Bifreiðaeldsneyti hrapar – Olíuhreinsun á tímamótum
.
Janúar 2010
Olíuhreinsun á tímamótum?
Spekúlantar geta endalaust hagnast á olíunni. Í dag er hugsanlega ein farsælasta leiðin til þess, sú að sjorta bandarísk olíuhreinsunarfyrirtæki.
Það fer a.m.k. ekkert á milli mála að olíuhreinsunar-iðnaðurinn hjá hinum alræmdu olíusvolgrurum westur i Bandaríkjunum, er í tómu veseni þessa dagana. Þar má með sanni segja að skjótt skipist veður í lofti. Einungis örfá ár eru síðan flestir „sérfræðingar“ voru sammála um að til lengri tíma litið myndi notkun á bensíni og díselolíu vaxa jafnt og þétt þar vestra. Jafnvel til eilífðarnóns. Þó svo einhver hiksti myndi af og til verða í efnahagslífinu, myndi ávallt verða meiri og meiri þörf á fljótandi eldsneyti úr hráolíu. Sífellt meira myndi þurfa af bæði bensín og díselolíu.
Það var m.ö.o. svo, að sérhverjum manni þótti það vera augljóst að Bandaríkin þyrftu að styrkja enn frekar afkastagetu sína í olíuhreinsun. Þess vegna gerðu bandarísk stjórnvöld allt sem þau gátu til að liðka fyrir nýjum olíuhreinsunarstöðvum. Olíuhreinsun var einfaldlega talin vera skotheldur bissness, þar sem ekki væri hægt að tapa.
Á síðara kjörtímabili Bush var opinber stuðningur við uppbyggingu nýrra olíuhreinsunarstöðva í algleymingi. Og þó svo Bush væri líka velviljaður etanólinu, trúðu menn að það væri hreinlega ekki hægt að byggja nógu margar bandarískar olíuhreinsunarstöðvar. Það var líka talið vera mikilvægt til að stuðla að auknu orkusjálfstæði Bandaríkjanna.
Reyndar leit á tímabili út fyrir að góð rök væru að baki þessari olíuvinsamlegu orkustefnu Bush og félaga. Efnahagslífið var á blússandi ferð og menn töldu víst að það myndi kalla á aukna eftirspurn eftir eldsneyti. En í reynd stóð eftirspurn eftir fljótandi eldsneyti að mestu í stað eftir 2005, þrátt fyrir hagvöxtinn.
Og nú hefur framtíðarsýnin gjörbreyst eins og hendi væri veifað. Tækniframfarir og breytt neyslumynstur fólks tók völdin af spám sérfræðinganna og olíustefnu bandarískra stjórnvalda. Eftirspurn eftir bifreiðaeldsneyti í Bandaríkjunum hefur hreinlega hrapað síðustu misserin. Fyrir vikið er nú hverri olíuhreinsunarstöðinni á fætur annarri lokað þar vestra, allt frá New Jersey til Kaliforníu.
Það virðist lítil von um betri tíð með blóm í haga í olíuhreinsuninni. Jafnvel þrátt fyrir að efnahagslífið komist auðvitað aftur á skrið einhvern daginn, óttast margir í olíuhreinsunar-iðnaðinum að nú sé runnin upp ögurstund. Vöxtur í bifreiðaeign pr. fjölskyldu virðist kominn að endamörkum og fólk leitar í sparneytnari bíla. Þó svo kreppan muni ekki vara að eilífu, telja nú margir að bensínnotkun í Bandaríkjunum hafi einfaldlega náð hinu endanlega sögulega hámarki!
Hvort það er raunin eður ei verður barrrasta að koma í ljós. Best að fullyrða sem minnst um svo dramatískar orkuspár. En við þetta bætist síaukinn þrýstingur um hærra hlutfall etanóls í bandarískt bensín. Það mun gera olíuhreinsunarstöðvunum ennþá erfiðara að viðhalda stöðu sinni – hvað þá að bæta hana.
Í dag er afkastageta bandarísku olíuhreinsunarstöðvanna sennilega a.m.k. 5-10% of mikil. Árið 2008 féll bensínnotkun um nærri 3,5% frá árinu áður, sem er mesta fall milli ára síðan 1965! Eftirspurn eftir díselolíu féll ennþá meira eða um næstum 7% og hafa menn ekki séð slíkt síðan í kringum 1980. Og allt bendir til þess að neyslan vestra árið 2009 hafi verið ennþá minni en 2008.
Aftur á móti eru horfur á aukinni eftirspurn eftir etanóli. Obama-stjórnin leggur mikla áherslu á endurnýjanlega orku og grænt eldsneyti. Olíuhreinsunar-iðnaðurinn virðist öngvan vin eiga. Svartálfarnir þar á bæ eru líka dauðhræddir um að „kommarnir“ í Washington DC muni brátt leggja nýja skatta á kolefnislosun. Sem verði ekki aðeins til þess að minnka bensínnotkun enn frekar, heldur líka gera bandarísku olíuhreinsunarstöðvunum erfiðara að keppa við ódýrari hreinsistöðvar erlendis. Þar að auki er búist við hertum mengunarreglum, sem muni skila ennþá sparneytnari bílum og minnka bensínnotkun í Bandaríkjunum ennþá meira.
Já – græna byltingin virðist hafa yfirtekið Bandaríkin hægt og hljótt. Afleiðingin er sú að sumar olíuhreinsunarstöðvar hafa dregið verulega úr framleiðslu sinni og öðrum hefur beinlínis verið lokað! Meðan nýjar olíuhreinsunarstöðvar spretta nú upp víðsvegar um heiminn – í löndum eins og Saudi Arabíu, Indlandi og Kína – virðist allt á niðurleið í þessum bransa í Bandaríkjunum.
Árið 2008 voru bandarísku stöðvarnar einungis keyrðar á um 85% afköstum, sem er lægsta hlutfall þar í landi í heil 20 ár. Á nýliðnu ári (2009) lítur út fyrir að þetta neikvæða met hafi verið slegið á ný og afköstin séu aðeins um 75%! Þegar haft er í huga, að stutt er síðan hver einasta olíuhreinsunarstöð þar vestra var keyrð á yfir 90% afköstum, er augljóst að ekki er mikið um bros núna hjá mönnum í þessum iðnaði.
En neyðin kennir naktri konu að spinna. Fyrirtæki sem reka olíuhreinsunarstöðvar leita nú logandi ljósi að etanólfabrikkum til kaups. Aðlögunarhæfni bandaríska kapítalismans er aðdáunarverð og sennilega munu flestir koma þarna standandi niður.
Sú stefna að færa sig yfir í etanólið hefur t.d. verið áberandi undanfarið hjá Valero, sem er stærsta olíuhreinsunarfyrirtæki Bandaríkjanna. Þar á bæ hafa menn ekki aldeilis misst móðinn og eru óhæddir við að veðja á etanólið.
Þegar og ef Bandaríkjaþing afgreiðir löggjöf um E15 blöndu mun allt sem tengist etanóli einfaldlega rjúka upp í verði. Og fyrst að Valero virðist tilbúið að veðja á etanólið, er freistandi að draga þá ályktun að lobbýisminn muni virka og E15-staðall verða að veruleika. Jafnvel fyrr en seinna.
Það allra skemmtilegasta við samdráttinn í bandarísku olíuhreinsuninni er kannski það, að þetta kann að skapa Íslendingum athyglisvert viðskiptatækifæri. Orkubloggarinn hefur áður talað fyrir þeim möguleika, að hér verði framleidd íslensk lífhráolía. Vegna þess að það er sennilega besti og skynsamasti kosturinn til að framleiða innlend verðmæti úr íslenskri orku
Dýrasti bitinn í slíkri iðnaðaruppbyggingu felst sjálfsagt í því að koma upp olíuhreinsunarstöðvum. En þær verða einmitt nær örugglega á brunaútsölu í Bandaríkjunum á næstu árum. Þess vegna er hreinlega upplagt að Íslendingar grípi nú tækifærið og kaupi a.m.k. einn slíkan eðalgrip þar vestra – og flytji heim. Með þá stefnu að íslenska þjóðin verði fyrsta algerlega orkusjálfstæða þjóð veraldar; framleiði bæði allt sitt rafmagn OG allt sitt eldsneyti með hægkvæmum og þokkalega umhverfisvænum hætti. Spurningin er bara hvort fyrsta lífhráolíu-hreinsunarstöðin eigi að verða staðsett í útjaðri Keflavíkur, Grindavíkur eða Húsavíkur?