Bólivía – Liþíum, rafbílavæðing

Grein/Linkur: Fangarnir í Sólhofinu

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Mynd – wikipedia.org 5.07.2022

.

Maí 2009

Fangarnir í Sólhofinu

Sumir trúa því að rafbílavæðing eigi eftir að skapa risaiðnað. Ef það gerist má telja víst að eftirspurn eftir liþíum stóraukist. Vegna þess einfaldlega að sá málmur þykir hentugastur í létta og öfluga rafgeyma og honum fylgir þar að auki minni mengun en frá ýmsum örðum rafgeymum. Ef rafbílavæðingin fer af alvöru á skrið má búast við að það verði hreinlega allt vitlaust í liþíum-iðnaðinum.

Chevrolet_Volt

Chevrolet_Volt

Auðvitað veit enginn fyrir víst hvernig  bílaiðnaðurinn mun þróast. En það er vissulega margt sem bendir til þess að stóru bílaframleiðendurnir ætli sér margir að veðja á rafmagnsbíla. Þó svo Orkubloggarinn myndi frekar veðja á lífefnaeldsneytið, sem framtíðareldsneyti fyrir fólksbíla, er augljóst að rafmagnsbílar verða einn þáttur í þróuninni. Það verður svo barrrasta að koma í ljós hvaða tækni mun verða hlutskörpust.

Og jafnvel þó svo rafbílavæðingin verði ekki það ofurævintýri sem ýmsir búast við, mun notkun liþíums væntanlega samt halda áfram að aukast frá því sem nú er. Með útbreiðslu farsíma og fartölva hefur eftirspurnin eftir liþíumi snaraukist. Fartölvur eiga eftir að verða enn útbreiddari og smá saman munu tæki í anda Blackberry og iPod verða æ algengari.

Bolivia_lithium_map

Bolivia_lithium

Já – það verður sífellt meiri þörf á léttum og öflugum rafhlöðum. Þess vegna horfa menn nú mjög til þeirra landa sem búa yfir stærstu liþíum-birgðunum, með það í huga að tryggja sér aðgang að þeim auðlindum.

Einhverjar mestu liþíumnámur heims eru í Chile, eins og Orkubloggið hefur minnst á í fyrri færslu um ljúflinginn Julio Ponce Lerou, tengdason hins alræmda einræðisherra Augusto Pinochet, ogfyrirtæki hans Sociedad Química y Minera de Chile (SQM). Tíbet (Kína) er einnig á mikilli uppleið í framleiðslu á liþíum og verulegar liþíum-námur eru einnig í Argentínu.

Langmestu liþíum-birgðirnar er aftur á móti að finna á saltstorknum Andeshásléttum Bólivíu. Svæðið heitir því sérkennilega nafni Salar de Uyuni –  er hátt í 10 þúsund ferkm að flatarmáli og liggur í hvorki meira né minna u.þ.b. 3.600 metra hæð. Þar á bólivísku hásléttunni er talið að finna megi meira en helminginn af öllum liþíumbirgðum jarðar!

Lithium_Bolivia_stacks

Lithium_Bolivia_stacks

Um þetta er vissulega talsverð óvissa; það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að menn hafa lagst í vinnu við að meta þessa auðlind af einhverju viti. Sennilega er ekki fjarri lagi að áætla að í Uyuni-saltauðninni séu alls um 5-6 milljón tonn af liþíum – sem er meira en 10 sinnum meira en í Bandaríkjunum öllum. Heildarbirgðir heimsins af liþíum hafa verið áætlaðar um 11 milljón tonn. Þó er ekki útilokað að þær séu talsvert meiri og hafa verið nefndar tölur allt að 30 milljón tonn.

Bolivia_Salar de Uyuni_Lithium

Bolivia_Salar de Uyuni_Lithium

Í reynd er allsendis óvíst hversu nákvæmar þessar tölur eru. En til að setja þetta í eitthvert samhengi, þá mun árseftirspurnin nú um stundir vera um 16 þúsund tonn af liþíum. Óbreytt notkun myndi sem sagt þýða að enn er nóg liþíum til að fullnægja eftirspurninni óralengi. En þörfin fyrir meira liþíum eykst gríðarlega hratt og ef villtustu spár rætast telja sumir að birgðirnar dugi einungis í örfáa áratugi. Ef það reynist rétt yrði rafmagnsbíllinn hálfgerð sneypuför.

Talsmenn Mitsubishi hafa lýst því yfir að liþíumvinnsla í Uyuni sé alger forsenda þess að stórfelld rafbílavæðing geti orðið að veruleika. Núverandi liþíum-námur muni tæmast á einungis tíu árum ef ekki komi til ný vinnslusvæði. Ef Toyota Prius, Chevrolet Volt eða aðrir rafmagnsbílar eigi að verða að þeim raunveruleika sem stefnt er að, sé afar mikilvægt fyrir allan bílaiðnaðinn að fá liþíum frá Bólivíu.

morales_fancy

morales_fancy

Nú vill svo skemmtilega til að í Bólivíu ríkir ljúflingurinn Evo Morales. Sem er ekki beint besti vinur Bandaríkjanna eða bandaríska bílaiðnaðarins; telst fremur í hópi með þeim Castro á Kúbu og Hugo Chavez í Venesúela. Eitt af því fyrsta sem Morales kallinn gerði þegar hann komst til valda var að þjóðnýta hinar gríðarlegu gas- og olíulindir landsins – BP og fleiri olíufélögum til mikillar armæðu.

Ekki veit Orkubloggarinn hvort Morales er af ættum Inka – það er kannski ólíklegt enda er hann Bólivíumaður en ekki frá Perú. En indíánablóðið leynir sér ekki. Og Morales er örugglega meðvitaður um niðurlag innfæddra fyrir Spánverjum fyrr á tíð og ekki síður minnugur þess hvernig samstarfsmenn bandaríkjastjórnar drápu Che Guevara einmitt í Bólivíu. Þar var Che að útbreiða ekki ósvipuð sannindi og Morales sjálfur stendur fyrir.

Che_dead

Che_dead

Það er því ekki beint líklegt að Morales muni hleypa bandarískum – eða vestrænum fyrirtækjum yfirleitt – í hinar svakalegu liþíum-auðlindir, sem hvíla á saltstorknum hásléttum Bólivíu. Che á betra skilið en að við fjárans kapítalistarnir í vestrinu komumst yfir þá einstöku auðlind.

Og Morales er einnig minnugur þess hvernig minnstu munaði að bandaríski efnarisinn FMC Corporation kæmist yfir liþíum-auðlindir Bólivíu fyrir einungis u.þ.b. 15 árum. Það er fyllsta ástæða fyrir Evo að vera á varðbergi.

Bolivia_Uyni_mine

Bolivia_Uyni_mine

Risasamsteypur eins og Mitsubishi og Sumitomo gera engu að síður augljóslega ráð fyrir því að aðgangur að liþíum eigi eftir að skipta miklu. Þessi fyrirtæki hafa undanfarið verið að gera hosur sínar grænar fyrir hinum stolta indíána Morales og félögum hans. Japönsku fyrirtækin eru hvað lengst komin í að þróa hagkvæmar liþíum-jóna rafhlöður fyrir rafmagnsbíla og rafmagnshjól og nú horfir bandaríski bílaiðnaðurinn fölur upp á það hvernig Japanarnir koma sér í mjúkinn hjá Morales, meðan kallinn fussar og sveiar yfir bandarísku kapítalistasvínunum.

Che Guevara 

Já – Morales og verkalýðsleiðtogarnir hans eru fullir tortryggni gagnvart hinum gamla risa kapítalismans. Sporin hræða; í fjölda áratuga hafa bandarísk fyrirtæki makað krókinn á auðlindum Bólivíu, hvort sem er gúmmí, tin, silfur, gull, gas eða olía. Nú vilja Bólivíumenn sjálfir ráða hvernig fer með liþíum-auðlindina. Þess vegna lofaði Morales því fyrir forsetakosningarnar síðustu, að öll liþíum-námavinnslan í Bólivíu skyldi verða í eigu landsmanna (ríkisins).

Lykilatriðið í þessari stefnu er í raun að liþíumið verði ekki flutt út úr landinu eins og hvert annað hráefni. Bólivíumenn vilja tryggja að virðisaukinn sem t.d. myndast við framleiðslu liþíum-jóna rafgeyma verði eftir í landinu. Af hverju ættu Bólivíumenn að láta heiminn fá þetta hvíta töfraduft til að leika sér með og skapa arð langt utan Bólivíu?

Bolivia_Salar de Uyuni_FLOODED

Bolivia_Salar de Uyuni_FLOODED

Kannski er mögulegt að leysa málið með því að rafbílaiðnaðurinn eins og hann leggur sig haldi einfaldlega til Bólivíu. Vandamálið er bara að fjárfestum þykir afar ótryggt að byggja verksmiðjur sínar þar, vegna stjórnmálalegs óstöðugeika. Þar að auki er Bólivía landlukt og ekki á vísan að róa með aðgang að t.d. höfnum í Chile.

Loks verður reyndar alls ekki hlaupið að því að vinna þetta geggjaða magn af bólivísku liþíumi – jafnvel þó svo Morales væri allur af vilja gerður. Vegasamband við hásléttuna er afar bágborið og úrkoma kaffærir flata sléttuna á örskömmum tíma.

Bolivia_Salar de Uyuni_Worker

Bolivia_Salar de Uyuni_Worker

Það eru sem sagt margar ástæður fyrir því að jafnvel öflug námafyrirtæki eins og t.d. chileanska SQM eru ekkert voða spennt fyrir því að skella sér til Bólivíu (SQM ræður yfir gríðarlegum liþíumnámum í Chile)

Ennþá er allsendis óvíst hvernig staðið verður að liþíumvinnslu í Bólivíu. Fram til þessa hafa menn eingöngu verið að stússa þarna i saltvinnslu, en liþíumið verið látið eiga sig.

Nýlega tilkynnti Morales um að ráðist yrði í tilraunvinnslu í nágrenni við þorpið Rio Grande við útjaðar Uyuni saltauðnarinnar. Það verkefni kallar á um 6 milljón dollara fárfestingu og framleiðslan þarna í hvíta vítinu á að vera byrjuð fyrir næstu áramót. Hæpið er að atvinnulausir Mörlandar þyrpist þangað í vinnu – ætli hitinn yfir sumarið fari ekki hátt í 40 stig og vetrarfrostið niður i -20 stig. Ekki alveg Pardís á jörðu.

Tintin-LeTempleduSoleil

Tintin-LeTempleduSoleil

Það er óneitanlega hálf skondið að rafbílarnir, sem eiga að minnka þörf Bandaríkjamanna á arabískri olíu, munu líklega gera bandaríska bílaiðnaðinn háðan stjórnvöldum í Kína og Bólivíu. Þetta mætti kannski kalla að fara úr öskunni i eldinn? Þetta er a.m.k. ein helsta ástæða þess að Orkubloggarinn er efins um að rafbílavæðing eigi eftir að verða jafn umfangsmikil hér á Vesturlöndum eins og sumir eru að spá.

Nema Kanar vilji fremur verða fangar í Sólhofinu, en að þurfa sífellt að vera að sleikja upp gjörspillta ráðamenn Saudi Arabíu. Í því ljósi er kannski mun betri kostur að rækta samband sitt við indíánana í La Paz. Og svo er auðvitað aldrei að vita nema kapítalisminn nái að lokum kverkataki á bólivíska ríkisnámufyrirtækinu COMIBOL. Annað eins hefur nú gerst í heiminum, þar sem blessaðir bandarísku ljúflingarnir eru á ferð. En kannski er þetta einmitt það sem Morales hræðist mest – og vill þess vegna fara varlega.

Fleira áhugavert: