henni fram og til baka, en myndin kemur fram á skjá og sýnir svart á hvítu hvernig ástand lagnanna er.

En eitt má þó ekki gleymast; áður en myndavélin er send niður verður að skola lögnina vel og vandlega, að öðrum kosti kann margt að leynast.

Hvar eru mörkin?

Það er engin ástæða til að óttast notkun steinröra, þótt ellimörk séu komin á þau víða, allt gengur úr sér.

Í rauninni má segja að þau steinrör, sem eru á markaðinum í dag, séu miklu betri og vandaðri en þau steinrör, sem voru fáanleg fyrir fjórum áratugum. Framleiðendum hefur fækkað, vélakostur aukist svo og gæðaeftirliti hjá framleiðendum.

En hvar eigum við að setja mörkin milli plaströra og steinröra í frárennslislagnir?

Þau gætu verið við sökkul húsa eða við lóðamörkin, a.m.k. verður að telja það miklu skynsamlegra að nota steinrör til allra götulagna og ef til vill halda flestir að steinrör séu eingöngu notuð á þeim vettvangi, en ekki er það algilt. Sums staðar úti á landi hafa tæknilegir forráðamenn sveitarfélaga farið að nota plaströr í frárennsliskerfi undir götur og að sumu leyti er það skiljanlegt, mikill munur kann að vera á flutningskostnaði plaströra og steinröra.

En þrátt fyrir það ættu menn að fara sér hægt, steinrörin eru enn sem komið er besti kosturinn til þeirra nota.

Ýmiss konar hjálpartæki eru nú fáanleg til að létta vinnuna við lögn steinröra.

Fleira áhugavert: