Blöndunartæki – 70 til 80°C heitt vatn

Grein/Linkur: Á ég að gæta bróður míns?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

stillum hitann

.

Júlí 2007

Á ég að gæta bróður míns?

Vel getur verið að kvenkyns lesendur fetti fingur út í fyrirsögn þessa pistils. Á ekki að gæta systranna líka? Að sjálfsögðu, en þessi tilvitnum er raunar úr þekktri bók sem fjallar um uppruna mannkyns, úr fyrri hluta þeirrar bókar þar sem réttindi kvenna eru ekki hátt skrifuð.

En annar útúrdúr áður en komið er að texta dagsins. Í síðasta pistli var birt mynd af litlu, ódýru en öruggu tæki til að lækka hita á kranavatni við inntak. Því miður fór undirtexti myndarinnar á flot og komst ekki til skila. En í stuttu máli er hitastýrði blandarinn, sem þar var mynd af, aðeins fyrir einbýlis- eða raðhús, hann annar ekki meira vatnsmagni en þau nota. Auk þess var lögð áhersla á það að hann má aðeins nota ef heitar neysluvatnslagnir eru úr plasti eða ryðfríu stáli, en nær öll hús, sem eru eldri en 10 ára, jafnvel flest öll hús byggð fyrir síðustu aldamót, eru með neysluvatnslagnir úr galvaníseruðum stálrörum og inn í slíkar lagnir má aldrei senda vatn sem er blanda af heitu og köldu vatni.

En þá að texta dagsins. Nýlega kom út myndarleg bók frá hinu þekktum frameiðnda sem framleiðir blöndunartæki fyrir böð, eldhús, þvottahús og önnur votrými bæði fyrir einkaheimili sem stofnanir. Þetta þýska fyrirtæki var fyrir nokkrum áratugum frumkvöðull í framleiðslu slíkra tækja, en lét síðan nokkuð undan síga fyrir keppinautum en er nú í mikilli sókn. Það er að mörgu leyti fengur að slíkri bók þó hún sé auðvitað fyrst og fremst hugsuð út frá auglýsingagildi. Texti bókarinnar er á íslensku og með fylgja myndir af flestum tækjum framleiðandans.

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að mikil herferð er í gangi að frumkvæði Orkuveitu Reykjavíkur til að fá alla til að vakna af værum blundi og gera sér grein fyrir að vatn, sem er 70–80°C heitt, er stórhættulegt og hefur valdið slæmum slysum eins og fórnarlömb hafa sýnt svo glögglega. Það er enginn ágreiningur um markmiðið; hitanum á vatninu verður að ná niður. Hins vegar greinir svolítið á um leiðir því það gilda alls ekki sömu lausnir eða leiðir alls staðar. Um annað geta þó allir verið sammála; fljótlegasta leiðin til að koma þessum slysavaldi út af öllum heimilum og stofnunum er að setja hitastillt blöndunartæki við allar sturtur, við öll baðker, handlaugar og vaska. Þessi tæki eru til, kosta auðvitað einhverja peninga en öryggisbelti í bílum kosta einnig eitthvað. Síðan má einnig finna skynsamlega leið til að lækka hita neysluvatnsins við inntak og þar verður að velja tæki og tækni eftir lögnum hússins, kostnaði og fyrirsjáanlegu viðhaldi og endingu.

En aftur að bókinni . Þar er úrvalið af blöndunartækjum geysimikið, raunar of mikið. Í þessari nær 100 bls. bók er fjallað um hitastýrð blöndunartæki á um 10 bls. Hins vegar er sýnt mikið úrval af handvirkum blöndunartækjum þar sem opnað er fyrir heitt og kalt vatn með sitt hvoru handfanginu og þannig reynt að fá hæfilega heitt vatn í sturtuna eða baðið. Þessi handvirku tæki eru tvenns konar, annarsvegar nýtískutæki úr smiðju heimsfrægra hönnuða og hins vegar „nostalgíutæki“, blöndunartæki sem eru að útliti eins og úr sér gengnu tækin hjá henni ömmu, nema auðvitað óslitin. Þá kemur spurningin; hver er ábyrgð seljenda, eiga þeir að halda slíkum handvirkum tækjum að kaupendum, tækjum sem geta valdið stórslysum svo ekki sé meira sagt?

Og þá kemur spurningin; á ég að gæta bróður míns?

Það er eitt athugavert við þessa bók, eitt mjög alvarlegt atriði. Þetta er bók sem orðrétt er þýdd og vissulega vel úr garði gerð. En hún er samin fyrir íbúa landa sem alls ekki búa við svo heitt kranavatn sem við Íslendingar. Á meginlandi Evrópu þekkist það ekki að kranavatnið sé svo heitt sem hér, þar er það í mesta lagi 60°C. Að nota handvirk blöndunartæki þar er ekki sama áhætta og hérlendis. Það er mikill munur á því að fá yfir sig vatn sem er 70–80°C heitt eða 50–60°C þó hvorutveggja geti valdið slysum. Það er vissulega dapurlegt að koma inn í nýjar íbúðir hjá ungu fólki sem á ung börn en lætur það samt ganga fyrir að setja upp hjá sér handvirk tískublöndunartæki, hönnuð af heimsfrægum listamönnum eða ömmublöndunartæki af því að þau eru svo sæt. Þeir ungu og nýríku geta einnig slasast á heitu vatni og ekki síður börn þeirra, þar er enginn undanskilinn.

En það verður hver og einn að bera ábyrgð á sér og sínum en innflytjendur og seljendur blöndunartækja ættu einnig að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Sem dæmi um ábyrgðarleysi seljenda má nefna að einn slíkur kom fram í sjónvarpi og sýndi hitastýrð blöndunartæki fyrir flest hreinlætistæki. En því miður klykkti hann út með því aðspurður að slík tæki gæti hver handlagin húsmóðir sett upp og tengt.

Slíkt er ábyrgðarlaust tal, seljendur verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.

Fleira áhugavert: