Neysluvatn, lækkum hitann – En aðgát „Legionella pneumophila“

Grein/Linkur:  Lækkum hita á kranavatni en aðgát skal höfð

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Maí 2008

Lækkum hita á kranavatni en aðgát skal höfð

Íslendingar eru áhlaupaþjóð svo sem til að færa út landhelgi, halda fund æðstu og voldugustu leiðtoga heims, hirða töðu af túni eða ausa upp síld. Slík verkefni eru áhlaupavinna sem þarf að taka í skorpu, síðan búið og allir berja sér á brjóst; sjá hve dugleg og skörp vor litla þjóð er. En þessi litla þjóð er kannski ekki eins úthaldsgóð, ef um langtímamarkmið er að ræða, þá fer oft ýmislegt í handaskolum. Þjóðarsáttin fyrir nær tveimur áratugum er rómað verk en nú er staðið frammi fyrir því að þessu var klúðrað á síðustu árum.

Allir sem gátu fóru á velmegunarfyllirí, vinna yfirþyrmandi, kaupæði greip um sig, lán voru tekin í erlendri mynt, hlutabréf keypt og allskonar vöru sópað inn í landið, viðskiptahalli við útlönd náði áður óþekktum hæðum. En nú er komið að skuldadögum, velmegunarfyllirí að baki og timburmenn komnir í hausa. Þannig fer oft fyrir þessari litlu þjóð þegar hún þarf að sýna úthald og gæta fenginna gæða. Við höfum hafið mörg „átökin“, byrjað með krafti en oftar en ekki vantar úthaldið, krafturinn dofnar og síðan gleymist furðufljótt hvert „átakið“ var.

Þetta kann að þykja einkennilegur formáli að því að minna á enn eitt mikilvægt átak, átakið gegn of heitu kranavatni. Einhver kann að segja að of heitt kranavatn sé smámál, en hver getur sagt svo þegar einstaklingar liggja í valnum eða bera menjar brunasára alla ævi.

Átakið gegn of heitu kranavatni fór vel af stað en nú ári seinna fer kannski að bera á okkar þjóðareinkenni; þetta er búin að vera góð skorpa, nú förum við að taka það rólega. En það er á þessum tímapunkti sem rétt er að gefa mönnum hressilegt olnbogaskot og segja eitthvað á þá leið að við séum rétt að byrja.

Enn eru út um öll byggð ból slitin og úr sér gengin handvirk gamaldags blöndunartæki, skelfilegar slysagildrur. Nú þarf að hefja átak til að útrýma slíkum gripum. Með tilkoma nýrrar tækni við að húða innan galvaniseraðar stálpípur er hægt að lækka hitann eftir slíka aðgerð með því að setja hitastýrðan blöndunarloka á inntakið eða setja upp varmaskipti og hita upp kalt vatn.

Einn er sá vandi sem nágrannaþjóðir okkar hafa átt við að stríða en við höfum sem betur fer aðeins lítillega orðið vör við. Það er lítil baktería sem heitir því virðulega nafni Legionella pneumophila. Fyrri hluti nafnsins kemur frá samtökum bandarískra uppgjafahermanna, American Legion, en á ársfundi þeirra samtaka 1976 gerði bakterían usla og varð þekkt eftir það. Seinni hluti nafnsins er kominn úr grísku og þýðir eitthvað á þá leið „sá sem elskar lungu“. Þýðing nafnsins gæti því verið Lítill her sem elskar lungu, en veikindi af völdum þessarar bakteríu eru þekkt hérlendis undir nafninu hermannaveiki. Þessi baktería lifir í vatni en getur aðeins smitað fólk ef hún berst í lungun.

Ýmis afbrigði hennar eru til í náttúrunni, einnig hérlendis. Það getur meira að segja verið að göngugarpur á hálendinu hafi neyðst til að drekka úr volgri tjörn sem legionellan er í. En þó hún fari í gegnum meltingarveginn kemur það ekki að sök. Erlendis hefur hún aðalega smitað þá sem eru veikir fyrir í lungum, sérstaklega stórreykingafólk. Ef það heldur að tjörulagið í lungunum sé vörn gegn þessari bakteríu þá er það mikill misskilningur. Smitunin kann að hafa gerst í sturtum þar sem sturtuhausar splundra vatninu í fínan úða. Þess vegna hafa grófu gömlu góðu ömmuhausarnir aftur orðið vinsælir víða erlendis, hérlendis einnig. Þar hafa smitleiðir einnig verið frá svokölluðum kæliturnum sem eru tengdir loftræsikerfum en eru lítt þekktir hérlendis.

sturta2En ef heita kranavatnið er 55°C eða heitara er engin hætta á ferðum. Kjörhitastig legionellu er 35 – 46°C. Þá er hún alsæl og iðkar sína ástarleiki af miklum krafti og fjölgar sér hratt.

En þó við lækkum hita á kranvatni og engin sérstök hætta sé á ferðum er sjálfsagt að allir viti um tilveru kvikindisins. Það er mikil nauðsyn að við breytingar á húsnæði, og þar með lögnum, séu aldrei skildar eftir lagnir sem ekki eru notaðar. Slíkir botnlangar hafa erlendis orðið uppeldisstöðvar legionellu. Auk þess gætu slíkir botnlangar orðið útundan ef neysluvatnslagnir eru húðaðar, þar gæti tæring og ryðmyndun haldið áfram sem síðan gæti borist inn í hreinar og húðaðar lagnir.

Pípulagningamenn verða því að gæta þess að fjarlægja allar slíkar draugalagnir.

Er í þínu húsi vaskur eða eitthvert tæki sem aldei er notað? Ef svo er þá skaltu um fram allt láta vatnið, bæði kalda og heita, renna rækilega í það tæki ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári þó það hafi engan annan tilgang en að koma vatninu á hreyfingu, losna við það og hreinsa lagnirnar.

Fleira áhugavert: