Sæstrengur – Í skoðun frá 1980

Heimild:

.

Mynd frá Landsvirkjun

Október 2010

Sæstrengur og þrír milljarðar evra

„Ég er með tvo aðila sem eru áhugasamir um að fjármagna lagningu sæstrengs fyrir Landsvirkjun til að flytja orku til meginlandsins. Þetta er verkefni upp á 3 milljarða evra… Við skulum átta okkur á því að núna fær Landsvirkjun helmingi lægra verð fyrir orkuna heldur en hún fengi á alþjóðamarkaði… Þessi tækni hefur verið til í 15 ár en stjórnmálamenn hafa engan áhuga haft á henni. Þeir skeyta ekkert um alþjóðlega markaði heldur vilja bara selja orkuna heim í hérað á hrakvirði og byggja þar verksmiðju“.

heidar-mar-iceland.jpg

Heiðar Má Guðjónsson

Hér er á ferðinni tilvitnun í Heiðar Má Guðjónsson í viðtali sem birtist á forsíðu Fréttatímans nú um helgina. Heiðar Már er þar sagður hafa verið kallaður Svarthöfði vegna efasemda sinna um útþenslu bankanna og að hann hafi haft uppi varnaðarorð allt frá árinu 2005. Eða einmitt á þeim tíma þegar Orkubloggarinn fór sjálfur að hnykla brýrnar yfir bönkunum.

Heiðar Már er fyrrum starfsmaður Novators Björgólfs Thors og það eitt og sér veldur því að sumir hér á Klakanum góða verða tortryggnir. Skiljanlega. Það breytir því þó ekki, að umrædd ábending Heiðars Más um orkuverðið og framkomu stjórnmálamannanna er einfaldlega hárrétt. Og það er líka full ástæða til að taka undir orð hans, sem fram koma í viðtalinu, um að vonandi takist hinum nýja forstjóra Landsvirkjunar, Herði Arnarsyni, að nýta vaxtarmöguleikana sem felast í svona sæstreng.

Ketill Björnsson – Orkubloggari

Heiðar Már hefur verið mikið á milli tannana á fólki síðustu dagana – vegna meintra áætlana hans og Novators um að taka þátt í að sjorta krónuna og hagnast þannig á falli hennar. Nú vill reyndar svo til að það að taka skortstöðu vegna gjaldmiðils eru bara viðskipti eins þau gerast á Eyrinni um allan heim á degi hverjum. Þ.a. það þýðir lítið að úthrópa sjortara sem eitthvað verri menn heldur en þá sem veðja á hinn veginn; að gjaldmiðill, hlutabréf, hrávara eða hvað sem er hækki í verði. Þá mætti eins halda því fram að þeir sem eru „long“ í krónunni séu að taka þátt í ægilega ljótu veðmáli gegn íslenska sjávarútveginum og öðrum framleiðslugreinum sem byggja á útflutningi. Það er vandlifað.

En Orkubloggarinn ætlar ekki að fara hér að verja umræddan mann og enn síður Bjórgólf Thor. Heldur beina athygli að nokkrum atriðum sem fram koma í áðurnefndu viðtali. Þetta viðtal er nefnilega um margt athyglisvert. Þar er m.a. bent á ákveðna staðreynd sem tímabært er að Íslendingar átti sig: Þjóðin er svo gæfusöm að eiga æpandi miklar og mikilvægar náttúruauðlindir; hina nánast heilögu þrenningu vatn, prótín og orku. Gæti varla betra verið – í alvöru talað. Og það eru ekki síst þessar auðlindir sem eru til þess fallnar að börnin okkar og barnabörn geta horft fram á bjartari framtíð en flestir aðrir í heimi hér.

climate-change_index_countries_at_risk_map.png

climate-change_index_countries_at_risk_map

Heiðar Már nefnir líka í viðtalinu annað afar mikilvægt atriði, sem Orkubloggarinn hefur sjálfur nokkrum sinnum minnst á og snertir okkur Íslendinga. Nefnilega það að sennilega standa fáar þjóðir jafn vel að vígi vegna hlýnandi loftslags, eins og einmitt Íslendingar. Þetta eru ekki bara orðin tóm – og þetta byggist ekki bara á því að það verði ósköp notalegt að fá aðeins mildari sumur hér á Klakanum góða. Þetta er beinlínis orðið vísindalega viðurkennt.

Vísinda- og fræðimenn virðast almennt orðnir sammála um það að afar litlar líkur séu t.a.m. á því að hlýnunin muni valda því að Golfstraumurinn hætti að fara hingað norður eftir (en það myndi geta valdið mikilli kólnun á Norðurslóðum og ekki síst við Ísland). Þess í stað bendir nú flest til þess að Golfstraumurinn haldi sínu striki og beri ennþá meiri varma hingað norður. Og það verði einmitt lönd eins og Noregur og Ísland sem muni koma best út af öllum ríkjum heimsins í kjölfar hlýnunar. Auðvitað er illmögulegt að segja hver áhrifin verða, en gangi þetta eftir merkir það einfaldlega að staða Íslands mun hlutfallslega styrkjast í framtíðinni.

hvdc-kapall-thversnid-2.jpg

hvdc-kapall-thversnid

Heiðar Már bendir sem sagt þarna á nokkur afar mikilvæg atriði. Og honum virðist umhugað um að Landsvirkjun fari í það að leggja rafstreng héðan til Evrópu. Það rímar að sumu leyti vel við það sem margoft hefur verið fjallað um hér á Orkublogginu. Það er eftir engu að bíða að reyna koma þessum kapalmálum á fullt skrið.

Engu að síður þykir Orkubloggaranum svolítið sérkennilegt að Heiðar Már talar um að einhverjir séu tilbúnir að fjármagna sæstreng milli Íslands og Evrópu „fyrir Landsvirkjun“. Það væri varla neitt vit í því að Landsvirkjun færi að ráðast í svo mikla fjárfestingu og taka á sig alla rekstraráhættuna vegna strengsins. Svona framkvæmd getur varla orðið álitleg nema að t.d. eitthvert stórt TSO á meginlandinu taki þátt í henni. T.d hollenska TenneT eða þýska RWE svo dæmi séu tekin (TSO stendur fyrir Transmission System Operator og hér á landi er Landsnet í því hlutverki).

Með því móti mætti með einföldum hætti dreifa kostnaðinum af kaplinum á alla orkusölu viðkomandi TSO. Kapallinn yrði bara lítill hluti af risastóru dreifineti og með þessu yrði unnt að takmarka áhættuna og þar með auðveldara og ódýrara að fjármagna framkvæmdina.

lansvirkjun-hordur-hvdc-april-2010.png

lansvirkjun-hordur-hvdc-april-2010

Auðvitað eru til önnur prýðileg viðskiptamódel um svona kapal – en samt dálítið galið að ætla að láta Landsvirkjun gera þetta. Sennilega væri kapall til Þýskalands í samstarfi við RWE einhver hagkvæmasta, raunhæfasta og öruggasta leiðin. Af því bæði er raforkuverð hátt í Þýskalandi og flutningskerfið þar afar vel búið til að taka við svona nýjum tengingum. Þar með er ekki sagt að ekki megi finna enn betri kosti – þetta er einfaldlega bara það sem kemur fyrst upp í hugann þegar maður veltir fyrir sér hvernig mætti útfæra svona verkefni svo vel sé. En leiðin sem Heiðar Már nefnir er ósannfærandi.

Bloggaranum þykir líka svolítið sérkennileg sú upphæð sem Heiðar Már lætur hafa eftir sér um kostnað vegna strengsins. Af því það er hæpið að strengurinn myndi kosta 3 milljarða evra, eins og Heiðar Már heldur fram. Svona kapall ásamt spennubreytum og tengimannvirkjum myndi að öllum líkindum kosta umtalsvert lægri fjárhæð en það – og er því væntanlega ennþá betri bissness en Heiðar Már álítur. Orkubloggarinn ætlar að láta vera að geta sér til um hver sé ástæðan fyrir þessari ofáætlun Heiðars Más. En það eru skrítnir fjárfestar sem bjóða fram 3 milljarða evra í verkefni sem flestir álíta að sé miklu mun ódýrara.

norned_hvdc_europe.jpg

norned_hvdc_europe

Í reynd veit þó vissulega enginn nákvæmlega hvað þetta myndi kosta. Þetta væri margfalt lengri neðansjávar-rafmagnsstrengur heldur en sá lengsti sem lagður hefur verið fram til þessa. NorNed er sá lengsti; hann er um 580 km og kostaði 600 milljón evrur. Ef miðað er við að strengur frá Íslandi lægi til Þýskalands, þá yrði hann um 2.000 km langur. Meira en þrisvar sinnum lengri en NorNed!

Dýpið sem strengurinn lægi á yrði líka talsvert miklu meira en grunnsævið sem NorNed fer um. Þar er mesta dýpið rúmir 400 metrar, en á kafla myndi Íslandsstrengurinn þurfa að liggja á allt að 1.000 metra dýpi. Það þekkist þó að slíkir háspennustrengir í sjó liggi á ennþá meira dýpi. En þarna fer saman mikil lengd og verulega mikið dýpi. Þetta yrði því áhættusöm framkvæmd.

Vissulega er þessi HVDC-tækni löngu orðin vel þekkt og slíkir strengir á landi eru í sumum tilvikum mörg þúsund km langir. Ekki síst austur í Kína, sem er sannkallað gósenland fyrir ABB og aðra þá sem koma að framleiðslu og uppsetningu þessa tæknibúnaðar. En reynslan með mjög langa HVDC-strengi í sjó er ekki mjög mikil enn sem komið er. Og það yrði risaskref að fara úr 580 km og í 2.000 km sæstreng.

norned_hvdc-cable-work-1.png

norned_hvdc-cable-work

Hjá ABB segja menn að þetta sé hægt. Og að svona langir kaplar verði orðnir staðreynd e.h. staðar í heiminum eftir tiltölulega fá ár. Mesta áhættan liggur í því ef – eða öllu heldur þegar – bilanir verða. Það er ekki einfalt mál að „kippa“ svona streng upp til að laga hann. Né að framkvæma viðgerð á mörg hundruð metra dýpi. Og á meðan verið er að stússa í viðgerðum liggur allur flutningur um strenginn niðri, með tilheyrandi æpandi tekjutapi. Hver á að bera áhættuna af því? Vill einhver tryggja svona metnaðarfulla framkvæmd – svona mikið nýjabrum?

Höfum líka í huga að NorNed-kapallinn var ýmist grafinn talsvert ofaní hafsbotninn eða – þar sem því varð ekki viðkomið að grafa hann niður – varinn með grjóti. Þetta var m.ö.o. ekki einföld framkvæmd. Þó svo Orkubloggarinn hafi stundum talað fjálglega um svona kapal milli Íslands og Evrópu, er ekki unnt að fullyrða að þetta sé örugglega hagkvæmt. Til að geta komist að raunverulegri og nákvæmri niðurstöðu þar um, þarf einfaldlega að skoða þetta af alvöru og þá með þeim fyrirtækjum sem best þekkja til svona neðansjávar-HVDC-kapla.

norned_hvdc-cable-work-3.png

norned_hvdc-cable-work

En það er margt að gerast í þessum kapalmálum. Það er jafnvel búist við að senn komi fram ný tegund af neðansjávar-rafstrengjum sem verði miklu hagkvæmari og betri en þeir sem þekkjast í dag. Og hvað sem allri áhættu og óvissu líður er svo sannarlega mikilvægt að þetta verði athugað mjög gaumgæfilega.

Það er hárrétt sem Heiðar Már segir í umræddu viðtali, að svona strengur myndi gjörbreyta samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart stóriðjunni. Álbræðslurnar hér á landi eru í áratugi búnar að mergsjúga til sín allan þann arð sem myndast í raforkuvinnslu á Íslandi. Stóriðjan hefur tvímælalaust borð fyrir báru til að greiða umtalsvert hærra raforkuverð en það sem hún hefur komist upp með til þessa.

verne-global-homepage.jpg

verne-global-homepage

En það getur orðið vandasamt að ná fram hækkunum hér á raforkuverði til stóriðjunnar – nema að búa til nýja eftirspurn og virkari samkeppni um orkuna. Það gæti gerst með svona 10-20 gagnaverum (sic) og/eða með því að leggja sæstreng til Evrópu (eða Kanada).

Að þessu þarf að vinna af krafti. Þetta gæti orðið eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar og skapað mikinn arð af raforkuframleiðslunni. Þarna dugir þó ekki óðagot. „Svarthöfði“ verður að passa sig á að halda bjartsýninni í hófi. En sé það rétt að 3 milljarðar evra séu tiltækir núna, verður reyndar varla erfitt að útvega fjármagn í þetta þegar þar að kemur. Þannig að kannski er barrrasta fyllsta tilefni til bjartsýni.

Fleira áhugavert: