Tesla Model 3 – Mest seldi fólksbílinn

Heimild: 

.

Tesla Model 3

Apríl 2020

Ótrúleg sala á Teslu

Sigurður Már Jónsson

Það er merkilegt að sjá nýja tækni og nýtt vörumerki taka jafn afgerandi yfir eldri og rótgróin markað eins og birtist í sölu Teslu rafmagnsbílsins hér á landi það sem af er ári. Vitaskuld mótast salan af því mikla stoppi sem hér hefur orðið vegna COVID-19 faraldursins en það sem af er þessu ári hafa 433 bifreiðar af Teslure verið nýskráðar hér á landi eins og kom fram í Morgunblaðinu. Tesla ber þannig höfuð og herðar yfir aðra bílaframleiðendur hvað sölu fólksbíla varðar á árinu. Næstvinsælasta bíltegundin er Toyota, eða 361 bifreið, og þriðja mest selda tegundin er Volkswagen, eða 219 bifreiðar. Á Íslandi er mikill og vaxandi áhugi fyrir rafmagnsbílum og þá sérstaklega Teslu. Á Facebook má sjá að minnsta kosti þrjár íslenskar síður þar sem fer fram ástríðufull umræða um bílanna. Teslu-eigendur eru greinilega stoltir af bílum sínum og keppast við að kynna það. Sumt í sölustarfi félagsins byggist einmitt á að umbuna Teslu-eigendum fyrir að draga inn nýja viðskiptavini. Kannski smá vottur af píramídasölukerfi?

Meiri munur í mars

Ef nýliðinn marsmánuður er skoðaður sérstaklega er munurinn enn meiri, en þá voru 403 Teslur nýskráðar, en 134 Toyotur samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Augljóslega ríkti mikil spenna fyrir Model 3 bílnum sem var að seljast hér á verði frá sex milljónum króna enda njóta rafmagnsbílakaupendur enn niðurfellinga gjalda. Margt bendir til þess að Model 3 geti orðið Model T-Ford Teslu-fyrirtækisins svo vitnað sé í framleiðslusögu bíla!

Ford Model T 1912

Í Morgunblaðinu er bent á að sé flokkað sérstaklega eftir orkugjafa komi í ljós að fáir komast með tærnar þar sem Tesla hefur hælana. Næsti rafbílaframleiðandi á eftir Tesla er Audi með 97 nýskráningar og Nissan með 91. En þegar dreifing Teslu bílanna er skoðuð þá miðast sala þeirra fyrst og fremst við höfuðborgarsvæði og eitthvað út á suðvesturhornið. Þrátt fyrir að Tesla bjóði upp á meiri drægni en margir aðrir rafbílaframleiðendur þá virðist salan enn takmarkast við þéttbýlissvæði.

Verðmætið eykst stöðugt

Í upphafi árs var vakin athygli á því hér í pistli að Tesla væri orðin verðmætasti bílaframleiðandi heims en bréf félagsins fóru í fyrsta sinn yfir 500 dali á hlut í janúar. Nú eru þau 50% hærri, sveiflast nálægt 700 til 750 dölum á hlut. Á síðustu þremur mánuðum síðasta árs tvöfölduðust bréf Tesla í verði en hafa má í huga að miklar sveiflur eru á bréfum félagsins, sem og annarra í amerískum kauphöllum þess daganna.
Nú sem áður eru gríðarlegar væntingar bundnar í verði Tesla en félagið framleiðir miklu færri bíla en aðrir framleiðendur og hafa má í huga að það eru aðeins átta ár síðan fyrsti bíll félagsins kom í sölu en Tesla Model S, var kynntur til leiks árið 2012.

Hlutabréfamarkaðurinn virðist hafa trú á að Elon Musk, stofnandi og aðaleigandi Tesla, standi við stóru orðin og greiningaraðilar hafa sýnt félaginu gríðarlegan áhuga en hann hefur náð að gera skortsölumönnum slíkar skráveifur að annað eins hefur ekki sést. Ekkert lát virðist á tiltrú fjárfesta og nýjar upplýsingar um hve vel gengur að koma framleiðslu af stað í Kína draga ekki úr því. Sem fyrr leggur Musk gríðarlega áherslu á þróun rafhlaðna í bílinn og virðist stöðugt vera að bæta forskot sitt þar.

Fleira áhugavert: