Glencore International – Hrávörurisi, sagan

Heimild:   Orkubloggið

.

Apríl 2010

Gullmyllan Glencore

Það er stundum talað um að íslensku orkufyrirtækin mali Mörlandanum gull.

Hvort það er rétt eður ei, þá eru hinir einu sönnu gullgerðarmenn af öðrum toga. Sem dæmi þar um má nefna demantafyrirtækið De Beers, sem alla 20. öldina var með nánast algera einokun í demantaviðskiptum veraldarinnar. Þar má svo sannarlega tala um fyrirtæki sem malar gull. Eða jafnvel enn frekar ljúflingarnir hjá svissneska hrávöru-risanum Glencore International. Þeir geta næstum því talist vera jafnokar Mídasar konungs.

Glencore International er án efa bæði einhver öflugasta og alræmdasta gullmylla veraldarinnar. Það var bandaríski svaðatöffarinn Marc Rich (f. 1934) sem stofnaði Glencore árið 1974, eftir að hafa stórgrætt á olíuviðskiptum sem honum tókst að gera framhjá hafnbanni OPEC í olíukreppunni alræmdu. Rich var þá kominn með dágóða reynslu af hrávöruviðskiptum hjá öðrum góðkunningja Orkubloggsins; nefnilega hrávörumeistaranum Phibro. Þar sem nú ræður ríkjum listaverkasafnarinn Andrew Hall.

marc-rich_glencore.jpg

marc-rich_glencore

Glencore varð fljótlega eitthvert árangursríkasta fyrirtæki heims í gjörvöllum hrávörubransanum. Og í dag er Glencore talið vera í hópi tuttugu tekjuhæstu fyrirtækja veraldar! Þá eru vel að merkja ÖLL fyrirtæki á jörðu hér talin með; hvort sem þau eru skráð á hlutabréfamarkað, í ríkiseigu eða í einkaeigu. Af þeim öllum er Glencore meðal þeirra stærstu – og það langstærsta í einkaeigu.

Á þeim tíma sem Marc Rich var að byggja upp Glencore hét það vel að merkja öðru nafni eða einfaldlega Marc Rich & Co ehf! Það fékk núverandi heiti sitt 1994. Þessu risastóra hrávörufyrirtæki hefur oft verið lýst sem einhverju dularfyllsta kompaníi hér á jörðu. Aðalskrifstofurnar eru í smábænum Baar í Zug-kantónuninni sérkennilegu í Sviss. Þær láta lítið yfir sér, en það eru nokkuð villandi rólegheit; Glencore er með skrifstofur um allan heim og með um 2 þúsund starfsmenn. Og hjá iðnfyrirtækjum í eigu Glencore vinna meira en 50 þúsund manns.

Glencore stundar ekki síst viðskipti á svæðum sem engir aðrir hætta sér inná. Hjá fyrirtækinu felast daglegt störf t.d. í því að kaupa og reka gullnámu í Kongó eða að nálgast dularfulla úransölumenn og sigla með flutningaskip fullt af úrani um sjóræningjaslóðir á Adenflóa. Ef þú lesandi góður ert á ferð á um svæði, þar sem saman fer hrávöruframleiðsla og mjög sérstakar aðstæður sem bjóða upp á gífurlega hagnaðarvon, er eins víst að þú rekist á einhverja jaxla frá Glencore. Þetta gæti verið á hrörlegum bar í myrkviðum Mið-Afríku, við vegamót ógreinilegra bílslóða í saltstorknum eyðimörkum Bólivíu eða… eða í kerskála álversins á Grundartanga! Þar sem peningalyktin er óvenju sterk, þar eru menn frá Glencore líklegir til að vera í nánd.

glencore-platinum-africa.jpg

glencore-platinum-afric

Og hjá Glencore eru menn í raunverulegum viðskiptum, en ekki bara í einhverju fjárans verðbréfabraski. Meðan fölir pappírstígrar sitja við skrifborðin sin í háhýsum stórborganna og kaupa og selja allskonar samninga um olíu og aðrar hrávörur gegnum tölvuna sína, þá er Glencore í því sem Orkubloggið kallar alvöru áþreifanlegan bissness. Með skip, skóflur og trukka! Þar á bæ kaupa menn t.d. raunverulega olíu, koma henni á tankskip, sigla með hana útí heim og selja stöffið til þeirra sem greiða hæsta verðið.

Á meðan á öllu þessu stendur er ekki óalgengt að olían – eða önnur hrávara sem er í höndum Glencore – skipti mörgum sinnum um eigendur. Vel að merkja milli fyrirtækja sem öll eiga það sameiginlegt að vera í eigu Glencore-samsteypunnar. Fyrir vikið geta menn þar a bæ algerlega ráðið því hvar hagnaðurinn myndast eða hvar viðeigandi tap er búið til. Og gert það nánast gjörsamlega vonlaust fyrir nokkurn grájakkafata-embættismann að komast að því hvaðan hrávaran er ættuð eða hvernig eigi að skattleggja hagnaðinn. Enda hafa Marc Rich og strákarnir hans náð að raka saman óheyrilegum fjármunum, rétt eins og Glencore búi í veröld þar sem er eilíf brakandi heyskaparstemning og aldrei neitt haust. Hvað þá vetur. La dolce vita!

glencore_peru_doerun_smelter.jpg

glencore_peru_doerun_smelter

Þetta er sá hluti hrávörubransans sem t.d. stóru olíufélögin á hlutabréfamörkuðunum neyðast til að sneiða hjá. Af því að ef þau verða uppvís að vafsömum olíuviðskiptum við Íran eða að flytja olíu til Norður-Kóreu, þá eru þau  Mulder & Scully   samstundis mætt á svæðið með handjárnin. Bandarísku, bresku og frönsku olíufélögin þurfa að uppfylla viðeigandi löggjöf – og bara rannsókn ein og sér gæti leitt til dramatískra áhrifa á hlutabréfaverðið og jafnvel gjaldþrots slíkra fyrirtækja. Þau verða m.ö.o. almennt að halda sig innan gráa svæðisins.

Marc Rich og lærisveinar hans lifa aftur á móti mun utar á jaðrinum – nánast á mörkum raunveruleikans. Þeir láta ekki einhvern vafa um hinn leiðinlega ramma laganna koma í veg fyrir ábatasöm viðskipti. Og svo skemmtilega vill til, að það virðist skila mönnum óvenjulega miklum hagnaði. Þannig koma menn upp raunverulegri gullmyllu.

Stundum reynist slíku fólki þó erfitt að halda sig réttu megin við óljósu línuna yst á gráa svæðinu. Marc Rich fékk soldið subbukusk á hvítflibbann þegar hann árið 1983 mátti flýja heimalandið undan bandarísku réttvísinni. Tilefnið var að saksóknarar hugðust draga hann fyrir dóm fyrir meiriháttar skattsvik og ólögleg olíaviðskipti við klerkastjórnina í Íran. Alltaf tómt vesen með þessa kontórista, sem aldrei geta unað mönnum velgengninnar.

marc-rich_wanted.jpg

marc-rich_wanted.

Sem kunnugt er rauk olíuverð upp úr öllu valdi þegar Khomeini og klerkarnir steyptu stjórn Íranskeisara og tóku völdin í þessu svakalega olíuríki árið 1979. Starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Tehran voru teknir í meira en árslanga gíslingu og Persaflóinn varð eldfimasta svæði jarðarinnar þessi ár 79-80.

Meðan Carter hnetuforseti reyndi árangurslaust að ná sendiráðsfólkinu heilu og höldnu heim frá Tehran, notaði Rich tækifærið. Hann sá litla ástæðu til að gera of mikið úr viðskiptabanni á Íran og tókst að kaupa þaðan mikið magni af olíu og selja hana á margföldu verði. Það undarlega er að margt bendir til þess að Ísrael hafi keypt stóran hluta af þessari olíu, sem Glencora hafði útvegað frá höfuðóvinunum í Íran. Tvískinnungurinn hjá ísraelskum stjórnmálamönnum er óneitanlega skemmtilegur. Marc Rich er einmitt af gyðingaættum og hefur ávallt verið í sérlega nánum tengslum við stjórnvöld í Ísrael. Afgangurinn af klerkaolíunni er sagður hafa farið til aðskilnaðarstjórnarinnar í Suður-Afríku og eftir stóðu Marc Rich og félagar hans hjá Glencore með litla tvo milljarða USD í hagnað. Snyrtilegur díll.

Eftir flóttann frá Bandaríkjunum 1983 settist Rich að í Sviss, lét fyrirtækið heima í Bandaríkjunum semja um greiðslu vegna skattsvikamálsins og hélt áfram hrávöruviðskiptum sínum frá hinum þægilega leyndarhjúp sem umlykur fyrirtækjarekstur í Sviss. Þar dílaði hann áfram með hrávörur frá Íran, Súdan og öðrum eldfimum afkimum veraldarinnar og seldi hæstbjóðendum. Meðal ljúfra kaupendanna voru bæði aðskilnaðarstjórn hvíta minnihlutans í Suður-Afríku, feðgarnir furðulegu í Norður-Kóreu og ýmsir aðrir sem vantaði hefðbundið hrávörustöff en fengu ekki gegnum venjulegar leiðir. Nei – það geta ekki allir skroppið í Orkuna eða Bónus. En Marc Rich var ávallt tilbúinn að uppfylla þarfir hæstbjóðenda, enda er það jú grunnhugsunin í blessuðum kapítalismanum.

time_khomeini-cover-1987.jpg

time_khomeini-cover-1987

Það voru viðskiptin við Khomeini og klerkana í Íran og sala á olíu þaðan til Suður-Afríku og Ísrael sem sköpuðu Marc Rich og félögum hans ofboðslegan auð á örskömmum tíma. Annað ámóta gullið tækifæri fékkst svo þegar viðskiptabann var sett á annan risaolíuframleiðanda; Írakið hans Saddam's Hussein. Þar sáu Marc Rich og strákarnir hans sér leik á borði; Saddam var æstur í að selja olíu á slikk og mun hafa fengið þægilega „þóknun“ fyrir, sem rann inn á leynireikninga hans í Sviss og víðar.

Kaupandinn fékk þannig olíu frá risalindum Saddam's á algerum spottprís, sigldi með hana nokkra hringi og eftir fáeinar laufléttar umskipanir var olían komin í hreinsunarstöðvar í Bandaríkjunum eða Frakklandi. Og nokkru síðar sem bensín eða díselolía á dælurnar í New York, Oxford, París eða á Ártúnshöfða. Þannig streymdi olían frá Írak á vestrænu markaðina þrátt fyrir viðskiptabannið. Beint frá Hussein í Hafnarfjörðinn; getur varla betra verið. Og Marc Rich stóð undir nafni og stórgræddi á öllu saman.

Þetta síðastnefnda brask með Íraksolíuna fór reyndar ekki í gegnum Glencore, enda var Rich þá búinn að „selja“ það risafyrirtæki til æðstu stjórnendanna. Það gerðist 1994, á þeim tíma þegar bandarísk stjórnvöld voru á fullu að reyna að finna leiðir til að stinga hann með svefnlyfs-sprautu, koma honum í flugvél og heim fyrir bandarískan rétt. En þó svo Marc Rich hafi ekki haft nein formleg tengsl við Glencore í meira en 15 ár, eru stjórnendur Glencore þó oftast einfaldlega kallaðir skósveinar Rich. Og margir sem vilja meina að hann hafi ennþá tögl og haldir innan Glencore.

Glencore er stórt fyrirtæki. Mjög stórt. Árið 2009 velti það meira en 100 milljörðum dollara og meira en 150 milljörðum dollara hrávöruárið góða 2008! Það jafngildir öllum fjárlögum íslenska ríkisins í meira en aldarfjórðung. Og þetta er vel að merkja fyrirtæki í einkaeigu. Það er í eigu tiltölulega fámenns hóps manna sem hafa gríðarleg áhrif á hrávörumarkaði heimsins, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og þetta er langstærsta einkafyrirtæki í heiminum – er hvergi skráð á hlutabréfamarkað og er af þeim sökum gjarnan kallað stærsta og voldugasta leynifélag veraldarinnar.

deripaska_pointing.jpg

deripaska_pointing

Svona öflugt fyrirtæki hefur áhrif víða. Og það mikil áhrif. Þannig er t.d. ólígarkaveldið, sem varð til eftir fall  Sovétríkjanna, af sumum sagt vera hreint sköpunarverk Marc Rich og Glencore (og að Jeltsín hafi bara leikið með). Það kann að vera orðum aukið, en það er staðreynd að álarmur Glencore hefur verið í miklum bissness með Rusal. Sem er núna stærsta álfyrirtæki heims – og aðaleigandi Rusal, Oleg Deripaska, er einmitt sagður vera einn af bestu vinum Rich.

Deripaska er reyndar ekki aðeins góður kunningi Marc Rich og einhver valdamesti maður heimsins í álbransanum, heldur er hann einnig í náðinni hjá sjálfum Pútín. Svo skemmtilega vill líka til að annar góðvinur Deripaska, hinn bráðungi Nataníel Rothschild, hefur verið duglegur undanfarið að kaupa bæði hlutabréf í Rusal og skuldabréf útgefin af Glencore. Niðursveiflan í efnahagslífinu eftir metárin 2007-08 hefur valdið báðum þessum risafyrirtækjum talsverðum búsifjum. Þetta brall Rotskildans hefur vakið grun um að Rusal og Glencore kunni að fallast í faðma fyrr en síðar – ef ekki formlega þá a.m.k. eiga mjög náið samstarf. Það ætti því kannski ekki að koma neinum á óvart, ef álverin innan Glencore yrðu brátt seld eða sameinuð Rusal. Þar á meðal er einmitt íslenska Norurál.

glencore_world_operations.jpg

glencore_world_operations

Já – Glencore stundar veruleg viðskipti hér á Íslandi. Jafnvel þó svo Norðurál sé bara hálfgert peð í risatafli Glencore, þá hlýtur gula örin, sem bendir á Ísland á heimskortinu af vef Glencore, að fylla okkur bæði stolti og æsingi yfir því að vera þannig á fullu með í ofurhringekju þungaiðnaðarins. Og fá þannig  að hirða nokkra þurra mola, sem falla af gylltum diskum Glencore. Hvort það eru nógu margir molar til að við getum sagt virkjanirnar okkar mala gull, er svo önnur saga.

Sem kunnugt er, þá er Norðurál í eigu fyrirtækis sem kallast Century Aluminum og er til húsa í snotra strandbænum Monterey vestur í Kaliforníu. Þar sem tunglið speglast í Kyrrahafinu eins og fallegur ostur og ekkert er fjarlægara huganum en stóriðja eða þungaiðnaður. Uppaflega var Century Aluminum stofnað í kringum álpakkann innan Glencore og var þá að sjálfsögðu í 100% eigu Glencore. En fljótlega var svo boðið út nýtt hlutafé í Century og í dag á Glencore „aðeins“ 44% í þessu s.k. móðurfélagi Norðuráls. Sem er þó nægjanlega mikill eignarhluti til að allar ákvarðanir um Norðurál eru alfarið háðar vilja Glencore.

marc_rich-cgar.jpg

marc_rich-cgar

Frá hnotuviðarklæddum skrifstofum Century, við undirleik Kyrrahafsbrimsins, eru skipulagðir hrávörusamningar innan þröngs fyrirtækjahóps með það að leiðarljósi að hámarka afkomu Glencore. Gildir það jafnt um súrálið sem og álafurðirnar frá Grundartanga og öðrum álverum undir hatti Century og Glencore. Allt gerist þetta í nánu samstarfi við fyrirtæki eins og BHP Billiton, sem er stærsta málmafyrirtæki veraldar og á gríðarleg viðskipti við fyrirtæki í eigu Glencore.

Þannig myndast þessi líka fína gullgerðarmylla, sem mun vonandi tryggja að Glencore verði áfram flottasti gæinn í Hvalfirðinum. Og fái jafnvel líka orku fyrir Helguvík. Hvað eru nokkur hundruð megavött á milli vina?

Hvort Norðurál verður áfram undir hatti Glencore eða fer yfir til Rusal, skiptir okkur Íslendinga auðvitað engu. Af því við erum sannfærð um að virkjanirnar mali okkur gull og að hvorki Glencore né Rusal muni eiga roð í snjalla samningamenn OR eða Landsvirkjunar. Þó svo í ljósi sögunnar sé ansið hætt við því að það sé Glencore sem þarna er sigurvegarinn, skulum við barrrasta ekkert vera að hlusta á svoleiðis raus. Það er auðvitað bara tær snilld að Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur g HS Orka skuli öll eiga í verulegum viðskiptum við Glencore í gegnum álver Norðuráls á Grundartanga. Og eigi nú möguleikann á að mega útvega nýju Glencore-álveri við Helguvík raforku.

clintons_denise-rich_sax.jpg

clintons_denise-rich_sax

Að lokum er svo rétt að við samgleðjumst öll flóttamanninum og auðkýfingnum Marc Rich, sökum þess að hann þarf ekki lengur sífellt að vera að skima áhyggjufullur um öxl eftir dulbúnum FBI-mönnum. Í áratugi mátti hann lifa við þá ógn, jafnvel þrátt fyrir að fyrirtæki Rich í Bandaríkjunum hafi greitt himinháar sektir vegna skattalagbrotanna sem fyrirtækið varð uppvíst að þar vestra. Sjálfur var Marc Rich áfram eftirlýstur – m.a. vegna saknæmra viðskipta sinna við Íran – og gat ekki einu sinni heimsótt dóttur sína á sjúkrabeð þegar hún veiktist af hvítblæði og lést vestur í Bandaríkjunum.

Það var loks í ársbyrjun 2001 að sjálfur forseti Bandaríkjanna greip inní og tók sig til og veitti Marc Rich sakaruppgjöf. Það var bleikfésinn góði Bill Clinton sem náðaði Rich tveimur mínútum áður en hann lét af forsetaembættinu 20. janúar 2001. Þá var Rich búinn að vera eftirlýstur um allan heim af bandarísku alríkislögreglunni í nærri tvo áratugi.

Sagt er að náðunin hafi einkum komið til vegna mikils þrýsting frá ísraelsku leyniþjónustunni. En Rich hefur einmitt löngum verið sagður eiga náið samstarf við svartálfana hjá Mossad, sem ekki láta sér allt fyrir brjósti brenna. Svo hefur kannski heldur ekki skemmt fyrir að eiginkona Rich er sjálf sögð mjög góð vinkona Bill's Clinton (jafnvel of góð) og var örlát við kosningasjóði demókrata þar vestra. Sagan segir reyndar að Clinton hafi verið meinilla við að ljúka forsetaferlinum með svo umdeildri náðun, en látið sig hafa það.

marc-rich_king-of-oil.jpg

marc-rich_king-of-oil

En hvort sem náðunin á Marc Rich árið 2001 var tilkomin vegna koddahjals eða skipana frá Ísrael, þá hefur Rich samt ekki ennþá hætt á það að stiga fæti sínum aftur á bandaríska grund. Enda munu nú vera í gangi nýjar sakarannsóknir þar vestra, sem að honum beinast. Það er barrasta eins og klókir gæjar geti aldrei fengið að vera í friði.

Nebb – það er orðið löngu tímabært að Rich fái að njóta ríkidæmisins án þess að möppudýr og kontóristar vestur í Bandaríkjunum séu að trufla hann. Maðurinn sem bæði hefur verið kallaður snjallasti hrávörukaupmaður veraldar og mesta blóðsuga þriðja heimsins, var lengi vel ofarlega á lista FBI yfir most-wanted eintaklinga veraldar. Og þurfti meira að segja að sneiða hjá bandarísku loftrými þegar hann skrapp að sóla sig í Karíbahafinu. Er ekki nóg komið af svo góðu!

Sumir segja reyndar að „ofsóknir“ bandarískra saksóknara á hendur Rich hafi fyrst og fremst stafað af ofurmetnaði hins unga saksóknara, sem einkum var með málið á sinni könnu og hét Rudy Giuliani. Og heitir það að sjálfsögðu ennþá! En Marc Rich fékk náðun og er nú að nálgast áttrætt. Vonandi nýtur hann lífsins, hvort sem það er í bleiku villunni sinni á bökkum Lúzern-vatns, í skíðaskálanum í St. Moritz eða í glæsíbúðinni á Marbella á Spáni. Þau gerast ekki mikið ævintýralegri, lífshlaupin í viðskiptaheimi veraldarinnar.

bond_shaken-not-stirred.jpg

bond_shaken-not-stirred

Orkubloggarinn er af fenginni reynslu löngu orðinn sannfærður um að raunveruleikinn er miklu æsilegri og skemmtilegri heldur en nokkur bíómynd eða skáldskapur. Það er kannski þess vegna sem bloggarinn fer núorðið næstum því aldrei á bíó og les sjaldnast fiction. Sem er nú sossum ekkert sniðugt né til að grobba sig af… en málið er bara að EF James Bond eða jafnoki hans er raunverulega til, þá er hann örugglega í vinnu hjá fyrirtæki eins og Glencore

Svo er bara fyrir Ísland að keyra áfram á fullu í stóriðjustefnunni og láta skuldum prýdda Landsvirkjun rífa upp nokkrar virkjanir í viðbót hér á Klakanum góða. Til að nýtt álver Norðuráls/Century/Glencore rísi hér sem allra fyrst. Það er auðvitað barrrasta æðislegt að við tökum fullan þátt í alvöru hasarleik með alvöru töffurum. Eins og strákunum hans Marc's Rich hjá Glencore. Og þar á meðal er líka hans leyndardómsfyllsti starfsmaður. „Shaken. Not stirred!“  Gleðilega páska.

Fleira áhugavert: