Sögulegt gildi – Kamrar, háskolandi kassar, fl.
.
Nóvember 2005
Hvenær fara hlutir að fá sögulegt gildi?
Ekki verður með sanngirni sagt að Íslendingar láti sig ekki minjar varða. Fornleifarannsóknir eru stundaðar á hverju sumri og alltaf finnst eitthvað markvert, gamlar hleðslur, ýmsar leifar mannvistar og það er hátíð hjá fornleifafræðingum þegar jafnvel finnast kuml og heilar beinagrindur.
En það er eitt að grafa eftir gömlum minjum margra alda gömlum, eða að skynja sögugildi nútímans og hvað er að öðlast gildi nákvæmlega á þessari stundu. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna ýmislegt sem safnarar vilja eignast og gefa fyrir talsverð verðmæti. Það á jafnt við um þá sem eru safnarar af ástríðu og safna þá ákveðnum gripum af sama flokki, eða hvern þann sem sankar að sér ýmislegu sem var nánast í hvers manns eigu fyrir hálfri öld eða liðlega það.
Gamla bændasamfélagið hefur mikið aðdráttarafl. Þeir eru margir sem í dag vilja gjarnan eiga gamalt vagnhjól eða klyfbera. Ekki er víst að öllum sé ljóst hvað klyfberi var og það væri jafnvel efni í heilan pistil að skilgreina og segja frá notkun hans og þeim hlutum sem honum fylgdu. Klyfberinn hafði mikið notagildi þar sem voru engir vegir. Þá var ekki um annað að ræða en hengja það sem flytja átti á hross, það gat verið varningur úr kaupstað eða heybaggar af engjum og þá varð til orðið klyfjar. Þær voru hengdar á klyfberann sem lagður var á reiðing á baki hrossa á sama hátt og hnakkur. Allir vita hvað hnakkur er, það orð skilja allir í dag hvar sem þeir eru staddir á lífsleiðinni frá vöggu til grafar.
Í þessu yfirþyrmandi neyslusamfélagi úir og grúir af öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Sýknt og heilagt er verið að finna upp nýjar þarfir. „Þetta verð ég að eignast“ hugsa flestir þegar eitthvað nýtt ber fyrir augu á skjá, í blaði eða búðarglugga. En nú er ævi hlutanna ekki löng, allt er á hverfanda hveli og flest allt er einnota. Eftir ákveðinn tíma skal því hent enda er förgunariðnaður orðin meiri háttar atvinnuvegur og fjölmörg sveitarfélög eru í syngjandi vandræðum með að finna nýja og nýja urðunarstaði og aðferðir til að losna við ósköpin.
En skyldi eitthvað af þessu eignast sögulegt gildi með tímanum? Erum við nægilega á verði til meta hvaða eintaki af þessari eða hinni tegundinni skuli halda til haga? Kannski er óþarfi að vera að hugsa um slíkt, fornleifafræðingar framtíðarinnar geta stungið reku í hvaða hól sem er og þar mun allt dótið vera. Nei, tæpast, það verður líklega tært og visnað innan skamms tíma, sem betur fer.
Með þessum pistli fylgja þrjár myndir af hlutum sem ekki ber fyrir hvers manns augu í dag og sumum kann að þykja lítil ástæða til að varðveita. Tæplega finnst á nokkru byggðu bóli kamar í dag, þó líklega til fjalla. Þetta var þó á fyrri hluta síðustu aldar tákn menningar á sveitabæjum, langt í frá að kamrar væru á hverjum bæ.
Sú var tíðin að það þótti mikil framför að hafa rennandi vatn í hýbýlum, einn krani fyrir kalt vatn og síðar kom annar fyrir heitt. En svo fann einhver upp blöndunartækið, það var merk uppfinning, en vissulega var útlit þeirra æði frábrugðið blöndunartækjum í dag. En eins og sjá má hefur skreytilistin ætíð fylgt þessum tækjum eins og flestu ef ekki öllu sem inn í baðherbergið fer.
Þá er það háskolandi kassi við klósett, mjög algengt tæki fyrir rúmri hálfri öld en líklega hvergi í notkun í dag, Frá þessum kössum fékkst mikill fall og vatnshraði sem mönnum þótti nauðsynlegt til að tryggja góða skolun salernisskála.