Snjallmælar – Ekki hvort heldur hvenær þeir koma
.
Apríl 2017
Eru snjallmælar það sem koma skal?
Það er ekki spurning hvort Veitur taki upp snjallmæla heldur einungis hvenær. Þetta kom fram í máli Bjarna Bjarnasonar forstjóra OR á opnum ársfundi samstæðunnar. Hann segir snjallmæla koma til með að valda byltingu í stjórnun orkukerfa og því séu Veitur að skoða fýsileika þess að skipta út eldri mælum. Snjallmælar eru tölvur og þeim fylgir samskiptakerfi sem flytur boð á milli mæla og miðlægs tölvubúnaðar. Boðin geta flust þráðlaust í gegnum farsímakerfið, eða með útvarpsbylgjum eða í gegnum víra, þ.e. ljósleiðara eða raflínur. Upplýsingunum er svo safnað í gagnagrunna.
Með snjallmælum má fá upplýsingar um orkunotkun, afhendingargæði orkunnar og ástand mælisins. Í þá má svo senda boð um að sækja gögn, opna/loka fyrir afhendingu rafmagns og tímaháðar verðupplýsingar, svo eitthvað sé nefnt.
Með notkun snjallmæla opnast fjölmargir möguleikar í viðskiptum og þjónustu við viðskiptavini. Ekki yrði lengur þörf fyrir hefðbundinn álestur, viðskiptavinir fengju raunreikninga í stað áætlunarreikninga og upplýsingar um straumrof fengjust strax.
Ávinningur fyrir Veitur gæti einnig orðið mikill. Viðhald yrði ástandsstýrt en ekki tímastýrt og möguleikar yrðu að stýra álagi frá álagstoppum í kerfinu. Það getur leitt af sér sparnað í fjárfestingum í veitukerfum, flutningskerfum og virkjunum.
Í dag eru Veitur með hátt í 160 þús mæla sem þyrfti að skipta um. Af því hlytist umtalsverður ávinningur en sem stendur dugar hann ekki fyrir þeim kostnaði sem af snjallmælavæðingunni hlýst.