Höfuðstöðvar Landsbankans – Sagan 2017/2020

Heimild:

.

 

September 2019

Bankahöllinn sem eigandinn vill ekki en er samt að rísa

Þann 10. maí 2017 fóru formaður og varaformaður bankaráðs Landsbankans, Helga Björk Eiríksdóttir og Magnús Pétursson, á fund Benedikts Jóhannessonar, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra. Tilgangur fundarins var að kynna fyrir honum ákvörðun um að ráðast í byggingu nýrra 16.500 fermetra höfuðstöðva bankans við Austurhöfn í Reykjavík, á einni af dýrustu lóðum landsins. Ráðherrann hlustaði á kynningu þeirra og gerði svo fundarmönnum grein fyrir því að hann kæmi ekki að rekstrarlegum ákvörðunum. Það væri því bankaráðsins að ákveða hvort að ráðist yrði í framkvæmdina eða ekki.

Þannig var ákveðið að setja upp skipulagið á eignarhaldi ríkisins á bönkum eftir hrunið. Tilgangurinn var að tryggja að stjórnmálamenn væru ekki að skipta sér með beinum hætti að rekstri bankanna og athöfnum, meðal annars til að auka traust á fyrirkomulaginu. Sú vegferð hefur ekki skilað meiru en svo að enn vantreysta fjórir af hverjum fimm landsmönnum bankakerfinu.

Fyrir vikið er uppsetningin þannig að fjármála- og efnahagsráðuneytið heldur á eignarhlutum skattgreiðenda í Landsbanka og Íslandsbanka en felur Bankasýslu ríkisins að fara með þá.

Í svari við fyrirspurn Kjarnans til forstjóra Bankasýslu ríkisins um hvort stofnunin hafi haft einhverja aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höfuðstöðvarnar var svar forstjórans, Jóns Gunnars Jónssonar, einfalt: „nei“.

Það hefur ekki þótt tilefni til að bera byggingu höfuðstöðva undir hluthafafund, þar sem eini alvöru hluthafinn, íslenska ríkið, gæti sagt sína skoðun á áformunum.

Því liggur fyrir að sjö manna bankaráð, sem situr í umboði bankasýslu ríkisins, stofnunar sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, tók eitt ákvörðun um byggingu „Klettsins“ sem nú rís við hlið Hörpu.

Allir eru að gera það

Af hverju er verið að byggja þessar umfangsmiklu höfuðstöðvar? Til þess að svara þeirri spurningu þarf að fara ansi langt aftur. Nánar tiltekið til ársins 2007, á hápunkt bankagóðærisins, sem stóð yfir frá því að bankakerfið var einkavætt skömmu eftir aldarmót og þar til það hrundi haustið 2008, í um fimm ár. Kaupþing hafði nýverið byggt sér nýjar höfuðstöðvar í Borgartúni. Glitnir ætlaði að byggja nýjar slíkar við Kirkjusand. Og Landsbankinn ætlaði að byggja stærst allra bankanna, alls 33 þúsund fermetra hof á reit við Austurhöfn sem bankinn hafði keypt.

Ráðist var í hönnunarsamkeppni og upphaflega átti að kynna niðurstöður þess vorið 2008. Þeim áformum var þó frestað fram á haustið, nánar tiltekið um miðjan október 2008. Búið var að velja framúrstefnulega verðlaunatillögu arkitektastofunnar Bjarke Ingels Group, Arkiteó, Ein­rúm arki­tekt­a, Andra Snæs Magna­sonar og VSÓ. En hún var aldrei kynnt. Bankinn fór á hausinn áður en það tókst.

Úr rústum þess gamla var búinn til nýr Landsbanki, með nýja kennitölu og í eigu íslenska ríkisins. Reitirnir sem áttu að hýsa gömlu höfuðstöðvarnar, sem tilheyra sömu lóð og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa, færðust yfir til ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem tóku yfir eignarhald og byggingu Hörpu eftir hrunið.

Sumarið 2009 lét Bílastæðasjóður malbika yfir malarvöllinn þar sem hinar íburðarmiklu höfuðstöðvar Landsbankans áttu að rísa. Það þótti táknrænt. Í stað skýjaborga var komið malbik.

Byggt til að skapa störf og vegna hagræðis

Það leið þó ekki á löngu þar til endurnýjuð áform um byggingu höfuðstöðva fyrir Landsbankann, nú í eigu ríkisins, komu fram. Í janúar 2012 birtist forsíðufrétt á Fréttablaðinu um að í umsögn Landsbankans um atvinnustefnu Reykjavíkurborgar sem lögð hafði verið fram í borgarráði, kæmi fram vilji hans til að reisa nýjar höfuðstöðvar í miðborginni fyrir árið 2015. Sá rökstuðningur var gefinn að starfsemi bankans væri í 14 byggingum og það væri afar óhentugt.

Á þessum tíma var efnahagsupprisa Íslands ekki hafin af neinni alvöru og því töluverð eftirspurn eftir smurningu á hjól efnahagslífsins. Í umsögn Landsbankans sagði að hann myndi, með byggingu höfuðstöðva, standa fyrir „mjög mannaflsfrekum aðgerðum og samtímis skapa ákjósanlegar aðstæður í miðborginni til að byggja upp aðstöðu fyrir margvíslega aðra starfsemi.“

Ljóst var á þessum tímapunkti að Landsbankinn var enn að horfa til þess að byggja á einhverjum reitana sem voru í námunda við Hörpu þótt hann ætti þá ekki lengur.

Í febrúar 2013 kynnti Steinþór Pálsson, þáverandi bankastjóri Landsbankans, svo fyrir starfsmönnum hans áætlun um nýjar höfuðstöðvar. Horft væri á sömu lóð og ráðgert var að byggja á fyrir hrun, gert var ráð fyrir því að höfuðstöðvarnar yrðu 24 þúsund fermetrar að stærð og að framkvæmdir myndu hefjast 2014. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Steinþór að það þyrfti að byggja nýjar höfuðstöðvar meðal annars vegna þess að því fylgdi rekstraráhætta að vera í leiguhúsnæði. „Eigendurnir eru sumir sífellt að skoða hvort þeir eigi frekar að reka hótel. Þessu fylgir rekstraráhætta fyrir okkur.“

Forsætisráðherra segir nei

Í ágúst 2013 var lagt fram bréf frá bankastjóra Landsbankans í borgarráði Reykjavíkur, þar sem hann óskaði eftir því að fá lóð við hlið Hörpu keypta. Um var að ræða einu lóðina á þessu stóra skipulagssvæði sem átti eftir að selja á þessum tíma út úr félagi í eigu ríkis og borgar sem eignaðist byggingarreitina eftir hrun.

Stærðin hafði aðeins dregist saman frá fyrri áformum og var nú áætluð um 15 þúsund fermetrar.

Í þetta skiptið varð pólitísk mótspyrna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá nýr forsætisráðherra þjóðarinnar, tjáði sig við vefmiðilinn Eyjuna og sagði að honum virtist „útilokað að ríkisbankinn muni byggja nýjar höfuðstöðvar á næstunni. Það eru mörg mál sem þarf að leysa fyrst.“ Frosti Sig­ur­jóns­son, þá for­maður efna­hags- og við­skipta­nefnd­ar, tók undir með þáverandi flokks­bróður sínum í pistli sem birt­ist skömmu síð­ar.

Yfirlýsing Sigmundar Davíðs hafði í för með sér mikil viðbrögð og bankastjóri Landsbankans gaf á endanum út að málið væri „stormur í vatnsglasi“. Nokkrum vikum síðar var ákveðið að auglýsa lóðina sem Landsbankinn hafði augastað á til sölu.

„Risastór glerhöll á dýrasta stað“

Ekki leið ár þar til að viljinn til að byggja nýjar höfuðstöðvar fór aftur að láta á sér kræla.  Í mars 2014, á aðalfundi Landsbankans sem haldin var í Hörpu, sagði Tryggvi Pálsson, þá stjórnarformaður bankans, að hann þyrfti minna og hentugra húsnæði. „Endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar í þessu máli en bankaráðið er einróma þeirrar skoðunar að núverandi húsnæðisvanda þurfi að leysa.“

Nú var áhuginn á reit 6 á svæðinu, þ.e. þeim sem er næstur Hörpu og fyrir framan lúxushótelið sem nú er langt komið í byggingu. Í apríl 2014 ákvað eigandi lóðarinnar, félagið Sítrus í eigu ríkis og borgar, að ganga til samninga við Landsbankans um að selja honum þann reit.

Í maí 2014 sagði Sig­mundur Davíð á Alþingi, í óund­ir­búnum fyr­ir­spurnum þar sem nýjar höf­uð­stöðvar Lands­bank­ans voru til umræðu: „Ég skal al­­veg við­ur­­­kenna að mér þykir óneit­an­­lega mjög sér­­­kenn­i­­legt ef menn eru farn­ir að velta því fyr­ir sér ein­ung­is fimm árum eft­ir að bank­inn komst í þrot og skrapp í fram­haldi af því mikið sam­an að fara að byggja nýj­ar höf­uð­stöðv­ar, ég tala nú ekki um ef það yrði risa­­stór gler­­höll á dýr­asta stað borg­­ar­inn­ar og þar með lands­ins“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra 2016. Hann hafði verið mjög gagnrýnin á áform Landsbankans.

Smá hik en svo áfram á fullri ferð

Næstu mánuðir voru Landsbankanum erfiðir. Bankaráð og stjórnendur höfðu um annað að hugsa en húsnæðismál. Í nóvember 2014 opinberaði Kjarninn, fyrstur miðla, hvernig Landsbankinn hafði selt 31,2 prósent hlut í Borgun bak við luktar dyr til valins hóps kaupenda. Með þessum viðskiptum varð Landsbankinn af milljörðum króna. Hann höfðaði síðar mál vegna sölunnar og taldi sig blekktan. Það mál er enn í gangi. Borgunarmálið kostaði svo á endanum Steinþór Pálsson bankastjórastarfið í lok árs 2016.

Draumurinn um nýjar höfuðstöðvar var þó ekki alveg dauður þótt lítið væri rætt um hann opinberlega á þessum tíma. Þvert á móti.

Í skýrslu stjórnar Landsbankans fyrir aðalfund 18. mars 2015 voru ítrekuð áform um að reisa nýjar höfuðstöðvar bankans við Austurhöfn. Í skýrslunni sagði:„Gert er nú ráð fyrir að rýma um 28 þúsund fermetra og koma starfseminni sem á þeim var fyrir á um 15 þúsund fermetrum í nýju sérhönnuðu húsnæði. Reikna má með um 600 milljóna króna sparnaði á ári.“

Í júlí sama ár sendi bankinn frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að ákvörðun hefði verið tekin: nýju höfuðstöðvarnar yrðu byggðar.

Ráðist yrði í hönnunarsamkeppni og höfuðstöðvarnar myndu rísa við hlið Hörpu við Austurhöfn. Áætlaður kostnaður var átta milljarðar króna og áætlað var að fjárfestingin myndi borga sig upp á tíu árum.

„Taktlaust“, „hálfgalið“, „veruleikafirring“

Nú var þetta ekki lengur hugmynd, heldur framsett áætlun. Öllum áformum um að skoða flutning í þegar risin hús, sem gætu rúmað alla starfsemina og náð fram þeirri rekstrarhagræðingu sem stefnt var að, var ýtt til hliðar. Landsbankinn væri miðborgarfyrirtæki og þar yrði hann að reisa sér nýtt heimili.

Gagnrýnin á áformin fór að breiða úr sér á meðal stjórnmálamanna.

Ráðherra krafðist þess að laun yrðu lækkuð

Það eru ekki einungis húsnæðismál sem hafa truflað ráðamenn í rekstri Landsbankans. Það hafa launamál líka gert og í þeim hafa stjórnvöld raunverulega beitt sér.

Í lok árs 2016 var tekin póli­tískt ákvörðun um launa­­kjör rík­­is­­for­­stjóra undan kjara­ráði og til stjórna fyr­ir­tækj­anna, sem eru póli­­tískt skip­að­­ar. Sú breyt­ing tók gildi um mitt ár 2017. Bene­dikt Jóhann­es­son, sem þá var fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sendi bréf til stjórna allra fyr­ir­tækja í rík­i­s­eigu í aðdrag­anda þeirrar yfir­færslu. Þar beindi hann þeim til­mælum til þeirra að stilla öllum launa­hækk­unum for­stjóra í hóf. Stjórnarformenn stærstu fyrirtækjanna, meðal annars ríkisbanka, voru auk þess kallaðir á fund ráðherrans síðsumars þetta ár til að brýna fyrir þeim að virða tilmæli sín.Margar stjórnir hunsuðu tilmælin og hækkuðu laun æðstu stjórnenda sinna um tugi prósenta.

Enginn laun ríkisforstjóra hækkuðu hlutfallslega meira en bankastjóra Landsbankans, eða um 82 prósent í 3,8 milljónir króna á mánuði.Í febrúar 2019, þegar kjaraviðræður stóðu sem hæst, sendi Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, bréf til Banka­sýslu rík­is­ins þar sem hann óskaði þess að hún kæki því með afdrátt­ar­lausum hætti á fram­færi við stjórnir rík­is­bank­anna Íslands­banka og Lands­bank­ans að „ráðu­neytið telji að bregð­ast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með taf­ar­lausri end­ur­skoðun launa­á­kvarð­ana og und­ir­bún­ingi að breyt­ingum á starfs­kjara­stefn­um, sem lagðar verði fram á kom­andi aðal­fundum bank­anna.“Í mars brást bankaráð Landsbankans við þessum tilmælum og lækkaði laun bankastjórans niður í 3.503 þús­und krón­­ur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þá varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði til að mynda við RÚV að það væri öllum ljóst að þarna væri verið að fara illa með eignir ríkisins og engin gæti gert neitt í því. „Ég mun að minnsta kosti vekja athygli á þessu og taka þetta upp á þingi þegar það kemur saman í haust.“

Elín Hirst, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þessum tíma, gagnrýndi forgangsröðun bankans og sagði að hann ætti ætti frekar að bjóða betri kjör heldur en að byggja á dýrasta stað í miðborginni. „Ég tel að það sé allt of mikið í lagt og ég tel að þetta sé allt of dýr lóð fyrir bankann.“

Áform Landsbankans átti sér líka fylgismenn. Hjálmar Sveinsson, þáverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúi Samfylkingar, varði ákvörðunina og sagði að ef Landsbankinn myndi ekki byggja á reitnum þá myndi líklega rísa þar ný hótelbygging. „Nú er Landsbankinn, svona eftir fjárglæfralega snúninga, kominn í rauninni í eigu almennings í landinu. Þannig að mér finnst það alveg, út af fyrir sig, koma til greina að bankinn sé með höfuðstöðvar sínar hér í miðborginni,“ sagði Hjálmar við Stöð 2. Reykjavíkurborg á hins vegar ekkert í Landsbankanum og því er afstaða þeirra sem starfa innan hennar sett fram út frá öðrum forsendum en þeirra sem starfa innan þings eða ríkisstjórnar.

Bankastjóri Landsbankans reyndi að malda í móinn og segja að framkvæmdirnar væru ekki bruðl heldur þvert á móti hagkvæmar, en undirtektirnar voru vægast sagt dræmar, ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur líka hjá almenningi. Í óformlegri könnun fréttastofu Stöðvar 2 á meðal almennings voru nær allir viðmælendur á einu máli, þeim þótti hugmyndirnar „taktlausar“, „hálfgalnar“, „fullkomin veruleikafirring“ eða „fáránlegt“. Einn viðmælandinn sagði: „Þessi banki er nýbúinn að fara á rassgatið og tapa fleiri hundruð milljörðum og að ætla að fara að byggja hús fyrir átta milljarða. Ég bara skil þetta ekki.“

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins sagði að hann sjálfur hefði viljað að aðrir möguleikar hvað staðarval nýrra höfuðstöðva varðar, hefðu verið skoðaðir. T.d. að flytja þær í Tollhúsið við Tryggvagötu.

Fjölmargir aðrir settu fram harða gagnrýni. Þar á meðal Vigdís Hauksdóttir, þáverandi formaður fjárlaganefndar, bæjarstjórar Vestmannaeyja og Kópavogs og þáverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Undarlegt ef ríkisbanki færi gegn vilja eiganda

Sigmundur Davíð, þá enn forsætisráðherra, hélt áfram að gagnrýna áformin opinberlega. Hann gagnrýndi í fyrsta lagi að gert væri ráð fyrir allt of miklu bygg­inga­magni milli Hörpu og gamla bæj­ar­ins, og þá gagn­rýndi hann for­gangs­röðun rík­is­bank­ans sem ætti fyrst og síð­ast að ein­beita sér að því að bæta kjör við­skipta­vina sinna. Það væri undarlegt ef banki í almannaeigu færi gegn því sem virtist vera augljós vilji eigenda, almennings og fulltrúa hans.

Jón Gunnarsson, þá formaður atvinnuveganefndar, lýsti sig einnig verulega andsnúinn byggingunni. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lagði til, í grein sem hann skrifaði, að höfuðstöðvarnar yrðu byggðar, en að í kjölfarið ætti að dreifa „um húsið þrjúhundruð þúsund sleggjum og hvetjið landsmenn alla til þess að koma og brjóta það niður í steinmola fyrir steinmola til að tjá reiði sína og fyrirlitningu á hrokanum og óhófinu sem einkenndi bankana fyrir hrun og skutu síðan upp kollinum rétt sem snöggvast í Landsbankanum árið 2015.“ Kári sagði enn fremur að það ætti að taka gjörninginn upp og senda sem framlag Íslands til næsta Feneyjatvíærings undir heitinu: „Meira en nóg til af þessari helvítis vitleysu.“

Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð, sem er þekktur fyrir gríðarlegan áhuga sinn á skipulagsmálum, var ekki hættur og sagði í samtali við Morgunblaðið í júlí 2015 að það væri hægt að hagræða með því að færa starfsemi Landbankans undir eitt þak með öðrum hætti en „að byggja glæsihýsi á dýrasta stað bæjarins á jafn ögrandi hátt og virðist stefna í þarna.“

Þáverandi samflokksmaður Sigmundar Davíðs, og núverandi ráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sagði á bloggsíðu sinni tveimur dögum síðar að hægt væri að halda opnum einhverjum þeirra útibúa sem bankinn hefði lokað í 100 til 150 ár, í stað þess að byggja nýju höfuðstöðvarnar. „Var verið að skerða þjónustu vítt og breitt um landið til að safna fyrir útborgun í nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins?”

Áformin endurskoðuð

Ljóst var að hin mikla pólitíska andstaða, sem birtist sérstaklega hjá stjórnarþingmönnum þessa tíma en einnig á meðal valinna borgarfulltrúa í minnihluta í Reykjavík, var að reynast stjórnendum Landsbankans erfið. Bankinn var enda í eigu ríkisins og erfitt fyrir stjórnendur og bankaráð að ganga gegn augljósum vilja meðal annars forsætisráðherra þjóðarinnar. Það fór að spyrjast út að til stæði að endurskoða mögulega áformin.

Þann 7 . ágúst 2015 var greint frá því að bankaráðið hefði ákveðið að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða nýbyggingu bankans við Austurhöfn, sem átti að hefjast síðar í þeim mánuði. Það yrði gert til að fara yfir þau sjónarmið sem fram hefðu komið vikurnar á undan.

Á þessum tíma steig meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur, sem samanstóð af Samfylkingu, Vinstri grænum, Pírötum og Samfylkingu, hins vegar fram og studdi formlega framkvæmdirnar. Björn Blöndal, þá formaður borgarráðs, sagði við Vísi að borgin vildi að framkvæmdir myndu hefjast sem fyrst. „Við viljum auðvitað ekki að þetta sé bara í einhverri biðstöðu um ókomna tíð. Miðað við það sem hefur verið kynnt fyrir okkur þá verður þarna fjölbreytt þjónusta. Verslanir, vissulega bankastarfsemi og önnur þjónusta. Það gefur líka möguleika á breyta nýtingu á því rými sem Landsbankinn er í fyrir í húsum í miðborginni, þá sérstaklega kannski gamla landsbankahúsið. Þannig að það er okkur ekkert á móti skapi, nema síður sé, að þessi starfsemi sé þarna.“

Í byrjun september voru fulltrúar Bankasýslu ríkisins kallaðir á fund fjárlaganefndar Alþingis til að ræða höfuðstöðvarnar fyrirhuguðu.

Aftur af stað

Lilja Björk Einarsdóttir tók við sem bankastjóri Landsbankans snemma árs 2017.  MYND: LANDSBANKINN

Í lok árs 2016 hafði bankastjóri Landsbankans misst starfið vegna Borgunarmálsins og fimm af sjö bankaráðsmönnum, þar á meðal formaður þess Tryggvi Pálsson, gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu á aðalfundi fyrr á því ári. Nýtt fólk var komið í brúnna hjá Landsbankanum. Formaður bankaráðs varð Helga Björk Eiríksdóttir og Lilja Björk Einarsdóttir var ráðin bankastjóri í janúar 2017.

Í maí 2017, rúmu ári eftir að skipt var um nær allt bankaráðið og einungis um tveimur mánuðum eftir að nýr bankastjóri tók við starfinu, sendi Landsbankinn út fréttatilkynningu. Höfuðstöðvarnar myndu rísa og þær myndu rísa við hlið Hörpu.

Niðurstaða greiningar KPMG fyrir bankann væri að Austurhöfn væri ákjósanlegasti kosturinn fyrir höfuðstöðvarnar. Landsbankinn ætlaði sjálfur að nýta tíu þúsund fermetra í húsinu en selja frá sér eða leigja 6.500 fermetra. „Nú hefst undirbúningsvinnan fyrir alvöru,“ sagði nýi bankastjórinn við þetta tilefni.

Fordæmalaust stjórnmálaástand

Í þetta skiptið bar minna á miklum mótbárum úr stjórnmálunum. Þar hafði fólk enda um margt annað að hugsa. Opinberun Panamaskjalana hafði leitt af sér haustkosningar 2016 sem skiluðu landinu í stjórnmálalega kreppu, þar sem afar illa gekk að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Slík var loksins mynduð snemma árs 2017 með minnsta mögulega meirihluta og undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Hún sat einungis í 247 daga þar til að hún sprakk vegna uppreist æru-málsins um miðjan september 2017. Það mál, ásamt afar umdeildri skipun dómara í Landsrétt í sumarbyrjun, hafði átt sviðið. Eftir að ríkisstjórnarsamstarfið féll saman var ráðist í aðrar kosningarnar á tveimur árum, og skammvinna kosningabaráttu í aðdraganda þeirra.

Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók síðan við í lok nóvember, lagði fram fjárlög, lauk þingstörfum fyrir jól og svo fóru þingmenn í langt jólafrí. 

Það var í þessu pólitíska ástandi sem endurnýjuð áform Landsbankans um byggingu nýrra höfuðstöðva voru sett á fullt skrið.

Í september 2017, á meðan að samfélagið lék á reiðiskjálfi vegna uppreist æru-málsins, auglýsti Landsbankinn eftir arkitektum til að hanna nýbygginguna. Sjö teymi voru svo valin til að skila frumgögnum um viku fyrir þingkosningarnar í lok október.

Þann 19. janúar 2018, tveimur dögum áður en Alþingi kom aftur til starfa eftir jólafrí, rann út frestur sjö arkitektateyma til að skila inn frumtillögum að hönnun nýbyggingar fyrir Landsbankann við Austurhöfn.

23. febrúar 2018 var greint frá því að Landsbankinn hefði ákveðið að ganga til samn­inga við Arkþing ehf. og C.F. Møller um hönn­un og þróun á ný­bygg­ingu bank­ans við Austurhöfn í Reykja­vík. Með fréttatilkynningunni var send út tölvuteiknuð mynd af væntanlegri byggingu, sem kallast „Kletturinn“. Bankastjóri og bankaráð stóðu að ákvörðuninni ásamt þriggja manna ráðgjafaráði. Framkvæmdir áttu að hefjast í byrjun árs 2019.

Nýj­ar höfuðstöðvar Lands­bank­ans rísa í miðbæn­um. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

„Það hlýtur að hafa komið inn í þá umræðu“

Þann 1. mars 2018 spurði Sigmundur Davíð, þá orðinn formaður hins nýja Miðflokks og í stjórnarandstöðu, nýjan forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, á Alþingi um „áform þess banka, ríkisbankans, um að byggja gríðarstórar höfuðstöðvar á líklega dýrustu lóð landsins hérna skammt frá í miðbænum, lóð sem er miklu stærri en lóðin sem bankinn hugðist byggja á þegar Landsbankinn átti að vera einhvers konar alþjóðlegur stórbanki og ætlaði að byggja sér höfuðstöðvar í Reykjavík[…]á tímum þegar eru að verða algerar grundvallarbreytingar í bankaþjónustu, þegar ljóst er að umfang bankaþjónustu eða yfirbygging mun minnka. Auk þess er ljóst að fyrir dyrum er veruleg endurskipulagning bankans. Það stendur til að selja stóran hlut í bankanum og endurskipuleggja starfsemi hans. Hvað finnst hæstvirtum forsætisráðherra um að á þeim tímapunkti ætli ríkisbankinn, Landsbankinn, að byggja nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins?“

Katrín svaraði spurningunni ekki beint, heldur sagði að hún vænti þess að áformin yrðu „yfirfarin í stjórn bankans þar sem Bankasýsla ríkisins skipar fulltrúa ríkisins.“

Hún sagðist þó vera sammála Sigmundi Davíð um að fyrir dyrum væru eðlisbreytingar á fjármálastarfsemi. „Ég vænti þess að innlendir bankar taki mið af því þegar þeir gera áætlanir sínar, hvort sem það er um húsbyggingar eða aðra starfsemi, að við eigum eftir að sjá miklar tæknibreytingar hafa áhrif á starfsemi innlendra banka sem væntanlega munu hafa áhrif á áform eins og háttvirtur þingmaður nefnir hér. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hver umræðan hefur verið í stjórn bankans um þessi mál, en það hlýtur að hafa komið inn í þá umræðu.“

„Þetta eru peningar almennings“

Í janúar 2019 var svo greint frá því að framkvæmdir við nýju höfuðstöðvarnar væru hafnar. Á þessum tíma stóðu yfir harðar kjaradeilur, þar sem ný og rótttæk forysta í verkalýðshreyfinunni fór mikinn. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tjáði sig á Facebook um málið  í lok janúar 2019. Þar sagði hann m.a.: „Á meðan um 800 til 1.000 börn búa við óviðunandi aðstæður í iðnaðarhúsnæðum mætti byggja um 1.500 hagkvæmar íbúðir fyrir „áætlaðan“ byggingarkostnað við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans.

Nokkrum dögum síðar sagði hann í samtali við Fréttablaðið um sama mál: „„Við græðum ekkert á flottræfilshætti í dag. Það eru allir búnir að sjá í gegn um þessa starfsemi. Fjármálakerfið þarf að sýna aðhald, auðmýkt og vilja til að vinna í samfélagslegri sátt við umhverfið.“

Í febrúar 2019 flutti Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, erindi á morgunverðarfundi Fjármálaeftirlitsins. Gylfi sagði bankana viljandi setja verðskrá sína fram með flóknum og óskýrum hætti þannig að neytendur ættu ekki möguleika á því að bera þær saman. Þetta, og önnur óskýr starfsemi bankanna, skili rentu sem sé ekki notuð til að bæta kjör til almennings heldur til að greiða há laun til starfsfólks fjármálafyrirtækja, skila miklum hagnaði og til að byggja nýjar byggingar. Þar vísaði hann til áætlana um að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við hlið Hörpu. „Landsbankahúsið er tíu sinnum dýrara fyrir Ísland heldur en múrinn við landamæri Mexíkó sem Bandaríkjaforseti vill byggja. Af hverju? Þetta eru peningar almennings.“

Þessi gagnrýni, ekki frekar en önnur, breytti nokkru um áformin. Áætlaður kostnaður við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, „Klettinn“, nemur níu milljörðum króna og stefnt er að því að bankinn muni flytja inn í þær annað hvort 2021 eða 2022.

.

Fleira áhugavert: