Alsír, gasrisi – Gasbandalagið GECF
.
Ágúst 2010
Gasrisi í úlfakreppu
Hver voru dramatískustu áhrifin af eldgosinu í Eyjafjallajökli?
Svarið liggur í augum uppi. Nefnilega hinn gjörsamlega misheppnaði fundur Gasbandalagsins, sem haldinn var í Oraníuborg í Alsír í apríl 2010. Því varð einhver frestun á því að nokkur helstu gasútflutningsríki veraldarinnar nái samskonar kverkataki á gasmörkuðunum eins og olíuútflutningsríkin hafa í gegnum OPEC. Kannski eins gott – a.m.k. fyrir Evrópusambandið, sem er mjög háð gasinnflutningi.
Eins og kunnugt er olli eldgosið mikilli röskun á flugsamgöngum um alla Evrópu og reyndar víðar um heim. Fyrir vikið varð mætingin eitthvað slöpp á þennan tíunda fund hins óþroskaða Gasbandalags (Gas Exporting Countries Forum eða GECF) í Oraníuborg. Þessi slaka mæting gaf tóninn fyrir árangurslítinn fund. Það eina sem út úr honum kom var afar loðin yfirlýsing; innihaldslaust hjal sem mun litlu breyta fyrir gasviðskipti veraldarinnar.
Þetta voru vonbrigði fyrir Alsírmenn, sem höfðu bundið miklar vonir við fundinn. Fyrir hann var nefnilega altalað í bransanum að Alsíringar hafi verið búnir að leggja í mikla undirbúningsvinnu til að fá samþykkta tillögu um mjög nána samvinnu aðildarríkja GECF – m.a. um að stýra framboði af gasi. Það gekk ekki eftir og fátt bendir til þess að af því verði í bráð. Þó maður eigi auðvitað aldrei að segja aldrei!
Já – á sama tíma og Orkubloggarinn dýfði tásunum í olíumengað Kaspíahafið og sötraði berfættur te á Arabakaffihúsi austur í olíuborginni Bakú í Azerbaijan, fór allt í vaskinn hjá ljúflingnum Chakib Khelil, orkumálaráðherra Alsír. Ekki að furða þó hann væri svolítið þreytulegur angaskinnið.
Ekki aðeins mistókst Khelil að fá GECF-samkunduna til að taka afgerandi ákvörðun um formlegt samstarf, sem myndi hjálpa Alsír að byggja upp frekari gasvinnslu í landinu, heldur var hann í þokkabót skömmu síðar rekinn úr stöðu orkumálaráðherra Alsír. En áður en við komum að þessu drama, er rétt að hafa hér smá inngang:
Það hefur lengi verið draumur nokkurra helstu gasútflytjenda veraldarinnar – landa eins og Alsír, Katar, Indónesíu, Malasíu og Rússlands – að stofna samtök í anda OPEC. Í þeim tilgangi að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna; hagsmuna sem eru auðvitað aðallega fólgnir í því að stjórna framboði af gasi og þar með hafa áhrif á verðið. Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC eða Organisation of Petroleum Exporting Countries) eru þekkt fyrir framleiðslukvóta sína og þó svo oft hafi gengið erfiðlega að ná samstöðu innan OPEC hafa samtökin í áratugi gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki við að hámarka hagnað olíuútflytjendanna við Persaflóa og víðar. Því er ekki skrítið að stóru gasútflytjendurnir hafi fengið þá hugmynd að stofna e.k. GasPEC.
Eftir nokkrar þreifingar kom að því árið 2001 að áðurnefnt GECF var stofnað sem samstarfsvettvangur og skref í þá átt að vinna betur með þessa hugmynd um Gasbandalag. Stofnsamningurinn lá samt ekki fyrir fyrr en seint á árinu 2008, þ.a. að það er fyrst núna á allra síðustu árum að Gasbandalagið virðist geta orðið að veruleika.
En þó svo hugmyndin kunni að virðast borðleggjandi er vandamálið bara að það er talsvert erfiðara að stjórna gasmarkaði veraldarinnar heldur en olíumarkaðnum. Miklu flóknara er t.d. að geyma gas og verð á gasi hefur undanfarið farið lækkandi vegna nýrrar gasvinnslutækni vestur í Bandaríkjunum og aukins framboðs þar.
Allt þar til fyrir fáeinum árum einkenndust gasviðskipti af langtímasamningum, þar sem samningarnir voru oft til a.m.k. tuttugu ára og verðið jafnan tengt olíuverði. En vegna þess að framboð af gasi hefur verið að aukast hraðar heldur en framboð af olíu, hafa margir gaskaupendur í auknum mæli fært sig úr langtímasamningum og yfir í styttri samninga. Stuttu samningarnir skila nefnilega oftast lægra verði þegar framboðið er eins mikið og verið hefur undanfarið. Fyrir vikið hefur staða helstu gasútflytjendanna verið að veikast og er langt frá því eins sterk eins og hjá olíuútflytjendunum í OPEC.
Mikið framboð af gasi, svo og eðli gasviðskipta ætti auðvitað að hvetja gasútflytjendur til dáða um að auka samstarf sín á milli og reyna að hafa áhrif á framboð og verð. En þróunin síðustu misserin og óvissan í efnahagsmálunum hefur þvert á móti valdið vaxandi misklíð í hópnum.
Vegna vaxandi gasframleiðslu í Bandaríkjunum hefur þrengst þar að aðgangi fyrir innflutt gas (nema menn vilji selja fyrir skít og kanil). Og jafnvel þó svo Evrópa sé afar háð innfluttu gasi varð kreppan til þess að stórminnka eftirspurn Evrópu eftir gasi. Fyrir vikið hefur blossað upp titringur milli sumra af stóru gasútflytjendunum, sem allir vilja koma sínu gasi á þessa markaði.
Draumurinn um Gasbandalag markaðist ekki síst af því að framleiðsla og skipaflutningar með fljótandi gas (LNG) hefur verið að aukast mjög. Alsír var á sínum tíma sannkallaður brautryðjandi í LNG og hafa í áratugi selt fljótandi gas til Bretlands og fleiri ríkja. En Alsír hefur ekki náð að fylgja þessu eftir; þar hefur LNG-framleiðslan ekki aukist jafn hratt undanfarin ár eins og hjá nokkrum öðrum gasríkjum.
Gasverð hefur sem fyrr segir lengst af verið mjög tengt olíuverði og þegar olían fór hækkandi sköpuðust skilyrði til ennþá meiri LNG-framleiðslu. Upp á síðkastið hafa t.d. Katarar, Norðmenn, Ástralar og fleiri gasríki sem liggja fjarri mörkuðunum veðjað mjög á LNG og byggt upp slíka vinnslu í stórum stíl. Og selja þaðan gas til t.d. Japan og Bandaríkjanna.
Þessi sprenging í LNG-bransanum gerði gas að mun „hreyfanlegri“ hrávöru heldur en þegar gas er eingöngu flutt um leiðslur til kaupanda tiltölulega nærri framleiðslusvæðinu. Vaxandi LNG-framleiðsla gerði það að verkum að gasmarkaðurinn fór um margt að minna á olíumarkaðinn. En LNG nemur einungis rúmum 5% af allri gassölu veraldarinnar – ennþá er langmest af gasi selt um gasleiðslur á markaði ekki mjög fjarri framleiðendunum. Fyrir vikið er gas ekki ennþá orðið að alþjóðlegri hrávöru í líkingu við olíu og þess vegna gilda ekki sömu lögmál um gas eins og olíu.
Þrátt fyrir að Alsíringar séu vel meðvitaðir um það, að erfitt geti verið fyrir gasútflutningsríki að stjórna framboði og verðmyndun á gasi, vita þeir líka að EF þeir myndu fá t.d. Rússa og Katara til að vinna meira með sér, gæti það mögulega gjörbreytt gasviðskiptum. Til hagbóta fyrir gasútflutningsríkin.
Þetta snýr ekki síst að Evrópu. Stærstu gasbirgjar Evrópu eru Rússland og Alsír, ásamt Noregi. Norska gasið fer fyrst og fremst til N-Evrópu, rússneska gasið til Þýskalands og Austur- og Mið-Evrópu og S-Evrópa fær mest af sínu gasi frá Alsír. Verulegur hluti af Evrópumarkaðnum getur bæði nýtt sér rússneskt og alsírskt gas, sem hefur valdið togstreitu milli þessara ríkja nú þegar gaseftirspurn minnkar. Nýja gasbandalagið átti einmitt að draga úr þeim núningi og koma þannig skipulagi á gasviðskipti að báðar þessar þjóðir myndu hagnast – auðvitað á kostnað kaupendanna. En togstreitan virðist vera það mikil að menn nái ekki að finna leiðina að Gasbandalagi í líkingu við OPEC.
Alsírmaðurinn Khelil vann hörðum höndum að því að koma GECF á fót. Hann hafði verið olíumálaráðherra Alsír í áratug og nú vildi hann taka næsta skref og gera GECF að alvöru áhrifabandalagi í anda OPEC. Á góðæristímanum 2007-08 hafði honum að því er virtist tekist að sannfæra Rússana um að svona Gasbandalag myndi henta öllum gasríkjunum afar vel. En svo skall kreppan á!
Það var auðvitað bara svona aulagrín hjá Orkubloggaranum hér í upphafi færslunnar að kenna Eyjafjallajökli um lítinn samhug á gasfundinum í Óraníuborg í apríl sem leið. Þar var miklu fremur um að kenna kreppunni og óvissunni sem nú ríkir á orkumörkuðunum, að svo fór sem fór á fundinum þeim.
Þegar þrengir að verður hver sjálfum sér næstur og skammsýni tekur völdin. Það á ekki síst við um Rússana, sem eru að fá þungt högg vegna lækkandi gasverðs og hafa um nóg annað að hugsa þessa dagana en langtímahorfur á gasmörkuðum. Það eitt og sér að kreppan hefur minnkað eftirspurn Evrópu eftir rússnesku gasi, ætti svo sem ekki að gera þá afhuga Gasbandalagi. En það sem Rússarnir hafa jafnvel ennþá meiri áhyggjur af þessa dagana heldur en verðlækkun á gasi, er hin hljóðlega en harða barátta þeirra við Kínverja um áhrif yfir gaslindum Mið-Asíuríkjanna við Kaspíahafið.
Kínverjar hafa stille og roligt verið að leggja gasleiðslur þangað vestur eftir og eru núna búnir að ná yfirráðum yfir verulegum hluta þess gass Mið-Asíuríkjanna, sem Rússar ætluðu sér að stjórna. Þetta er grafalvarlegt mál fyrir Rússa, því þeir ætluðu að láta þetta gas fara gegnum rússneskar gasleiðslur og hirða prósentur af allri sölu þess. Fyrir vikið virðist nú ríkja nokkur ringulreið í gasherbúðum Rússa og gasbandalag í anda OPEC ekki alveg forgangsatriði hjá hinu rússneska Gazprom þessa dagana. Þar skiptir meira máli hvernig orkuöxullinn mikli, sem tengir ESB, Rússland og Kína við Mið-Asíugasið, mun snúast í framtíðinni (segja má að miðpunktur eða hjarta þessa öxuls sé einmitt áðurnefnd Bakú í Azerbaijan, þó svo þarna sé í reynd um að ræða fjölhjarta kvikyndi).
Þess vegna er nú allsendis óvíst hvenær formlegt „Gaspec“ Rússa með Persaflóaríkjunum og N-Afríkumönnum kemst á. Þetta veldur Alsírmönnum talsverðum áhyggjum. Þar á bæ er æpandi þörf á auknum tekjum eftir ófriðartímana sem þar geisuðu meira og minna allan 10. áratug liðinnar aldar og stöðvuðu að mestu alla fjárfestingu í landinu. Í þeim langvarandi átökum féllu allt að hundrað þúsund manns og er ekki hægt að kalla þessa skelfingu neitt annað en hörmulegt borgarastríð. Loks eftir um áratugarátök var máttur dreginn úr ofsatrúarmönnunum og ástandið í Alsír hefur til allrar hamingju stórbatnað frá aldamótunum.
Fyrir vikið eru erlendir bissnessmenn nú loksins á ný farnir að líta til þessa risastóra og fjölmenna lands (íbúarnir eru um 35 milljónir) og spekúlera í að lána eða fjárfesta í orkuvinnslu þar. En það er langt í land með að nauðsynleg endurnýjun eigi sér stað í gasgeiranum í Alsír. Eftir næstum tveggja áratuga stöðnun er Alsírmönnum orðið lífsnauðsynlegt að endurnýja tæknibúnaðinn og hefja vinnslu á nýjum svæðum. En það hefur gengið hægt að fá fjármagn inní landið og Khelil sá stofnun raunverulegs Gasbandalags sem lykil að stóraukinni arðsemi í gasvinnslunni, sem myndi um leið laða fjármagnið að.
Árið 2000 fullyrti Khelil að innan fimm ára (þ.e.a.s. 2005) myndi gasframleiðsla í Alsír aukast um 50%. Það hefur alls ekki gengið eftir og nú telja bjartsýnir menn að þetta markmið Khelil muni í ekki nást fyrr en áratug síðar en áætlun hans hljóðaði upp á (þ.e. 2015). Upphafleg stefna Khelil frá því hann tók við embætti olíu- og orkumálaráðherra hefur því einfaldlega beðið skipbrot.
Þó svo fyrirtæki með nauðsynlega tækniþekkingu séu nú aftur tilbúin að koma til Alsír, hefur sem sagt gengið mjög treglega að nálgast fjármagn til uppbyggingarinnar. Ofan á þessi vandræði bættist svo mikið spillingarmál, sem nýverið komst upp hjá alsírska ríkis-orkufyrirtækinu Sonatrach, þar sem framkvæmdastjórnin hafði misbeitt valdi sínu til hagsbóta fyrir útvalda verktaka.
Þetta ásamt töfum í þróun Gasbandalagsins olli því að Khelil missti mikið af trúverðugleika sínum, jafnvel þó svo honum sjálfum verði ekki beinlínis kennt um vandræðin. Nú var hinum stutta en öfluga Abdelaziz Bouteflika Alsírforseta nóg boðið; í sumarbyrjun rak hann Khelil úr ráðherrastólnum og skipaði Youcef Yousfi í hans stað. Einnig var skipt um forstjóra yfir Sonatrach og settar nýjar og gegnsærri reglur um skipan útboðsmála hjá fyrirtækinu.
Sonatrach er ekki aðeins hið einráða ríkisfyrirtæki í gasiðnaði Alsíringa, heldur í reynd eitt helsta þjóðarstolt landsmanna. Alsírmenn þurftu að há langa og blóðuga baráttu fyrir sjálfstæði sínu og eftir að hafa hrakið nýlenduher Frakka á brott tóku þeir orkulindirnar í eigin hendur og stofnuðu Sonatrach. Sem síðan hefur verið þeirra líf og yndi.
Fljótlega eftir nýfengið sjálfstæði Alsír árið 1962 kom í ljós að jarðgas væri mun stærri hluti af náttúruauðlindunum þar í landi heldur en í flestum öðrum olíuríkjum. Nærri helmingur allrar kolvetnisvinnslu í Alsír hefur verið gas (hinn helmingurinn er auðvitað olía og Alsír er einn stærsti olíuframleiðandinn í Afríku). Fyrir vikið hefur gasvinnslan verið óvenju mikilvæg fyrir efnahag Alsírmanna.
Nýi orkumálaráðherrann Youcef Yousfi er að taka að sér mun stærra og flóknara verkefni en bara það eitt að vera ráðherra yfir allri olíu- og gasvinnslu í Alsír. Hann þarf að endurvinna stolt Sonantrach og þar bíða tvö risaverkefni; annars vegar að hreinsa út spillinguna og vanhæfið hjá fyrirtækinu og hins vegar að tryggja farsælan rekstur þess til framtíðar. Í þessu síðarnefnda felst þróun nýrra gasvinnslusvæða svo gasframboð frá Alsír verði tryggt til framtíðar.
Yousfi er enginn nýgræðingur; hann var einmitt orkumálaráðherra þegar Bouteflika forseti komst til valda árið 1999. En Bouteflika vildi þá nýjan mannskap og hóaði í Khelil, sem þá hafði starfað lengi hjá Alþjóðabankanum vestur í Washington.
Framan af átti Khelil nokkuð farsælan feril og varð fljótlega einn öflugasti ráðherrann á vettvangi OPEC og skyggði á köflum jafnvel á sjálfan yfirljúflinginn Ali Al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna sem Orkubloggið hefur ósjaldan minnst á. Khelil virðist hafa verið ómeðvitaður um spillinguna innan Sonatrach, en sem orkumálaráðherra bar hann pólitíska ábyrgð á því. Eftir að Khelil hafi bæði mistekist að koma Gasbandalaginu almennilega áleiðis og lent í vandræðum með að laða fjárfesta að gasvinnslunni, var spillingarmálið innan Sonatrach dropinn sem fyllti mælinn.
Þetta voru sennilega tímabær mannaskipti – bæði í ríkisstjórninni og ekki síður hjá orkufyrirtækinu. Þannig gerast a.m.k. hlutirnir hjá stjórnsýslunni í Alsír! Menn sem ekki ná markmiðum eru látnir víkja og nýir taka við.
Slíkt þykir fullkomlega eðlileg og skynsamleg ráðstöfun hjá siðuðum stjórnmálamönnum – en vissulega ekki alls staðar. Í tilefni vandræðagangsins hjá Orkuveitu Reykjavíkur og nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga hér á Klakanum góða, sem leiddu til nýs stjórnarmeirihluta hjá OR, má velta fyrir sér hvort eitthvað sambærilegt gerist nú hjá nánast gjaldþrota Orkuveitunni?