Vatnsúðakerfi – „Kemur ekkert fyrir mig“

Heimild:

.

Mars 1996

Að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofaní

Vatnsúðakerfin eru ekki ný af nálinni. En það hefur gengið treglega að fá fasteignaeigendur og aðra til að fjárfesta í þeim.

Það er sama hvar borið er nið ur hérlendis varðandi öryggi og slysavarnir, allir hugsa það sama: „Það kemur ekkert fyrir mig“.

Fjögur ungmenni liggja alvarlega slösuð eftir bílveltu, líklegt að ekkert þeirra lægi á sjúkrahúsi ef þau hefðu haft þá fyrirhyggju að spenna bílbeltin, verðmæti tapast á margan hátt í bruna, óveðri og af fleiri orsökum. Því miður kemur þá oft í ljós að tryggingar eru ekki í lagi, lögbundnar tryggingar ná ekki til allra verðmæta.

En það er hægt að verjast hinum geigvænlega eyðingarmætti eldsins með fleiru en tryggingum en raunar má segja að ef það bætir tjónið að fá tryggingarfé sé einhver annar að tapa.

Þá eru allir að tapa.

Nýlega hafa orðið stórtjón vegna bruna í skipum og litlu munaði að manntjón yrði.

Það er meira en líklegt að sum þessara tjóna hefði mátt koma í veg fyrir, hvort sem er á skipum eða húsum, ef rétt hefði verið staðið að brunavörnum.

„Sprinkler“

Það sem í raun gerist þegar eldar brenna er að fast eða fljótandi efni breytist með ógnarhraða í lofttegund, skiptir um form. Við það leysist gífurleg orka úr læðingi, eldar brenna. Þetta er í raun sama ummyndunin og verður við sprengingu þó henni fylgi ekki sýnilegur eldur.

Til að slökkva elda er tvennt árangursríkast, annarsvegar að neita eldinum um sína uppáhaldsfæðu sem er súrefni. Eldur sem ekki fær súrefni sér til næringar er dauðans matur, hann slokknar. Eldur sem kviknar í feitipotti verður best slökktur með því að kasta yfir hann einhverju klæði svo að hann kafni. Hina árangursríkustu aðferðina má alls ekki nota við slíkan eld, þá má ekki nota versta óvin eldsins, vatnið.

Það er orðið æði langur tími síðan farið var að leggja eldvarnarkerfi sem byggðust á því að net af rörum dreifðu vatni eða vatnsúða yfir eld ef hann kviknaði. Þessi kerfi hafa lengst af gengið undir slanguryrðinu „sprinkler“ en á síðustu árum er íslenska orðið „vatnsúðakerfi“ að ná meiri fótfestu.

Það er því engan veginn hægt að segja að vatnsúðakerfi séu nýjung en það hefur gengið treglega að fá fasteignaeigendur, skipaeigendur og aðra sem hagsmuna eiga að gæta til að fjárfesta í slíkum kerfum. „Það kemur ekkert fyrir mig,“ hugsa margir, allt of margir.

„Það kemur ekkert fyrir mig“

Stöðug þróun

Fyrstu vatnsslökkvikerfin voru einfaldlega þannig að hægt var að hleypa vatni á nokkra vatnsstúta í lofti ef eldur kviknaði en síðar voru þróuð kerfi þar sem eldurinn sá sjálfur um að setja óvin sinn í gang. Einnig uppgötvuðu menn fljótt að hægt var að stórauka slökkvimátt vatnsins með því að „splundra“ vatnsbununni, með vatnsúða var hægt að ráða við stærri elda með minna vatni.

Sífellt er verið að þróa nýja úðastúta, einn af þeim nýjustu er dönsk framleiðsla sem að sjálfsögðu heitir upp á dönsku „sem-safe“. Vatninu er dælt út um úðastútana með 100 bara þrýstingi, það er líklega allt að hundraðfaldur þrýstingur á við þrýstinginn í miðstöðvarofnunum heima hjá þér.

Við þennan gífurlega þrýsting breytist vatnið í fínan úða þegar það fer út um úðastútinn, einn lítri af vatni verður þá að úða sem dreifist á um 170 fermetra svæði, vatnsúðinn er svo fínn að hann berst inn í eldinn, sameinast honum ef svo má segja. Þá breytist hann í gufu en í það fer mikið af orku eldsins, hann örmagnast og deyr, í þeim tilfellum verður hann fáum harmdauði.

En þrátt fyrir mikið þróunarstarf, þrátt fyrir mikinn áróður og þrátt fyrir að vatnsúðakerfin hafi bjargað gífurlegum verðmætum á umliðnum árum fljóta alltof margir sofandi að feigðarósi.

Á að vera til það trésmíðaverkstæði, bílaverkstæði eða vélarúm í skipi sem ekki hefur slíkan búnað svo dæmi séu tekin?

Svari hver fyrir sig.

Fleira áhugavert: