Finnmörk, sagan – 45 MW vindorkuver

Grein/Linkur:  Vel heppnuð vindorka í norðri

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Mars 2019

Vel heppnuð vindorka í norðri

Sumarið 2014 áttu sér stað miklar framkvæmdir við Berlevoginn í Finnmörku. Þarna var reist 45 MW vindorkuver á sjálfum nyrsta odda Noregs.

Þar er um að ræða fimmtán turna og hver um sig með 3 MW hverfil frá Siemens. Og það sem er alveg sérstaklega athyglisvert við þetta vindorkuverkefni, kennt viðRaggovidda, er að fyrsta heila starfsárið (2015) skilaði blásturinn þarna hvorki meira né minna en um 200 GWst. Sem er Noregsmet í nýtingu vindorkuvers, þ.e. miðað við uppsett afl. Og nálægt heimsmeti.

Raforkuframleiðslan þarna m.v. uppsett afl er sem sagt með því allra mesta sem þekkist í vindorku í heiminum eða um og yfir 50%. Þetta er að vísu töluvert minni nýting en gengur og gerist í íslenskum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. En þetta er engu að síður mjög hagkvæm vindorkustöð þarna í Raggovidda.

Norway-Raggovidda-Vindkraft_Wind-Power-3

Norway-Raggovidda-Vindkraft_Wind-Power-

Til samanburðar er t.d. áhugavert að Raggovidda skilar nokkuð svipaðri framleiðsla m.v. afl eins og gerist í Írafossstöð og Vatnsfellsvirkjun. Sem sýnir vel að það getur sannarlega verið vit í vindorku. Til samanburðar má einnig nefna að vindurinn þarna í Raggovidda skilaði meiri raforkuframleiðslu en t.a.m. Laxárvirkjun og um helmingnum af allri þeirri raforku sem Sogsvirkjanirnar þrjár almennt gera. Nýting vindorku getur því bersýnilega verið raunverulegur valkostur í stað þess að ráðast í gerð rennslisvirkjana í fallegum bergvatnsám.

Kostnaðurinn við Raggovidda var á bilinu NOK 600-650 milljónir. Sem merkir að kostnaðurinn pr. MW er mjög hógvær. Þ.e. töluvert undir USD 2 milljónir/MW og það þrátt fyrir að gengi NOK sé nú mjög lágt.

Norsk_vindkraftproduksjon_GWh_Produksjon_chartbuilder-800x450

Norsk_vindkraftproduksjon_GWh_Produksjon_chartbuilder

Þetta er vel að merkja mun lægri byggingakostnaður en gengur og gerist í vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum hér á landi. Á móti kemur að íslenskar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir skila almennt miklu meiri nýtingu. En eins og áður sagði er nýting Raggovidda þó það mikil, miðað við afl, að það fer langt með að jafnast á við sumar íslenskar virkjanir. Þetta má þakka góðum vindi þarna nyrst í Noregi, en einnig því að þessi tækni er að taka framförum. Þess vegna er eðlilegur sá mikli vöxtur sem verið hefur í nýtingu vindorku víða í heiminum – og er spáð að haldi áfram á næstu árum og áratugum.

Uppbygging í vindorku hefur verið nokkuð hröð í Noregi síðustu árin. Og nú er svo komið að Norðmenn framleiða um 2,5 TWst af raforku með þessum hætti árlega. Það er ámóta eins og helmingurinn af allri raforkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar (sem er langstærsta virkjun á Íslandi). Til samanburðar er einnig áhugavert að þetta er miklu meiri raforka en HS Orka framleiðir. Og jafngildir um 3/4 af allri raforkuframleiðslu ON/OR. Norsk vindorka er því sannarlega umtalsverð, þó svo hún sé einungis lítið hlutfall af allri raforkuframleiðslu í Noregi.

Norway-Raggovidda-Vindkraft_Wind-Power-4

Norway-Raggovidda-Vindkraft_Wind-Power-

Almennt er nýting vindorkuvera í Noregi nálægt 30% (þ.e. hlutfall klkst yfir árið sem túrbínurnar skila fullum afköstum). Þetta er mun betri nýting en víðast hvar annars staðar í heiminum. Og árið 2015 náði nýtingin í Noregi vel að merkja næstum því 35%.

Þetta er þó smáræði miðað við það sem vindorka virðist geta skilað á Íslandi. Því skv. upplýsingum frá Landsvirkjun hafa vindrafstöðvarnar á Hafinu ofan við Búrfell verið með nýtingu nálægt 40%. Sem gefur vísbendingu um að íslensk vindorka sé ekki síður hagkvæm en norsk. Það er því fyllsta ástæða til að huga meira að nýtingu vindorku á Íslandi.

Fleira áhugavert: