Samræmdar reglur um orkumerkingar gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Orkumerkingar sýna meðal annars orkunotkun vörunnar á kvarðanum A+++ til G ásamt ör sem vísar í viðeigandi orkuflokk sem varan tilheyrir. Því ofar sem örin er á orkumerkingunni því orkunýtnari er varan. Auk orkunotkunar sýnir orkumerkingin aðrar viðeigandi upplýsingar eins og vatnsnotkun og hljóðstyrk vörunnar. Þessar upplýsingar hjálpa neytendum að taka upplýstar ákvörðun um kaup. Einungis nýjar vörur sem eru til sýnis í verslun eiga að vera orkumerktar og vörunum á að fylgja orkumerking á vörunni og ofan í umbúðum.
Vörur sem eiga að bera orkumerkingar eru heimilistæki, ljósaperur og lampar, sjónvörp, loftræstieiningar, ryksugur, hjólbarðar og hitarar.
Hvað sýnir orkumerkingin?
Orkumerkingin veitir allar þær upplýsingar sem neytandinn þarf til að taka upplýsta ákvörðun um orkunýtningu vörunnar. Stuðst er við kvarðann A+++ til G þar sem vörur sem eru merktar A+++ eru orkunýtnastar. Orkumerkingin segir til um árlega orkunotkun í kílóvattstundum á ári. Einnig tilgreinir hún aðrar upplýsingar eins og vatnsnotkun í lítrum á ári, hljóðstyrk í dB eða þurrkunarafköst ef við á. Hvað ísskápa varðar sýnir orkumerkingin til dæmis samanlagt rúmmál allra kæli- og frysthólfa en aftur á móti sýnir orkumerking uppþvottavéla árlega vatnsnotkun í lítrum og þurrkhæfni.
Hér má sjá dæmi um orkumerkingu fyrir uppþvottavél til heimilisnota.
I: Nafn eða vörumerki birgis.
II. Tegundarauðkenni.
III. Orkunýtniflokkur vörunnar.
IV. Árleg orkunotkun í kílóvattstundum.
V. Árleg vatnsnotkun í lítrum.
VI. Þurrkhæfni.
VII. Afköst miðað við staðalborðbúnað.
VIII. Hljóðstyrkur í DB
Vörur með minnstu orkunotkun hafa dökkgrænt merki. Auk þess að sýna hversu mikla orku varan notar sýnir orkumerkingin aðrar staðlaðar upplýsingar eins og til dæmis vatnsnotkun og hljóðstyrk vörunnar. Orkumerkingar Evrópusambandsins beinast fyrst og fremst að orkunotkun á notkunartíma á líftíma vörunnar. Kröfur um orkumerkingar gilda aðeins um nýjar vörur.