Vatn, hart eða mjúkt – Hver er munurinn?
Heimild:
September 2013
Hvort er íslenskt vatn hart eða mjúkt og hvert er sýrustig þess?
Íslenskt drykkjarvatn er með því besta sem gerist í heiminum. Það er yfirleitt efnasnautt og ekki er þörf fyrir að bæta það með hreinsiefnum. Þannig er það með vatnið á höfuðborgarsvæðinu sem sótt er í borholur Gvendarbrunna í Heiðmörk. Við þurfum að hafa í huga að kalda vatnið er okkar dýrmætasta auðlind sem við þurfum að ganga vel um og vernda þannig að hún spillist ekki og svo að hún nýtist okkur til framtíðar.
Efnainnihald vatnsins og þar með sýrustig (pH gildi) fer mikið eftir því um hvaða jarðlög vatnið streymir. Íslenskur berggrunnur er að miklu leyti byggður upp af basalti sem er bæði hraun og móberg. Í Heiðmörk er berggrunnurinn ungt basalthraun. Regn sem fellur í Bláfjöllum og á hraunasvæðin seytlar niður í hraunin og eru hraunin þannig náttúruleg síun vatnsins. Rennsli vatns um basalthraun hefur áhrif á sýrustig vatnsins. Því lengur sem vatnið rennur um basalthraun því hærra er sýrustigið, það er að segja vatnið verður basískara. Sýrustig vatnsins sem kemur úr Heiðmörk er yfirleitt á bilinu 8,8 til 9. Samkvæmt reglugerð um neysluvatn (reglugerð 536/2001) á sýrustig neysluvatns að vera á bilinu pH 6,5 til 9,5.
.
.
Harka vatns er mælikvarði á magni uppleystra efna í vatni. Aðallega er miðað við styrk kalsíns (Ca) og magnesíns (Mg) í vatninu. Styrkur þessara efna ræðst af þeim berggerðum sem vatnið streymir um. Því er algengt að vatn sem streymir um kalkstein innihaldi aukið magn kalsíns og vatn sem streymir um dólómít innihaldi meira magn af magnesíni. Eins og áður segir er berggrunnurinn á Íslandi að mestu úr gosbergi og er basalt í mestu magni. Þess vegna er styrkur kalsíns og magnesíns yfirleitt lágur í íslensku vatni og þar með er harka vatnsins lág.
Mælikvarði á hörku vatns er settur fram á mismunandi hátt. Algengast er að miða við styrk kalsíns og magnesíns í vatninu sem síðan er umreiknað í kalsínkarbónat (CaCO3); allir styrkirnir eru milligrömm á lítra vatns. Kalsínkarbónat eða kalsít er algeng útfelling úr vatni sem inniheldur mikið magn af kalsíni. Harka vatns er oft skilgreind eftirfarandi:
það er að segja
þar sem [CaCO3] er styrkur kalsínkarbónats, [Ca2+] er styrkur kalsíns og [Mg2+] er styrkur magnesíns.
Önnur framsetning á hörku er þýsk hörkugráða (d. Deutsche Härte, skammstafað °dH eða dGH). Þessi hörkugráða hefur verið skilgreind sem 10 milligrömm af CaO í lítra af vatni. Til að breyta heildarhörku í hörkugráðu þarf að deila í heildarhörkuna með 17,85 því 10 mg af CaO jafngilda 17,85 mg af CaO3, sjá jöfnu 2.
Ýmsir framleiðendur tækja og búnaðar sem nota vatn eru með leiðbeiningar þar sem miðað er við hörku vatns eða hörkugráðu. Það er mismunandi hvernig talað er um hörku, en til viðmiðunar má nota gildin í Töflu 1.
Tafla 1. Harka og hörkugráða vatns.
Hörkuflokkur | Harka (mg CaCO3/L vatns) | °dH eða dGH |
---|---|---|
Mjög mjúkt vatn | 0-70 | 0-4 |
Mjúkt vatn | 70-140 | 4-8 |
Aðeins hart vatn | 140-210 | 8-12 |
Miðlungs hart vatn | 210-320 | 12-18 |
Hart vatn | 320-530 | 18-30 |
Mjög hart vatn | >530 | >30 |
Eins og áður segir er styrkur kalsíns og magnesíns yfirleitt mjög lágur hér á landi og þar með harkan lítil. Meirihluti af vatni á Íslandi fellur undir það að vera mjög mjúkt.
Upplýsingar um efnainnihald neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu og hjá vatnsveitum sem Orkuveita Reykjavíkur rekur má finna í viðaukum í umhverfisskýrslu Orkuveitunnar.
.
Heimildir:
- Hard water – Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 02.03.2013).
- Hardness. (Skoðað 02.03.2013).
- Water Hardness. (Skoðað 02.03.2013).
- Water hardness | Grundfos. (Skoðað 02.03.2013).
- Scheel’s Letters: Oryzias javanicus – Scheel27.pdf. (Skoðað 02.03.2013).