Framleiðni – Af hverju tapaði ég á þessu verki!

Heimild:  LAFI1

.

framleidni

Janúar 2014

Af hverju tapaði ég á þessu verki?  Hver er framleiðnin?

Sveinn Áki Sverrisson

Sveinn Áki Sverrisson

Mannvirkjageirinn á Íslandi er sú atvinnugrein þar sem framleiðni er slökust, slysatíðni mest og ágreiningur algengastur. Rannsóknir sýna að 1/3 tímans sem iðnaðarmaður er á byggingarstað fer í að vinna verkið (framleiða), 1/3 í undirbúning og 1/3 í að bíða eða vinna upp galla eftir sig eða aðra. Aðrar tölur sýna að 50% tímans sem iðnaðarmaður er á vinnustað fer í virðisaukandi vinnu. Ástæður eru nokkrar og mjög mismunandi á milli verkefna þó verkefnin séu svipuð. Þar ber hæst slök skipulagning, verið að vinna verk sem ekki er fullhannað, hönnun slök, skilning á annara vinnu lítill, verklag samskipta milli hönnuða og verktaka illa skilgreint og verktími óraunsær svo eitthvað sé nefnt

Til að auka framleiðni er hægt að gera á tvennan máta. Fækka aðföngum sem notuð eru eða auka verðmæti vinnunnar. Hægt er að horfa í að fækka vinnustundum sem notaðar eru, bæta núverandi vinnulag og tækni, eða taka í notkun nýja og betri tækni. Í framtíðinni má búast við að meiri tími fari í öryggismál og gæðamál en að sjálfs sögðu ber ekki að líta á það sem vandamál heldur taka því fagnandi. Því er oft haldið fram að verktakar og hönnuðir vita ekki af hverju þeir tapa á verkum. Hvort var það vegna tilboðsupphæðar (vanmat), vinnulags (skipulags) eða að þeir gleymdu að reikna með verkþáttum í tilboðsgerð (vitlaust umfang). Góða skráningu eða gerð virðisferla þarf til til að sjá hvort ástæðan sé vinnulagið en aðra þætti má oft finna auðveldlega. Verkefnið hefst með tilboðsgerð,áætlun eða samkomulagi milli aðila og sá grunnur þarf að vera góður og réttur nema að samkomulag sé um annað. Að gera raunhæft tilboð er erfitt ef gögnin sem vinna á eftir eru léleg, verkinu illa lýst og mikið um háa heildarliði.

Gerð verklýsinga – sameiginleg grunnlýsing

Við byggingu húss er alltaf áhugavekjandi að vita hvar eru sérstakir verkliðir eða óvenjulegar lausnir.Í þessum verkþáttum eða lausnum liggur óvissa með verktíma og verð. Þetta gildir fyrir alla sem koma að verkinu, hönnuði sem iðnaðarmenn sem hafa reynslu af byggingaframkvæmdum. Aðrir verkþættir eru með stöðluðum kröfum. Ef þeir sem gera verklýsingar tilkynntu það fyrirfram hvað liðir þetta væru þá ættu bjóðendur möguleika á að eyða tilboðstíma í að greina þessi atriði betur en væru á grænu ljósi með venjulegu verkþættina. Líklega hugsa margir í þessa áttina en verða svo fyrir barðinu á „óvenjulegum“ atriðum í venjulegum verkþáttum.

Staðlaðar kröfur í verkýsingum má gera sameiginlegar með hagsmunaaðilum í Mannvirkjagerð og nota til þess tilvísanir í Rb-blöð, leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar og staðla. Þó þarf að gera skurk í þessum tilvísunum sem eru ótraustar. Dæmi um tilvísanir sem hægt er að nota á lagnasviði eru Rb-blöð um plastlagnakerfi, merkingar, þerrilagnir og hjá Mannvirkjastofnun um stiglagnir og fl. Aðalatriði er að flokkað sé eftir sérlýsingu og grunnlýsingu og bjóðandi geti treyst því. Ef flokkun er ekki rétt þá gefur það tilefni til aukaverka. Nokkrar verkfræðistofur eru með vísi af þessari hugsun í dag.

Dæmisaga og erlend reynsla

Fyrir nokkrum árum tíðkaðist það hjá opinberum útboðsaðila að hafa í lok hvers kafla í verklýsingu verklið sem hér Annað. Magntölueiningin var „heild.“ Skýring á þessum verklið var að hann átti að innihalda alla þá vinnu og efni sem tilheyrir verkinu sem ekki koma fram í öðrum verkliðum og eru sannanlega hluti af verkinu. Ég held að við séum komin aðeins lengra í dag. Sú reynsla sem menn fá að vinna með erlendum aðilum gæti einnig skilað sér en þar eru menn á bæ komnir lengra hvað þetta varðar.

Fleira áhugavert: