Fortíðarhyggja, sagan – Kolaketill, Kamar, ponta

Grein/Linkur: Tækni, tíðarandi og fortíðarhyggja

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Febrúar 2001

Tækni, tíðarandi og fortíðarhyggja

Maðurinn er skrítin skepna var einhvern tíma sagt og það er hann með réttu. Við dáum framfarir, nýja tækni, nýjar græjur og verðum að eiga það nýjasta og besta hvort sem það er bíll, sjónvarp eða, ja, nefnum það bara.

Yngri kynslóðinni þykir ýmislegt furðulegt í lífi afa og ömmu, það litla sem hún veit um það, jafnvel þekkir hún ekki hvernig lífið var þegar pabbi og mamma voru ung.

En inn á milli glittir í fortíðarhyggjuna, stundum verður eitthvað, sem fram að þessu hefur verið ósköp „hjö“, svolítið spennandi, hvort sem það er gamall bíll eða gamalt blöndunartæki.

En hefur yngri kynslóðin reynt að setja sig í spor afa og ömmu? Tæplega, líklega verður það ekki fyrr en unga kynslóðin er orðin afi og amma að áhugi fyrir fortíðinni og upprunanum vaknar fyrir alvöru.

Ponta í brunn

Ekkert er sjálfsagðara en að silfurtært drykkjarvatn renni úr krana hvenær sem þorstinn kallar, þannig er það víðast hvar á landinu (já meira að segja á Ísafirði eftir að fossinn fannst í göngunum).

En áður fyrr var þetta ekki svo einfalt, sú var tíðin að það var meira að segja munaður að eiga eða hafa aðgang að brunni með góðu drykkjarvatni og það var kúnst að ná vatninu upp með fötu sem kölluð var ponta, oftar gerð úr tré eða blikki. Í kilp pontunnar var bundinn vaður og kúnstin var að steypa henni niður í brunninn þannig að hún kæmi niður á hvolfi og fyllti sig af vatni, síðan var hún dregin upp af handafli, á betri bæjum jafnvel með vindu.

Síðan komu spjalddælurnar, en þá þurfti leiðslu frá þeim niður í vatnið með botnventli neðst til að leiðsla og dæla væru stöðugt fullar af vatni. Síðan var dælt með því að færa handfangið fram og til baka aftur og aftur.

Þá rann vatn úr dælustútnum, þvílík tækni og framför.

Kamarinn var lúxus

Hann var klósett síns tíma og var skjól á köldum vetrardögum, sumstaðar var ekki einu sinni til kamar, menn gerðu stykkin sín undir kofavegg eða í einhverju öðru skjóli.

Og nýtnin var einstök, kamarinn var alltaf settur yfir hlandforina þar sem sameinaðist það sem frá mönnum kom og það sem frá kúnum kom í fljótandi formi. Þar með varð til magnaðasti áburður sem völ var á, það sem upp af því spratt var svo sannarlega „lífrænt ræktað“, aldrei voru gulrófurnar gómsætari en ef þær fengu þetta ágæta viðurværi, enginn tilbúinn áburður, engin eiturefni til að bana nauðsynlegum skordýrum.

Kolaketill og hitakútur

Miðstöðvarkerfið var mikil tækninýjung á sínum tíma og kolaketillinn hvarf ekki að fullu fyrr en á seinnihluta síðustu aldar.

Ekki var það minni framför þegar hagir menn fóru að smíða hitakúta sem í var leitt kalt vatn sem út kom heitt. Þessa kúta smíðuðu ágætir járn- og blikksmiðir, innflutningshöft voru í algleymingi svo ekki óttuðust menn samkeppni erlendis frá, til munu vera menn enn í dag sem sakna þeirra tíma.

Sem betur fer er þetta liðin tíð, en samt er svo ótrúlega skammt síðan þetta var bláköld staðreynd, húsmæður báru inn vatn í skjólum, fóru ofan fyrstar á hverjum morgni, hreinsuðu ösku úr miðstöðvarkatli og kveiktu upp.

Og kamarinn er horfinn, enginn verður framar kaldur á botni á því örnasetri.

Fleira áhugavert: