Gardermoen – Grunnvatn hitar/kælir

Heimild: 

.

Mars 1996

Varminn í flugstöðina kemur frá jarðvatni

Það má nýta jarðvatnið á margan hátt. Í Ósló verður grunnvatnið notað til þess að hita upp byggingar við nýjan flugvöll á veturna og kæla þær á sumrin.

Þeim fer að fækka flugvélunum sem lenda á Fornebu-flugvelli við Ósló, nýr flugvöllur er í byggingu og nefnist Gardermoen. Mikið er vandað til flugstöðvarinnar og á hún að verða sýnishorn af norskri byggingalist. Þetta er engin smábygging, 72.000 ferm, en síðar bætast fleiri byggingar við. Þakhæðin í aðalsalnum er 15 m við suðurhlið en 25 m við þá nyrðri.

Það er ekki lítil orka sem fer í að hita upp þetta rými og þar er fundin skemmtileg og áhugaverð lausn fyrir alla sem áhuga hafa á lagna- og orkumálum.

Fljótandi flugvöllur

Undir Gardermoen-flugvelli er mesti forði Noregs af grunnvatni, það er fleira byggt á vatni en Ráðhús Reykjavíkur.

En þessi mikli forði hefur marga kosti og svo er nútímabyggingatækni fyrir að þakka að flugstöð, stjórnturn og flugbrautir munu ekki haggast.

En það merkilega er að grunnvatnið er notað til að hita upp byggingar á vetrum og til að kæla þær á sumrum. Það getur orðið býsna heitt við Óslóarfjörðinn á sumrum en líka kalt á vetrum. Yfir sumartímann er grunnvatninu dælt upp um marga brunna og notað í kælielementum til að leiða óæskilegan hita í burtu, síðan dælt aftur niður í jörðina fjær um nokkra brunna.

Við þessa vegferð hefur grunnvatnið sem kemur upp úr jörðinni 6 gráður C hitnað upp í 30 gráður C. Þetta er ekki talið hafa nein áhrif á gróður á svæðinu, í það minnsta ekki neikvæð.

Haustið kemur og kólnar í veðri

Með haustinu er dæminu snúið við, þá er vatni dælt upp úr brunnunum sem dælt var í yfir sumarið, vatnið látið fara í gegnum varmadælur sem hækka hitann umtalsvert þannig að hægt er að hita upp allar byggingar á vellinum.

Grunnvatnið kemur nú upp 20 gráður C og við ferð sína í gegnum varmadæluna lækkar hitinn niður í 4 gráður C. Það má því segja að þá sé verið að endurvinna varmann sem tekinn var úr flugstöðinni yfir sumarið og sendur til geymslu niður í jörðina.

Það væri of langt mál að fara að lýsa varmadælu hér og nú. Hæfileiki hennar er í stuttu máli að skila þrefalt meiri orku en hún notar, fyrir hvert kílówatt sem hún notar skilar hún þremur til baka.

Við þessa vinnslu fer lítil orka til spillis, nálægt 90% af varmanum sem sendur var niður í grunnvatnið yfir heitari árstíðina næst aftur yfir þá köldu.

Varma- og kælikerfið sem búið er að setja upp mun nægja þeim byggingum sem eiga eftir að bætast við en áætlað er að þær verði samanlagt 150.000 ferm.

Orkan sem þarna er á ferðinni er ekkert smáræði, til hitunar fara 23 gígawattstundir og til kælingar 4 gígawattstundir.

Þetta hita- og kælikerfi er frumherjaverk í Noregi og þó víðar væri leitað.

Gardermoen flugvöllur við Ósló með flugstöð, stjórnturni og járnbrautarstöð.

Fleira áhugavert: