Keppni í pípulögnum, ertu bilaður?

Heimild:  

 

September 1999

The Shining ..Jack bilaður

Keppni í pípulögnum, ertu bilaður? (Norðurlandakeppni í pípulögnum í Tromsø)

Ef sagt hefði verið frá keppni í hárgreiðslu, matreiðslu, gullsmíði eða fatahönnun hefði enginn hlegið, ekki einu sinni brosað. Þetta sýnir nokkuð vel þá afstöðu sem menn hafa til ólíkra iðngreina, eða réttara sagt; þetta sýnir hvaða mismunandi orðstír iðngreinar hafa skapað sér. Það er gaman að segja mönnum frá því að Norðurlandakeppni í pípulögnum hafi farið fram í fyrstu viku september í Tromsø í Noregi. Flestir verða sposkir á svip, að öðrum setur óstöðvandi hlátur.

En þetta er eigi að síður staðreynd að Norðurlandakeppni í pípulögnum fór fram í Tromsø 2.­4. september síðastliðinn. Keppendur voru fjórir, einn frá hverju landi, Ville frá Finnlandi, Lars frá Danmörku, Stian frá Noregi og Petri frá Svíþjóð. Því miður var enginn keppandi frá Íslandi, fyrst og fremst vegna þess að jarðvegurinn hér heima hefur ekki verið undirbúinn sem skyldi, en vonandi verður þar breyting á. Áður en keppnin í Tromsø fór fram var háð keppni í pípulögnum í hverju hinna fjögurra landa og það voru sigurvegarar í landskeppnunum sem mættust í Tromsø.

Hvernig fer slík keppni fram?

Keppnin fer fram fyrir opnum tjöldum, þessir ungu piltar stóðu í raun á leiksviði þar sem gestir og gangandi komu og fylgdust með vinnu þeirra. Fjórir dómarar stóðu yfir þeim allan tímann og dæmt er eftir fyrirfram ákveðnu kerfi þar sem allir þættir verksins hafa vægi, hvort sem það er áferð, tæknilegur skilningur, hraði eða umgengni á vinnustað.

Klukkan 11 fimmtudaginn 2. september hófst keppnin, fyrst svolítil seremónía, síðan kynnti formaður dómnefndar, Norðmaðurinn Helgi Lid, keppendum reglurnar, afhenti þeim teikningu af verkefninu og hver gekk inn í sinn bás þar sem búið var að koma fyrir því efni og þeim tækjum sem verkefnið krafðist.

Þarna unnu síðan ungu mennirnir fjórir fram til kl. 18 á laugardag, allir luku verkefninu á tilsettum tíma og var Finninn fyrstur til að ljúka, heildartíminn sem keppendur fengu var 19,5 klst.

Verkefnið var fjölbreytt en ekki flókið, aðaltakmarkið var handbragðið og að fram kæmi tæknilegur skilningur piltanna. Frárennslislagnir voru úr steypujárni (potti) með áspenntum tengingum, einnig úr plasti, lagt að salerni og handlaug og þau tæki sett upp ásamt blöndunartæki. Neysluvatn var lagt úr eirrörum, satt best að segja skrambi vandasöm lögn, þar sem fyrirskipað var að hluta hennar ætti að beygja, ekki með beygjuvélum heldur með því að hita rörin með gasloga, einnig átti að logsjóða “ rör við suðubeygjur.

Teikningar voru málsettar og vó það talsvert að mál væru rétt.

Heimskeppni í Montreal

Sú keppni verður í nóvember næstkomandi undir heitinu „Youth Olympics Skills“ og þar er keppt í fjölmörgum handverksgreinum, s.s. hárgreiðslu, bifvélavirkjun, öllum greinum byggingariðnaðar, matreiðslu, framreiðslu, förðun, gullsmíði og svo mætti lengi telja. Hvítflibbamennirnir í Genf hafa að vísu verið að fetta fingur út í að keppnin sé tengd við ólympíuhugsjónina, telja að handverk sé fyrir neðan virðingu þeirrar háleitu hugsjónar, sem ýmsir pótintátar þar á bæ hafa óhreinkað með græðgi og óheiðarleika, en hugsjónin mun lifa það af.

Norrænir pípulagningamenn tóku í fyrsta sinn þátt í heimskeppninni í St. Gallen í Sviss 1997 og til fróðleiks má nefna að það var fyrir frumkvæði Ólafs Eggertssonar, framkvæmdarstjóra KK. Blikks, en hann var þá starfandi hjá NRL í Noregi, sem eru samtök norskra pípulagnafyrirtækja. Á þeim leikum fengu Norðmenn tvö gull, í rafvirkjun og hárgreiðslu.

Úrslit í Tromsø

Við hátíðlega athöfn á laugardagskvöld voru úrslit kynnt og verðlaun afhent. Þekktur finnskur fótboltakappi, sem keppir með knattspyrnuliði Tromsø, opnaði stærðar umslag og las upp nafn sigurvegarans. Það kom fyrir ekki að við Íslendingar bentum á að betra væri að fótboltakappinn væri frá hlutlausu landi sem ekki ætti þátttakanda í keppninni, nefnilega frá Íslandi, bentum við á að Tryggvi Guðmundsson, sem keppir með Tromsø, væri þess vegna kjörinn til verksins, en því miður, Tryggvi var heima á Íslandi að berjast við Andorra.

En það var sá norski Stian sem sigraði og kom það ekki á óvart, tvímælalaust verðskuldað og þóttist gamalreyndur lagnamaður frá Íslandi hafa séð það fyrirfram, aðallega vegna þess að Stian gerði ekki sömu litlu mistökin og hinir keppendurnir, aðallega voru það rangar staðsetningar á festingum.

Væri það jákvætt fyrir unga íslenska pípulagningamenn að taka þátt í slíkri keppni? Ekki nokkurt vafamál, undankeppni hér heima gæti verið lyftistöng fyrir iðnina og aukið faglegan metnað. Hins vegar geta strangar aldurskröfur orðið okkur erfiðar, en keppendur mega ekki vera eldri en að þeir verði 22 ára á keppnisárinu.

Verkefni sigurvegarans Stian nánast fullunnið, í skrúfstykkinu á vinnuborðinu er logsuðuverkefnið í vinnslu.

Í hverjum bás hékk fáni föðurlands keppandans.

Fleira áhugavert: